Morgunblaðið - 17.06.2021, Qupperneq 36
36 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. JÚNÍ 2021
Bolholti 4 • 105 Reykjavík • S 534 1400 • www.smartfix.is
s n j a l l t æ k j a þ j ó n u s t a
Úrval aukahluta:
Hulstur, Hleðslutæki, Snúrur,
Minniskort, USB lyklar og fleira
VIÐ GERUM VIÐ
allar tegundir síma,
spjaldtölva, tölva og dróna
Körfur
frá 25.000 kr.
Startpakkar
frá 5.500 kr.
og margt
fleira
Bolholt 4, Reykjavík | www.frisbigolfbudin.is
Allt fyrir frisbígolf
Töskur
frá 3.990 kr.
Diskar
frá 2.500 kr.
Fjarlægðarmælir
24.990 kr.
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Anders Magnus, hinn litríki fréttarit-
ari norska ríkisútvarpsins NRK, er á
heimleið, að þessu sinni frá Wash-
ington. Magnus er fyrir margt löngu
orðinn stofustáss og heimilisvinur
norskrar þjóðar, sem fylgst hefur
með honum á skjánum greina frá
gangi mála í blóðugri borgarastyrjöld
í Síerra Leóne, segja af skelfingu
lostnum íbúum og löskuðu kjarn-
orkuveri í Fukushima og öskureiðum
mótmælendum í Minneapolis í kjölfar
vígs George Floyds.
Er þar aðeins dropi á ferð í hafsjó
ferils sem hófst fyrir 43 árum, en síð-
an hefur Magnus flutt löndum sínum
í Noregi fréttir frá alls 76 löndum í
öllum álfum heimsins, að frátöldu
Suðurskautslandinu.
Magnus starfaði meðal annars sem
fréttaritari ríkisútvarpsins norska í
Afríku árin 1998 til 2002, Asíu 2010 til
2014 og Bandaríkjunum frá 2017 til
dagsins í dag. „Ég ætla að vinna í eitt
ár eftir að ég kem aftur til Noregs,
verð í einhverjum sérverkefnum þar
til ég fer á eftirlaun á næsta ári,“ seg-
ir Magnus í stuttu samtali við Morg-
unblaðið frá Washington, en hann
verður sjötugur árið 2022. „Ég hætti
nú samt ekkert alveg þá, ég verð eitt-
hvað hjá Miðstöð rannsóknarblaða-
mennsku í Bergen [Senter for
Undersøkende Journalistikk, SUJO],
bæði sem leiðbeinandi og í einhverj-
um verkefnum,“ bætir hann við, enda
alkunna að innvígðir hætta ekki svo
glatt í blaðamennsku.
Í tilefni heimflutnings á norska
grund sendi Magnus frá sér fróðlega
samantekt um minnisverð augnablik
á ferli sínum síðustu áratugi undir
yfirskriftinni „Heimurinn er minn
vinnustaður“ og er hér stiklað á
stóru.
„Ert þú ekkert smeykur?“
Sautján ára gamall sat Magnus við
hlið vörubifreiðarstjóra á M1-braut-
inni á norðurleið frá London. Hann
var puttaferðalangur og auk þess í
fyrsta sinn einn á ferðalagi utan
Norðurlandanna. Ökumaðurinn
strompreykti sígarettur sem hann
rúllaði sér sjálfur og þeir Norðmað-
urinn ungi ræddu um daginn og veg-
inn.
Magnus spurði hikandi hvort
ferðafélaginn óttaðist aldrei að taka
upp bláókunnuga puttaferðalanga
sem hann vissi engin deili á. Var hann
ekkert hræddur við að lenda í bí-
ræfnu ráni? „Þá dreg ég bara upp
þessa hérna,“ svaraði ökumaðurinn
grafalvarlegur með stingandi augna-
ráði og sýndi unglingnum vígalega
silfurgljáandi Colt-skammbyssu. Svo
stökk andlit hans sundur í innilegum
hlátri, hann lagði vopnið frá sér og
spurði til baka: „En ert þú ekkert
smeykur um á hverjum þú lendir á
vegum úti?“
Sú spurning hefur vafalaust oft
leitað aftur á Magnus á ferli hans sem
fréttaritari um gervalla heimsbyggð-
ina. Ekki síst fyrstu ár Afríkutíma-
bilsins þar sem algengasta fréttaefn-
ið snerist um valdarán og styrjaldir.
