Strandapósturinn - 01.06.1982, Blaðsíða 165
sem síðar á ævinni setti hann á bekk með utangarðsmönnum
giftu og veraldargengis, ásamt ýmsum vonbrigðum mannlegs
lifs. Hann var sem fyrr segir orðvís og laglega hagorður, þegar sá
gállinn var á honum. Sextugur kastaði hann fram stöku þessari:
„ Grána hár á höfði mér,
hrukkast brár og enni.
Sextíu ár á baki ber
og bölið sára kenni. “
Árið eftir að fyrrnefnd staka varð til eða sumarið 1912, bar svo
saman fundum þeirra meistara Þórbergs og Jóns Strandfjelds á
þilfari millilandaskipsins Vestu, sem þá lá við festar norður á
Hvammstanga. Nokkrar glefsur úr frásögn Þórbergs frá þeim
fundi hljóða svo: „Meðal farþega á Vestu var aldraður maður,
sem öllum öðrum fremur sópaði að sér athygli minni, og lengi
síðan stóð hann mér fyrir hugskotssjónum sem eðalborinn full-
trúi, eins konar utanrikismálaráðherra hins útskúfaða fólks í
mannfélaginu. — Hann var hár maður vexti eins og Eden, en
jafnframt hermannlegur á velli, lítið eitt lotinn í herðum, sýni-
lega af langæjum heilabrotum um erfið viðfangsefni, skyldari
myrkri jarðarinnar en ljósi himinsins. Hann hafði ívið bogið nef,
úlfgrátt yfirvaraskegg, miklar augnabrúnir og grá augu fremur
smá, sem voru á sífelldu iði djúpt inni í höfðinu. Hann gekk við
staf, sem hann studdi niður á milli fótanna, þegar hann sat. Allt
útlit hans virtist bera með sér fornan keim af fyrirmannlegu
ættarmóti. — Hann var síölvaður, en í stað þess að delírera í
fínum sölum með drekkandi mellum að gestvinum, þá hafðist
hann alltaf við í hreinu lofti ofandekks, sat þar á gluggakistum
og lúguköppum æfinlega umkringdur af hlustandi áheyrenda-
skara, eins og hann væri að boða einhverja sáluhjálplega lífs-
vizku. Hann riðaði mjög á höfði og höndum og rakti við og við
raunir útskúfaðra með snöktandi málrómi, sem virtist stíga upp
úr regindjúpi sárra þjáninga. En áður en varði sveiflaðist róm-
urinn upp í gustmikið reiðiþrungið hnegg, og andlitið af-
skræmdist sundur og saman í krampakenndar grettur, knúðar
163