Börn og menning - 2019, Síða 13
13
forminu er ekki heldur ætlað að stuðla að stórfenglegri
listrænni upplifun; hér er það galsi, innlifun og sameig-
inleg þátttaka sem öllu skiptir. Að vera boðið að taka
beinan þátt í leiksýningu getur verið afskaplega frelsandi
fyrir áhorfendur á öllum aldri. Færa mætti fyrir því ágæt
rök að það sé að einhverju leyti „eðlilegra“ að fá að sýna
viðbrögð við því sem leikið er en að sitja hreyfingarlaus
og þögull. Mér varð hugsað til panto-hefðarinnar fyr-
ir nokkru þegar ég horfði á uppfærslu á Matthildi eftir
Roald Dahl í London í sal fullum af skólabörnum og út
brutust gríðarleg og einlæg fagnaðarlæti þegar Frenjan
var brotin á bak aftur – enda fagnaðarefni!
Flóra íslenskra jólasýninga
Þótt ekki sé um panto að ræða er vert að minnast á
að hérlendis hefur Leikhópurinn Lotta sett upp fjölda
leiksýninga fyrir börn sem byggjast á frjálslegum, ærsla-
fullum söngleikjaútfærslum á þekktum ævintýrum og
kallast að ýmsu leyti á við panto-formið. Leikhópurinn
hefur að mestu haldið sig við sumarsýningar en íslenskt
leikhúsfólk hefur boðið upp á ýmiss konar sýningar fyr-
ir börn á aðventu og jólum. Þjóðin á enda skemmtilegt
jólapersónugallerí; jólasveinarnir, Grýla, Leppalúði og
jólakötturinn eru stórir og eftirminnilegir karakterar
sem höfða til barna (þótt stundum sé spennan vissu-
lega óttablandin!). Á aðventunni fer leikhúsið gjarnan
til barnanna; bókasöfnin bjóða upp á farandsýningar,
leikhópar heimsækja leikskólana og ekki er ýkja langt
síðan sjálfstæðir leikhópar á borð við Sögusvuntuna og
Möguleikhúsið ferðuðust milli grunnskóla með jóla-
leikrit sín. Því miður hefur minna farið fyrir heimsókn-
um í grunnskólana á allra síðustu árum, eins og er með
aðrar listamannaheimsóknir.
Hér gefst ekki tími til að rekja sögu íslenskra jóla- og
nýársleiksýninga fyrir börn langt aftur í tímann, en á
síðustu árum má nefna jólasýningu Skoppu og Skrítlu
og hina dásamlegu Jólaflækju Bergs Þórs Ingólfssonar
í Borgarleikhúsinu sem sameinar svo sannarlega helgi
hátíðanna og sprúðlandi fjör. Leikfélag Akureyrar hefur
stundum boðið upp á jólasýningar fyrir börn og fyrir
vestan hefur Kómedíuleikhúsið haldið jólakyndlinum
á lofti. Ekki má gleyma Útvarpsleikhúsinu sem hef-
ur um jól flutt fjölskylduverk á borð við Randalín og
Munda eftir Þórdísi Gísladóttur og Gallsteina afa Gissa
eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur enda upplagt fyrir
fjölskylduna að sameinast um að hlusta í jólafríinu. Af
lífseigum sýningum má nefna Ævintýrið um Augastein
eftir Felix Bergsson í samstarfi við Kolbrúnu Halldórs-
dóttur og Helgu Arnalds sem var frumsýnt 2002 og er
reglulega sett upp í Tjarnarbíói. Leitina að jólunum eftir
Þorvald Þorsteinsson hefur Þjóðleikhúsið sett upp ár-
lega í fimmtán ár, en verkið er einskonar ferðalag barna,
leikpersóna og hljóðfæraleikara um húsið þar sem
jólavísur Jóhannesar úr Kötlum koma við sögu; lista-
fólk vinnur með gamlar hefðir sem verða þannig hluti
af nýjum. Það styttist í að börnin sem mættu fyrstu árin
fari að mæta með sín eigin börn til að innsigla leikhús-
hefðina.
Það má því ef til vill segja að þótt íslenska leikhúsið
eigi sér ekki fastmótaðar jólahefðir sé bæði galsa og helgi
árstímans engu að síður sinnt á fjölbreyttan máta. Von-
andi býðst sem flestum börnum að sjá vandaðar jóla-
sýningar um ókomna tíð – og ekki síður að stíga á svið
sem jólasveinar og -kettir, vitringar og Grýlur.
Höfundur er leikskáld, þýðandi og jólabarn
Jólaflækja Borgarleikhússins sameinar helgi hátíðanna og
sprúðlandi fjör. Ljósmynd: Jorri.
Ævintýrið um Augastein var lífseig sýning.
Af ærslum og innileika í leikhúsi jólanna