„Ég hef sloppið lifandi frá eþíópískri
stórskotaliðsárás í Eritreu og skot-
hríð liðsmanna Mugabes í Simbabve.
En aldrei varð taugatitringurinn
meiri í umfjöllun um Afríkustríðin, en
þegar hópur herbarna umkringdi
mig og tvo samstarfsmenn á víglín-
unni utan við Freetown, höfuðborg
Síerra Leóne, og kváðust ætla að
drepa okkur,“ skrifar Magnus í sam-
antekt sinni.
Þessir berfættu litlu stríðsmenn,
viti sínu fjær af kókaínneyslu, beindu
öflugum AK-47-hríðskotarifflum sín-
um að hópnum frá NRK og þóttist
Magnus þess viss á þeirri stundu, að
hann lifði sín síðustu augnablik. „En,
eins og þið vitið núna, lifðum við allir
þrír. Þökk sé ísköldum óttanum,
löngum samningaviðræðum og þykk-
um seðlabúntum. Ég var með pen-
inga í öllum vösum og í skónum líka –
einmitt til að nota við svona aðstæð-
ur. Viku seinna skutu þeir og drápu
ljósmyndara frá Associated Press
sem var með okkur í þessari ferð.“ Þá
var Magnus mættur á vígvelli annars
stríðs, annars staðar í Afríku, til að
segja Norðurlandabúum frá.
Þrýstingur í Kína
Stóri draumurinn var þó alltaf
Kína, það þótti Magnus forvitnilegt
ríki og þangað kom hann fyrst árið
1977, árið eftir andlát Maós for-
manns, enda var það fyrsta sem hann
heyrði, þegar hann gekk út af járn-
brautarstöðinni í Peking, ómur lags-
ins Austrið er rautt, óopinbers þjóð-
söngs Kína á árum
menningarbyltingarinnar, sem
hljómaði frá klukkuturnum brautar-
stöðvarinnar.
Löngu síðar, árið 2010, var Magn-
us staddur í Kína á ný, þá sem ný-
sleginn Asíufréttaritari NRK. Þegar
ráðamenn alþýðulýðveldisins áttuðu
sig á að þar færi Norðmaður í hlut-
verki fréttaritara, drógu þeir sam-
stundis þá ályktun, að hann hlyti að
ráða lögum og lofum í heimalandi
sínu. Og akkúrat árið 2010 skipti það
Kínverska kommúnistaflokkinn höf-
uðmáli að hafa aðgang að áhrifa-
manni í Noregi.
Norska Nóbelsverðlaunanefndin
hafði þá nýverið tilkynnt þá ákvörðun
sína, að veita kínverska rithöfundin-
um og lýðræðissinnanum Liu Xiaobo
friðarverðlaun Nóbels, nokkuð sem
að mati kínverskra ráðamanna mátti
alls ekki gerast.
„Fu Ying var aðstoðarutanríkis-
ráðherra Kína 2010. Hún bauð mér á
dýrasta veitingahúsið í Peking til að
biðja mig að hindra að Nóbelsverð-
launanefndin veitti lýðræðissinnan-
um Liu Xiaobo friðarverðlaunin,“
skrifar Magnus. Aðstoðarutanríkis-
ráðherrann hafi ekki lagt minnsta
trúnað á að fréttaritarinn gæti ekki
talið nefndinni hughvarf. Því næst
hafi Fu Ying farið með Magnus í
lystigarð nokkurn þar sem lífverðir
fylgdu þeim hvert fótmál.
Tjáði ráðherra Norðmanninum
þar, að fengi baráttumaður fyrir lýð-
ræði, sem sæti í fangelsi, friðarverð-
laun Nóbels liti það verulega illa út
fyrir Kína og Noreg. „En Liu Xiaobo
fékk verðlaunin og í kjölfarið mátti
ekki bara Noregur sæta reiði stór-
veldisins – það mátti ég líka. Vefsíða
NRK var bönnuð í Kína og næstu
fjögur árin tók enginn opinber emb-
ættismaður símann þegar ég
hringdi,“ rifjar fréttaritarinn upp.
Sú afneitun hafi þó aðeins verið
dropi í hafið. Segir Magnus kínverska
leyniþjónustumenn hafa elt hann og
eiginkonu hans á röndum og farið
með leynd inn á heimili þeirra, stjórn-
arandstæðingar sem veittu honum
viðtöl hafi sætt ofsóknum og hand-
tökum og yfirvöld hlerað síma hans
og netumferð.
