Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 5

Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 5
Frá ritstjóra 3 Ágætu lesendur! Sjálfsagt sjá allir sem skoða litríka forsíðu þessa eintaks Barna og menningar að þar eru nokkrar af persónunum úr sögum Astridar Lindgren á fleygiferð. Reyndar er Astrid sjálf líka á myndinni, hún stendur í dyrum litla hússins og tekur é móti gestum í eigin afmælisveislu, en Astrid fæddist í nóvember 1907 og hefðí því orðið hundrað ára um þessar mundir. Af þessu tilefni eru í blaðinu nokkrar greinar sem tengjast Astrid og hennar verkum. Erna Erlingsdóttir skrifar um hlutverk systkina í bókunum, Katrín Jakobsdóttir skrifar um Kötubækurnar, sem eru minna þekktar en flest önnur verk höfundarins, Sigþrúður Gunnarsdóttir segir frá heimsókn fjölskyldu á slóðir sænsku skéldkonunnar og Guðrún Lára Pétursdóttir skrifar um bókina Lif og fjör í Ólátagarði. En það er ekki bara Astrid Lindgren sem á stórafmæli um þessar mundir, fimmtíu árum é undan henni, f nóvember 1857, fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal höfundur Nonnabókanna, Jón Sveinsson og minnist Björn Bjarnason ráðherra hans með hlýlegum hætti í blaðinu. Af öðru efni má nefna grein Hermanns Stefánssonar um merkilegar bækur Jóns H. Björnssonar um putalinginn Vippa, en þær komu út fyrir mörgum áratugum. Umfjallanir um nýlega útgefnar barnabækur eru á sínum stað, leikrýni um tvær barnasýningar og Þorgerður Jörundsdóttir rithöfundur og myndskreytir segir frá því hvað það er sem veitir henni innblástur. Einnig er í blaðinu viðtal við Rúnar Helga Vignisson, þýðanda og útgefanda, og að sjálfsögðu eru fastir liðir á borð við Mér finnst ... og Pabbi les á sínum stað. Þegar hausthefti Barna og menningar kemur út streyma nýjar jólabækur úr prentvélunum. Þeirra á meðal eru auðvitað bækur sem ætlaðar eru börnum, kannski hafa aldrei verið gefnar út fleiri barnabækur á íslandi en árið 2007. Þegar þetta er skrifað eru fæstar nýju bókanna komnar í búðir en ein barnabók hefur þó valdið deilum. Það er bókin Tíu litlir negrastrákar, sem margir fullorðnir kannast við úr eigin æsku. Deilt hefur verið um hvort bókin sé sakleysislegt barnakvæði, til þess fallið að kenna smáfólkinu að telja, eða hvort í henni sé að finna hreinræktað kynþáttahatur sem eigi að halda frá börnum. Margir virðast ekki íhuga úr hvaða sögulegum jarðvegi þessi bók spratt. Verkið kom fyrst út áratugum áður en t.a.m. svörtum Bandaríkjamönnum voru veitt almenn mannréttindi á borð við kosningarétt. Á þeim tíma höfðu (slendingar tæpast haft nokkur kynni af hörundsdökku fólki og áttu ekki eftir að kynnast því að marki fyrr en löngu síðar. Sú sem þetta skrifar fór til dæmis til Bandaríkjanna sem barn árið 1975 og hafði þá aldrei séð svartan mann. Foreldrar þeldökkra barna hafa ritað bréf til leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hvatt er til þess að barnabókin Tiu litlir negrastrákar verði ekki lesin fyrir börnin því efni og myndir bókarinnar séu særandi og kyndi undir fordómum í garð svartra. Á þeim tíma sem bókin um negrastrákana tíu kom út fyrst skirrðust menn ekki við að teikna hörundsdökka sem skrípamenni eða hálfgerða apa og margir töldu þá illa gefna og langt á eftir hvíta manninum á flestum sviðum. En nú á fólk að vita betur. Því hvet ég fullorðna til að hugsa sig um og vanda valið þegar bækur fyrir börn eru keyptar eða fengnar að láni á safninu. Ég vona að lesendur geti átt notalega skammdegisstund með hausthefti Barna og menningar. Þórdis Gisladóttir

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.