Strandapósturinn - 01.06.1983, Blaðsíða 151
huga að kindum inn við „Grind“, sem er þar örnefni. Þá sér hann
„Svaninn“, en svo hét báturinn, vera að koma þar upp undir
landið nokkuð frammi, en samt ekki lengra en það, að hann gat
séð að mennirnir þrír eru allir fyrir aftan vélarhúsið. En þá gerir
dimmuél, og rok ofan af landinu, svo hann sá þá aldrei meir. Það
var af mörgum álitið að vélin hafi bilað og þá rekið út og austur
í flóa, því þeir voru sama sem komnir í landvar, þar sem dreng-
urinn sá þá. Þar var engin bára, sem heitið gat, og ef vélin hefði
verið í góðu lagi, þá var mjög líklegt að þeir hefðu getað saglað
upp á Hvalsárvíkina í sjóleysinu, þar sem þeir voru komnir
framan af miðum í krappri báru og bráðviðri, sennilega hefur
vélin því bilað. Sumir héldu að þeir hefðu farist yfir við Vatns-
nes, því morguninn eftir fannst rekið úr bátnum á Illugastöðum
á Vatnsnesi.
Mér finnst ekki ólíklegt að það sé eins og Einar Sigvaldason á
Drangsnesi ímyndaði sér, sá glöggi og góði sjómaður. Hann áleit
að vélin hefði bilað og þá rekið út á Ingólfsgrunn, þar hefði
brotið á þá og þeir farist, og allt lauslegt rekið á Illugastöðum,
því um nóttina snéri veðrið sér í norðvestan og norðan, og þá var
beinasta stefna fyrir það, sem laust var úr bátnum, á Illugastaði.
Dagana á eftir gerir austan, og þá rekur úr bátnum, úr byrðing
bátsins, sem þá var bersýnilega liðaður og molaður í sundur, því
akkerið og vélin hefur haldið honum niður, þó stórbrim gæti
molað hann kannski á tveggja og þriggja faðma dýpi, sem kvað
vera á Ingólfsgrunni, þar sem grynnst er. Það var á víðáttumiklu
svæði sem rak úr bátnum, frá Prestsbakka í Hrútafirði og alla
leið innst inn í Heydalsárland, 1 svonefnda Hvalvík.
Ég hugsa að tilgáta Einars Sigvaldasonar sé mjög líkleg, en
annars getur enginn sagt neitt um það með vissu.
Aldrei rak líkin, en haldin var minningarathöfn um þá í
Heydalsárskólanum 20. janúar, og voru margir viðstaddir.
Þetta sem ég hef sagt um sjóslys við Steingrímsfjörð, hef ég
eftir áreiðanlegu fólki, en ártölin hef ég úr bókinni „Stranda-
menn“ eftir séra Jón Guðnason.
149