Börn og menning - 2019, Blaðsíða 17

Börn og menning - 2019, Blaðsíða 17
17Jólasveinar fyrr og nú jólasveinsins til byggða þrettán nóttum fyrir jól og að gjafirnar ættu helst að vera smávægilegar (Árni Björns- son 1993:353). Það hefur orðið að meginreglu þótt enn heyrist af og til um óhóflegar gjafir. Íslensku jóla- sveinarnir eru hins vegar ekkert að troða gjöfum ofan í reykháfa eins og sá ameríski en víla ekki fyrir sér að klifra upp í glugga á háhýsum ef því er að skipta. Þeir hafa heldur ekki mikið sést á sleða eða í vagni dregn- um af hreindýrum og þaðan af síður fljúgandi. Sumir þeirra hafa þó tekið snjósleða í sína þjónustu svo að þeir eru ekki með öllu frábitnir nútímatækni og kannski eru þeir ekki allir jafn miklir klaufar og þeir þykjast stund- um vera. Blendin ímynd íslensku jólasveinanna Reyndar verður að segjast eins og er að ímynd íslensku jólasveinanna er blendin og jafnvel ruglingsleg enda þvælist ímynd Santa Claus enn fyrir þeim og sum ís- lensku jólasveinanöfnin eru nútímabörnum framandi. Santa Claus er farinn að sýna sig í verslunum á Íslandi og bjóða upp á myndatökur af sér með börnunum frá því í byrjun nóvember eins og til dæmis er gert í IKEA (sjá Jólafjör í IKEA frá 13–17 allar helgar). Það kem- ur líka iðulega fyrir að íslensku jólasveinarnir komi til byggða löngu áður en þeirra er að vænta samkvæmt venju og þá oftast til að skemmta börnum eða leggja kaupmönnum lið. Svo það er von að börnin ruglist í ríminu. Þjóðminjasafnið hefur undanfarin þrjátíu ár reynt að halda ímynd gömlu jólasveinanna að börnum og tekið mið af þeim eins og þeir birtast í Jólasveina- kvæði Jóhannesar úr Kötlum. Klæðnaður þeirra þegar þeir byrjuðu að koma fram í safninu var upphaflega í anda mynda Tryggva Magnússonar en um aldamótin var efnt til samkeppni um hönnun nýrra klæða. Bryn- dís Gunnarsdóttir sigraði í þeirri keppni og líkjast fötin þeirra nú meira gamaldags bændafötum (Árni Björnsson 2006:90). Í Dimmuborgum í Mývatns- sveit skemmta jólasveinar börnum á aðventunni og er klæðnaður þeirra í þeim anda líka. Í íslenskum barnabókum um jólasveinana hefur tals- vert borið á að útlit þeirra, klæðnaður og jafnvel æði dragi dám af Santa Claus þótt þeir haldi gömlu íslensku nöfnunum. Stundum er reynt að útskýra fyrir börnum hvernig jólasveinarnir breyttust úr hræðsluvættum og urðu góðir eins og gert er í bókinni Ævintýrið um Auga- stein eftir Felix Bergsson (2003). Sumir höfundar reyna þó að halda sig að einhverju leyti við ímynd gömlu jólasveinanna eins og Brian Pilkington gerir í nýlegum bókum sínum um þessar sívinsælu jólavættir. Sveinarn- ir hans eru þrettán og í gamaldags klæðnaði eins og sjá má til dæmis í bókunum Jólasveinarnir þrettán (2009) og Þrettán dagar til jóla (2014). Jólasveinarnir hans eru þó fjarri því jafn varasamir og Jóhannes úr Kötlum lýsir þeim í sínu kvæði. Íslensku jólasveinarnir halda eflaust áfram að safna um sig nýjum og fjölbreyttum sögum í bókum fyrir börn og ekkert bendir heldur til annars en að þeir muni áfram troða upp við ýmis tækifæri og skemmti börnum – eða hræði þau – eftir atvikum. Heimildir Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík. Árni Björnsson. 2006. Saga jólanna. Tindur, Ólafsfjörður. Barnanna hátíð blíð. Sögur, söngvar og fróðleikur um jólin. 1993. Vilborg Dagbjartsdóttir og Þorvaldur Kristinsson völdu efnið og bjuggu til prentunar. Hlín Gunnarsdóttir myndskreytti. Forlagið, Reykjavík. Brian Pilkington. 2009. Jólasveinarnir þrettán. Sigþrúður Gunnarsdóttir þýddi. Mál og menning, Reykjavík. Brian Pilkington. 2014. Þrettán dagar til jóla. Sigþrúður Gunnars- dóttir þýddi. Mál og menning, Reykjavík. Felix Bergsson. 2003. Ævintýrið um Augastein. Halla Sólveig Þor- geirsdóttir myndlýsti. Mál og menning, Reykjavík. Jóhannes úr Kötlum. 1983. Jólin koma. Með myndum eftir Tryggva Magnússon. Mál og menning, Reykjavík. Jólafjör í IKEA frá 13–17 allar helgar. 2019. Sótt 8. nóvember af ikea.is. Stefán Ólafsson. 1885–1886. Kvæði eptir Stefán Ólafsson I–II. Hið íslenzka bókmenntafjelag, Kaupmannahöfn. Tilskipan um hús-agann á Íslandi. Hirschholms-sloti þann 3. Junii Anno 1746. 1973. Alþingisbækur Íslands 13. 1741–1750, bls. 563–577. Ritstjóri Gunnar Sveinsson. Sögufélag, Reykja- vík. Höfundur er lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.