Strandapósturinn - 01.06.1983, Blaðsíða 89
ræðurá vorum dögurn. Jón prestur Brandsson var í tengdum við
Sturlunga og Hvassafellsmenn í Eyjafirði, tvær miklar höfð-
ingjaættir 12. og 13. aldar. Kona hans Steinunn Sturludóttir,
Þórðarsonar í Hvammi í Dölum og fyrri konunnar Ingibjargar
Þorgeirsdóttur, Hallasonar höfðingja á Hvassafelli, en bróður-
sonur Ingibjargar var Guðmundur biskup Arason hinn góði. Var
hann oft langdvölum á Stað, þar sem hann átti jafnan frænd-
fólki og vinum að mæta. Hefur kannski meðal annars í notum
þess vígt einn sinna nafnkunnu brunna nyrst í Staðartúni, en í
aldanna rás hefur svo sköpum skipt, að nú líkist brunnur hins
blessaða biskups meir forarpytti en þeirri lind, sem af bergi
streymir. Synir þeirra Staðarhjóna voru fjórir, elstur var Bergþór
sem prestur var á Stað eftir föður sinn, dáinn 1232. Kona Berg-
þórs var Helga Ásgrímsdóttir, vegna hennar lenti Bergþór og
bræður hans í æðimiklum og langvarandi útistöðum og ófriði við
Vatnsfirðinga.
Börn Bergþórs prests og Helgu voru tvö, Ásgrímur og Ingi-
björg. Ásgrímur Bergþórsson bjó á Kaldrananesi í Bjarnarfirði,
og þótti um sína daga bænda helstur á Ströndum. Kemur hann
allmikið við sögu frænda sinna Sturlunga, bæði Sturlu Sig-
hvatssonar og Þórðar kakala bróður hans. Af orðum Þórðar
verður ljóst, að Ásgrímur hefur átt Sturlu frænda sínum mest að
þakka, bæði eignir og mannvirðingar. Þegar Þórður er að hefja
baráttu sina gegn Kolbeini unga segir sagan, „Fundust þeir
frændur og krafði Þórður hann (Ásgrím) ferðar með sér, kvað
honum síst munu sóma annað en vera í ferð með sér, fyrst fyrir
frændsemi, en það annað hversu mjög Sturla bróðir minn hóf
þig, sá hinn þriðji hlutur hversu þú varst við allar hrakningar á
Örlygsstöðum og sást lát frænda þinna og þeirra manna, sem þér
myndi aldrei úr hug ganga.“ Ásgrímur tók þó engum brýningum
og fór hvergi, enda hafði hann svarið Kolbeini unga trúnaðar-
eiða, sem er eins líklegt að hann hefði verið fús að rjúfa ef hann
hefði álitið lið Þórðar nógu fjölmennt og öflugt. Þrátt fyrir
kvrrsetu Ásgríms og liðsemdarleysi við frænda sinn, mun hann
þó hafa haldið uppi njósnum fyrir Þórð um Kolbein unga og
athafnir hans, eftir því sem við varð komið.
87