Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 33

Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 33
Fiskisaga 31 i gegnum þær. Textinn segir lesandanum til að mynda það eitt að Unnur fái einn daginn nýjan grímubúning en myndin fræðir hann um að búningurinn er einmitt fiskagervi. Samspil mynda og texta er því afar mikilvægt í Ég vil fisk, eins og raunar mörgum fyrri bókum Áslaugar. Á fyrstu opnu sögunnar er brosmild Unnur að leika sér. Hún hefur lagt langan bláan trefil á gólfið sem sjó, búið til sker úr húfu og sjálf situr hún í bala og þykist veiða fisk úr báti. Á næstu opnu hafa flíkurnar sem áður voru hluti af leiknum umbreyst í nokkurs konar þvingunartæki foreldranna sem sjást binda trefilinn um háls fremur þungbrýndrar Unnar og troða húfunni á koll hennar. Þessar tvær opnur endurspelga skýrt umfjöllunarefni bókarinnar, heim barnsins andspænis heimi hinna fullorðnu. í kjölfar þessarra fyrstu opna koma sjö opnur sem allar eru í svipuðum dúr, á annarri síðunni sést Unnur biðja um fisk, á hinni er greint frá viðbrögðum foreldra hennar, hvaða fiskagjöf þau færi henni og hvað þau bjóði upp á í kvöldmatinn. Með hverri tilrauninni til að gera sig skiljanlega verður Unnur reiðari og reiðari og með hverri opnunni er hún jafnframt teiknuð stærri og stærri. Letrið í hinum endurteknu orðum „Ég vil fisk" stækkar að sama skapi og frásögnin stigmagnast að mestu leyti í gegnum það sjónræna ferli sem skapast við þetta. Með þessu litla en áhrifaríka stílbragði nær Áslaug jafnframt að koma til skila heimi hinna smáu og hinni alkunnu tilfinningu barna að ekki sé tekið mark á þeim einmitt vegna þess að þau eru lítil. Þegar hápunkti sögunnar er náð og Unni tekst loks að fá foreldra sína til að skilja að hún vilji fisk að borða er andlit hennar teiknað svo stórt að það er líkt og hún rjúfi sig út úr bókinni og reki nefið alveg upp að andliti lesandans. í kjölfarið fellur allt í Ijúfa löð og síðustu tvær opnurnar sýna Unni í fiskbúðinni með pabba sínum og svo alsæla heima að snæða kvöldverð að sínu skapi. Myndskreytingar Ég sé ekki betur en að teikningarnar sjálfar séu unnar með olíukrít og síðan klipptar út og lagðar á mismunandi undirlag línu- eða rúðu- strikaðs pappírs. Hvers vegna skyldu engar upplýsingar vera veittar um vinnsluaðferð mynda sem birtar eru sem hluti af sögu þótt slíkt sé alvanalegt þegar myndverk eru sýnd með öðrum hætti? Áferðin á þessum pappir skín ævinlega í gegn, stundum þannig að rendur og rúður eru notaðar til að skapa tilfinningu fyrir gólfefni, flísum eða áferð á veggjum en stundum eru þær einfaldlega óskilgreindur hluti af bakgrunninum. Þessi efnisleiki pappírsins virkar sem eins konar raunveruleikatenging, hann minnir lesandann ávallt á að hann er aðeins að skoða teiknaða mynd á pappír og lesa sögu af bók. Það er ef til vill vegna þess sem ég skirrist við að túlka bókina sem ádeilu á neysluglaða en önnum kafna foreldra eða sem áróður fyrir aukinni fiskneyslu barna. Ég leyfi mér þó að vona að Ég vil fisk forði eínhverju barni frá því að hljóta mín örlög sem óforbetranlegur fiskihatari! Höfundur er bókmenntafræðingur

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.