Strandapósturinn - 01.06.1982, Blaðsíða 91
En manninn skal reyna. Reynslan er öllum góður skóli, sem
hana þola, og það gera flestir. Það er svo ótal margt sem fyrir
getur komið á lífsleiðinni, allt frá smæstu tilvikum til hinna
svokölluðu örlagastunda, þegar sjálft lífið er að veði, eigið líf eða
annarra. Undir slíkum kringumstæðum verður líklega flestum
fyrir að leita á náðir hinnar „Guðlegu forsjónar“, sér til hjálpar
og stuðnings, jafnframt því sem hugur og hönd neyta allrar orku
til að afstýra þeim voða sem framundan blasir við. Oft fer betur
en á horfist og atvikin gleymast fljótt.
En flestum hygg ég þó svo farið, að hafi þeir átt einhverja
ögurstund í lífinu, stund, sem skipti sköpum, þá líði hún ekki úr
minni svo lengi sem vitund manns fær nokkru til skila haldið.
Það er reynsla mín, að hafi maður daglega og í einlægni sam-
band við hina „Guðlegu forsjón“ þá gangi manni betur við öll
sín störf á dögum og eigi betri drauma á nóttum.
Hér að framan var minnst á minnisverða atburði, sem flestir
eiga einhverja í hugskoti sínu ef vel er að gáð. Ég ætla nú að rifja
upp einn slíkan atburð, sem mér hefur orðið nokkuð hugstæður
einkum á síðari árum. Þetta var snemma vetrar eða nálægt
mánaðamótum nóvember og desember árið Í930. Eg átti þá
heima á Broddanesi við Kollafjörð í Strandasýslu, hjá foreldrum
mínum, Jóni Þórðarsyni og Guðbjörgu Jónsdóttur, sem þar
bjuggu. Ég var þá 25 ára gamall. Ég var langmest að heiman og
vann við húsasmíðar á ýmsum stöðum. Að þessu sinni vann ég að
byggingu íbúðarhúss á Heydalsá í Kirkjubólshreppi. Laugardag
einn á áður nefndum tíma ætlaði ég heim að Broddanes og vera
þar yfir helgina. Að liðnu hádegi lagði ég af stað frá Heydalsá.
Veðri var þannig farið að logn var og örlítið frost en auð jörð.
Dimmt var til lofts og aðeins að byrja dálítil kafaldsmugga. Ég
fór gangandi og hélt sem leið lá út eftir sveitinni og þegar ég var
kominn út á svonefndan Smáhamraháls var komin talsverð
fannkoma og snjór í ökla. Þegar utar dró og komið var á
Gálmaströnd var heldur farið að létta í lofti, orðið frostlaust og
farið að blota. Mér sýndist allt benda til, að einhver veðrabrygði
væru í nánd. Ég hafði ákveðið að koma við á Hvalsá og fá þar
annaðhvort léðan bát eða flutning yfir Kollafjörð, sem var síðasti
89