Í niflheimi
Engan skyldi því undra að frétta-
ritaranum hafi verið stórlega létt að
komast um stundarsakir úr mengun í
tvennum skilningi í kínversku höfuð-
borginni, þegar hann var sendur til
japönsku borgarinnar Fukushima í
mars 2011 þar sem allt var í hers
höndum í kjölfar jarðskjálfta og flóð-
bylgju 11. mars sem kostaði 20.000
mannslíf auk þess sem stórlaskað
kjarnorkuver ógnaði þar öllu nánasta
umhverfi.
„Ég hef séð miklar náttúruhamfar-
ir á mínum starfsferli, en ekkert sem
jafnaðist á við þetta. Flóðbylgjan
hafði bókstaflega mulið strandbæina
niður og stór svæði inn til landsins
voru óíbúðarhæf vegna geislavirkni.
Við vorum í niflheimi, þetta var eins
og kjarnorkustyrjöld, með háskaleg-
an, en ósýnilegan óvin allt um kring,“
skrifar Magnus.
Svo sigraði Trump
Þegar hann stóð að lokum frammi
fyrir því vali að sækja um stöðu
fréttaritara NRK í Washington
ræddi hann málið við konu sína og
þau veltu upp möguleikum. Lítið
hafði verið um lognmollu á Asíuár-
unum 2010 til 2014 og enn minna á
Afríkutímabilinu. Yrðu Bandaríkin
næsti vettvangur yrði rólgheitablær-
inn töluvert meiri.
„En svo sigraði Trump í kosning-
unum! Aldrei nokkurn tímann á mín-
um 40 árum í fréttamennsku hef ég
unnið eins sleitulaust og það tímabil
sem þá tók við. Trump bjó til fréttir
nánast daglega með ummælum sín-
um á Twitter. Ráðherrar komu og
fóru í endalausri bunu, Mueller-rann-
sóknin, tvenn réttarhöld, þingkosn-
ingar og síðast en ekki síst forseta-
kosningarnar og árásin á þinghúsið,“
skrifar Magnus.
Enginn hörgull hafi verið á frétta-
efni með Donald Trump í Hvíta hús-
inu, en eins hafi aðrir og stórir at-
burðir komið eins og þrumur úr
heiðskíru lofti og nefnir Magnus þar
sérstaklega Floyd-málið og mót-
mælaölduna í kjölfarið og faraldurinn
sem lagðist þungt á alla heimsbyggð-
ina og liggur sums staðar enn.
Gömlu filmuvélarnar
Magnus kveður venjulegt fólk
skilja mest eftir sig þegar kemur að
viðmælendum, ekki síst fólk sem orð-
ið hafi fyrir áföllum og líf þess breyst
í einu vetfangi fyrir atbeina styrjalda,
sjúkdóma eða náttúruhamfara. Hafi
hann þó átt orðastað við margt
heimsþekkt fólk og nefnir þar Nelson
Mandela, forseta Suður-Afríku, Des-
mond Tutu biskup, Palestínuleiðtog-
ann Yasser Arafat, Yitzhak Rabin,
forsætisráðherra Ísraels, Aung San
Suu Kyi, leiðtoga búrmísku Lýðræð-
isfylkingarinnar, Dalai Lama, and-
legan leiðtoga Tíbeta, og Bandaríkja-
forsetana Jimmy Carter og Bill
Clinton, þó báða eftir að þeir létu af
embætti.
„Þegar ég hóf störf hjá NRK árið
1978 notuðum við gömlu góðu filmu-
vélarnar og vorum með margar rúll-
ur af filmu sem svo voru færðar yfir á
útsendingarform. Núna getur maður
gert það sama með símanum sínum,“
rifjar Magnus upp af tækniframför-
um síðustu fjögurra áratuga.
Átti að stöðva Nóbelsnefndina
- Anders Magnus hættir eftir áratugi sem fréttaritari - Hefur flutt fréttir frá 76 löndum - Börn á
kókaíni með AK-47-riffla - Kínverjar gerðu allt til að hindra að Liu Xiaobo fengi friðarverðlaunin
Ljósmynd/NRK
Washington Anders Magnus mátar ræðustól Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu, mynd NRK notuð með góðfúslegu
leyfi fréttaritarans sem nú lætur gott heita og er á heimleið til Noregs eftir að hafa sagt fréttir síðan 1978.
Lengri útgáfa verður birt á
mbl.is.
mbl.is