Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2016, Page 139
Hreindýraveiðar haustin 1955 og 1956
Samt hafði ég ekki lengi farið þegar ég
kom á óljósan götuslóða, sem smá saman varð
gleggri eftir því sem austar kom á heiðina.
Varð mér nú létt um sporið og var trúlega
búinn að hlaupa allmarga kílómetra þegar
ég knúði dyra á reisulegum bæ sem stóð við
brekkuræturnar um það bil sem fulldimmt
var að verða.
Þama fékk ég hinar bestu móttökur hjá
Axel bónda á Bessastöðum, og hans fólki,
því sá var bærinn.
Ekki man ég hve marga hesta hann var
fús að lána eða leigja mér, en hann kom mér
í samband við annan bónda, eða bændur svo
flutningsgetan varð næg, til þess að koma
mátti afurðunum í tveimur ferðum. Eg hygg
að þetta hafi verið 5 eða 6 hestar í allt. Mér
þykir líklegt að ferðin hafi tekið eina 6 til 7
tíma, svo væntanlega hefur verið langt liðið að
miðafitni á öðrum degi, þegar við komum með
fyrri ferðina til byggða. Eg næ ekki að kalla
fram neinar minningar um þá ferð, en óljósar
myndir flögra um í minni mínu um mikla
þreytu þegar seinni ferðin kom til byggða á
þriðja eða íjórða degi.
Elvernig þessir flutningar gengu fyrir sér
tekst mér ekki að framkalla með neinni vissu.
Einhver bið varð líka eftir vörubíl sem kom
að sækja kjötið. Ég hygg að hann hafi ekki
komið fyrr en upp úr miðnætti, en þá var
Sveinn löngu lagður af stað með hesta okkar,
sem hann fór með alla leið í Gilsárteig um
nóttina, sem sennilega er nærri 45 kílómetra
leið og hefur það verið vel af sér vikið af 16
ára unglingi. A þessum tíma voru hestaflutn-
ingakerrur ekki algengar og ekkert rætt um
annað heldur en að ríða á einum hestinum og
teyma tvo. í Gilsárteig fór vörubíllinn líka
með okkur og afurðirnar og þar var okkur
holað í einhver rúm þegar nokkuð var liðið
á nótt. Ég minnist þess að við vorum vaktir,
að mér fannst í bítið, með nokkrum glumru-
gangi og orðaleppum eitthvað þessu likum,
hvort við ætluðum að láta kjötið úldna við
Greinarhöfundur á hestinum Sörla líklega árið 1955.
Hans hlutverk í jyrri ferðinni var m.a. að búa upp á
hestana. Eigandi myndar: Sœvar Sigbjarnarson.
bæjardyrnar eða bera okkur að því að koma
því til innleggs.
Kjötið mun hafa verið flutt á Seyðisfjörð
og lagt inn hjá Kaupfélagi Austijarða, sem þá
starfaði þar með talsverðum krafti. Ekki fórum
við með kjötinu og hygg ég að einhverjir
eldri bræðra Ara og Benna hafi séð um þann
þátt fyrir okkur. Ekki man ég heldur hversu
margar krónur komu til skipta þegar búið var
að greiða allan útlagðan kostnað. Ég hygg að
við höfum verið nokkuð ánægðir með okkar
hlut. Mest var þó um vert að hafa leyst verk-
efnið sem við tókumst á hendur skammlaust,
að mér fannst, einnig að kynnast heiðinni í
haustskrúða. Einnig Fljótsdalnum og fólkinu
sem við hittum þar sem var boðið og búið að
leysa hvem okkar vanda.
Það var ekki venjan í mínu ungdæmi að
henda neinu matarkyns. Trúir þeirri stefnu
tókum við a.m.k. eitthvað af hausum og
fótum, sem og lifrum til handargagns og
heimflutnings. Ég minnist þess líka hversu
erfítt var að svíða sviðin. Hárið bráðnaði en
brann ekki ef hitinn var ekki nægur.
En vissulega gerði allt þetta bras okkur
ungu mennina reyndari og hyggnari og oft
hef ég hrósað happi síðar á lífsleiðinni, að
hafa fengið að upplifa þetta ævintýri.
137