Studia Islandica - 01.07.1982, Síða 9
FORMÁLI
Þessi ritgerð var upphaflega samin sem hluti af kandídatsritgerð í
íslenskum bókmenntum er nefnist: MyndL nútímamannsins. Athugun
á tilvistarlegum viðhorfum Gunnars Gunnarssonar, Geirs Kristjánssonar
og Thors Vilhjálmssonar. Hún var skrifuð við Háskóla Islands veturinn
1979-80 undir umsjón Sveins Skorra Höskuldssonar prófessors. Hér
birtist sá hluti ritgerðarinnar, sem fjallaði um Gunnar Gunnarsson,
mikið breyttur. Auk verulegra viðbóta og leiðréttinga hefur viða verið
hnikað til orðum og setningum þar sem þurfa þótti.
í ritsmíð þessari er einkum fjallað um þrjú skáldverk eftir Gunnar
Gunnarsson frá tímaskeiðinu 1915-20, þ. e. Ströndina (Livets Strand,
1915), Varg í véum (Varg i Veum, 1916) og Sælir eru einfaldir (Salige
er de enfoldige, 1920). Þessi verk, sem ég kýs að kalla „kreppusögur",
mynda saman sérstakan áfanga í höfundarverki Gunnars. Einnig er
fjallað um og vísað til annarra verka höfundarins til rökstuðnings og
upplýsingar.
Skáldverkin sem hér verða greind voru upphaflega rituð á dönsku
og gefin út í Danmörku. Samt verður ekki fram hjá þeim gengið þegar
meta skal þróun íslenskra nútímahókmennta. Ber þar einkum tvennt
til. 1 fyrsta lagi var Gunnar mótaður af íslenskri hefð. Þótt sjóndeild-
arhringur hans sprengi öll landamæri bregst hann við íslenskum veru-
leika í skáldskap sínum. 1 öðru lagi voru þessi verk þýdd og gefin út
hér á landi nær jafnóðum og í Danmörku. Ströndin og Vargur í véum
komu út í Reykjavik á vegum Þorsteins Gíslasonar árið 1917 og Sælir
eru einfaldir árið 1920.
Gunnar Gunnarsson varð víðkunnur í Danmörku fyrir fyrstu skáld-
sögu sína Sögu Borgarættarinnar (Borgslœgtens Historie) sem kom
út í fjórum hlutum á árunum 1912-14. Sögurnar sem fylgdu í kjöl-
farið juku enn við orðstír hans. Ströndin kom til dæmis út í þremur
upplögum á rúmu ári, Vargur í véum sá dagsins ljós sex sinnum á ára-
bilinu 1916-21 og Sœlir eru einfaldir kom út i hvorki meira né minna
en ellefu upplögum árin 1920-21. Að auki voru þessar sögur þýddar
mjög snemma á fjölmörg erlend tungumál, s. s. þýsku, hollensku, finnsku
og sænsku.
Tíðarandimi skóp Gunnari þessar miklu vinsældir því að hann fjall-
aði um raunveruleg vandamál sem höfðuðu til lífsreynslu fólks. Sögur