Gerðir kirkjuþings - 2018, Qupperneq 19
19
Finnbjarnardóttir fulltrúi, Arnór Skúlason arkitekt, verkefnisstjóri á fasteignasviði og
Skúli Guðmundsson, lögfræðingur kirkjuráðs, sviðsstjóri fasteignasviðs kirkjumálasjóðs
og lögfræðingur kirkjuþings.
Verkefni kirkjuráðs á starfsárinu
Reglulegt kirkjuþing, 56. kirkjuþing 2017, var haldið í Vídalínskirkju og hófst hinn 11.
nóvember 2017. Hinn 15. nóvember var því frestað og framhaldið 10. mars 2018.
Alls voru 22 mál á dagskrá þingsins og 19 þeirra voru afgreidd frá því. Eitt mál var dregið
til baka, einu máli var vísað frá þinginu og eitt mál var ekki afgreitt. Kirkjuráð lagði fram
sex mál, biskup Íslands flutti fimm mál, löggjafarnefnd þrjú mál, kirkjuþing unga fólksins
eitt mál og þjóðmálanefnd eitt mál. Þingmannamál voru sex.
Aukakirkjuþing var haldið í Neskirkju hinn 30. mars 2017. Tvö mál voru á dagskrá og
voru þau bæði afgreidd frá þinginu.
Skal nú gerð grein fyrir störfum kirkjuráðs við framkvæmd samþykkta kirkjuþings.
Ályktanir og samþykktir 5. kirkjuþings 2017 og viðbrögð kirkjuráðs við þeim.
Mál 56. kirkjuþings sem vísað var til kirkjuráðs eða kirkjuráð ákvað að taka á dagskrá
sína voru tekin fyrir á (2)72. fundi kirkjuráðs hinn 12. desember og þar afgreidd með
eftirgreindum hætti:
1. 1. mál, skýrsla kirkjuráðs.
Kirkjuþing 2017 ályktar um mikilvægi þess að bæta stöðu kynningar- og
upplýsingamála þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing ályktar að tímabært sé að auka samstarf og sameiningu sókna, jafnt í
þéttbýli sem dreifbýli og tekur undir það að Jöfnunarsjóður sókna veiti sóknum sem
sameinast fjárstyrki vegna þess. Forseti kirkjuráðs lagði til að sérstakt átak verði gert
til að tryggja máli þessu framgang.
Kirkjuþing ályktar að starfshópur um skírnarfræðslu, sbr. áfangaskýrslu á fylgiskjali
með skýrslu kirkjuráðs, sem lögð hefur verið fram á kirkjuþingi til kynningar,
haldi áfram störfum og leggi fyrir næsta kirkjuþing tillögur sínar í samræmi við
framangreinda áfangaskýrslu. Lagt til að veitt verði einni milljón króna í verkefnið.
2. 7. mál. Þingsályktun um hlutdeild unga fólksins í kirkjustarfi og stjórn.
Kirkjuþing 2017 beinir því til biskups Íslands, forsætisnefndar kirkjuþings og
kirkjuráðs að fara yfir eigið skipulag og starfsemi, svo og þær nefndir og önnur
fjölskipuð stjórnvöld, nefndir og ráð sem starfa á þeirra vegum og leggja fram á
kirkjuþingi 2018, eftir því sem þurfa þykir, tillögur að nauðsynlegum breytingum á
starfsreglum til að ná markmiðum í ályktun tólfta þings Lúterska heimssambandsins
frá árinu 2017 um þátttöku unga fólksins í stjórn aðildarkirkna sambandsins.
Kirkjuráð ályktar að starfsliði þess verði falið að vinna að framgangi málsins.
3. 8. mál. Þingsályktun um jöfn hlutföll kynja í stjórnum, nefndum og ráðum innan
þjóðkirkjunnar.