Gerðir kirkjuþings - 2018, Síða 20
20 21
Kirkjuþing 2017 ályktar að jöfn hlutföll kynja skuli ávallt vera í öllum stjórnum,
nefndum og ráðum á vegum þjóðkirkjunnar, eins og kveðið er á um í jafnréttisstefnu
þjóðkirkjunnar frá 2009, með síðari breytingum. Skulu að jafnaði sitja þar að
minnsta kosti 40% konur og að minnsta kosti 40% karlar. Kirkjuráð fylgi því eftir að
við þessi viðmið sé staðið eins og kostur er.
4. 10. mál. Þingsályktun um ráðningu jafnréttisfulltrúa þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing 2017 samþykkir að fela kirkjuráði að auglýsa stöðu jafnréttisfulltrúa
og ráða í hana. Um hálft starf er að ræða og mun jafnréttisfulltrúinn vinna
náið með jafnréttisnefnd kirkjunnar að framkvæmdaáætlun jafnréttisstefnu
þjóðkirkjunnar auk þess að vinna að jafnréttismálum kirkjunnar almennt. Hér er um
tilraunaverkefni til fimm ára að ræða.
Kirkjuráð felur framkvæmdastjóra að leggja drög að lýsingu á umbúnaði starfsins og
auglýsingu um það og kynna kirkjuráðsmönnum fyrir næsta fund.
5. 11. mál. Þingsályktun um Víkurgarð í Reykjavík.
Kirkjuþing 2017 felur kirkjuráði að koma á framfæri við þar til bær stjórnvöld að
lög og reglur um niðurlagða kirkjugarða séu virt hvað varðar Víkurgarð í Reykjavík.
Ennfremur vill kirkjuþing benda á að í 33. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og
líkbrennslu nr. 36/1993, með síðari breytingum, segir: „Niðurlagðan kirkjugarð má
ekki nota til neins þess sem óviðeigandi er að dómi prófasts (prófasta). Ekki má þar
jarðrask gera né reisa nein mannvirki.“
Kirkjuráð ályktar að fela framkvæmdastjóra að koma ályktuninni á framfæri við rétt
yfirvöld.
6. 16. mál. Þingsályktun um umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar. Atriði í aðgerðaráætlun
umhverfismála fyrir árin 2018-2020.
Kirkjuráð ályktar að umhverfisnefnd og starfsmaður hennar vinni að framgangi
áætlunarinnar.
7. 18. mál. Þingsályktun um að auka tengsl þjóðkirkjunnar við samtök evangelískra
kirkna í Evrópu GEKE/CPCE.
Kirkjuþing 2017 samþykkir að beina því til biskups Íslands að kanna möguleika á
auknu samstarfi þjóðkirkjunnar við samtök evangelískra kirkna í Evrópu sem miði
að því að kirkjuþing 2018 fái til umfjöllunar og afgreiðslu umsókn um fulla aðild að
samtökunum.
8. 19. mál. Starfsreglur sem samþykktar voru á kirkjuþingi og birtar í Stjórnartíðindum.
Upplýst var að fjórar starfsreglur sem kirkjuþing 2017 samþykkti hefðu verið birtar í
B-deild Stjórnartíðinda. Starfsreglurnar eru þessar:
a. Breyting á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016, með
síðari breytingum, var birt 27. nóvember og er nr. 1024/2017.
b. Starfsreglur um kirkjutónlist á vegum þjóðkirkjunnar voru birtar 8. desember og
eru nr. 1074/2017.
c. Starfsreglur um kjör til kirkjuþings voru birtar 8. desember og eru nr. 1075/2017.
d. Breyting á starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr.
950/2009, með síðari breytingum, var birt 8. desember og er 1076/2017.