Strandapósturinn - 01.06.1983, Blaðsíða 13
heima hjá foreldrum sínum á jólum og hátíðum. Það var því ekki
sjaldan að ég fór norður til þeirra og var hjá þeim um jólin. Þar
voru þá líka tvö yngri systkini þeirra bræðra, Steinunn og
Ferdinand Söebeck, er verið höfðu fyrstu nemendurnir mínir.
Þarna var mér ávallt tekið eins og væri ég eitt barnanna þeirra
Guðmundar og Sigríðar. Mér leið mjög vel í þessum félagsskap.
Ég ætla nú að segja frá einum jólum á þessum afskekkta stað.
Þetta er á kreppuárunum og því lítið um eyðslu í sambandi
við jólin, en jólin sjálf eru stórhátíð hvar sem er á landinu.
Allir hlakka til jólanna, ungir sem gamlir. Þegar líður að
Þorláksmessu eru menn komnir í léttara skap og farnir að búa sig
undir það sem í nánd er. Börnunum er gefið frí og kennarinn fær
líka frí. Áður en ég veit af er ég kominn af stað upp á fjall með
pokaskjatta um öxl. Eg er á leið norður í Byrgisvík. Mikið hlakka
ég til jólanna og að hitta allt þetta góða og glaða fólk.
Það eru engar jólagjafir í pokanum mínum, en nokkrar
spennandi skáldsögur sem ég ætla að lesa fyrir fólkið þegar mesta
helgin er um garð geng’n. Auk þess eru í pokanum mínum
klæðnaður til jólanna: Gömul, snjáð spariföt og nýir sokkar sem
mágkona mín hefur gefið mér. Veðrið er gott, jörð auð að mestu
og vötn frosin.
Það er alllangur vegur af Selströnd og norður í Byrgisvík og
dagur stuttur um þetta leyti árs. Það er því löngu komið myrkur
þegar ég ber að dyrum á Kleifum í Kaldbaksvík um kvöldið, en
þar eru vinir mínir þá, Lárus og Jósteinn. Þeir hafa róið þaðan
um haustið á báti föður síns og haldið til hjá Guðbjörgu systur
þeirra, sem er húsfreyja og gift bóndanum á staðnum, Magnúsi
Magnússyni.
Daginn eftir er logn og að öllu leyti gott veður. Bræðurnir búa
sig undir að flytja þann hluta haustaflans heim, sem ekki er
ætlaður til sölu. Þetta er bæði saltaður fiskur og hertur. Hinn
hluti aflans átti að fara í verslanir við Steingrímsfjörð. Jósteinn
fer ekki með því hann þarf að fara í kaupstað til Hólmavíkur og
kaupa ýmislegt fyrir jólin. Þarna eru einnig staddir tveir að-
komumenn, Guðbrandur Guðbrandsson, bóndi og smiður í
Veiðileysu og Ingimundur Jónsson frá Bassastöðum.
11