Strandapósturinn - 01.06.1983, Blaðsíða 29
allir drukknaðir.“ Ég svaraði: „Ég ætla nú samt að bjarga
mönnunum af Ebba, hvað sem þið segið. Þið komið með, því
það getur orðið þörf fyrir ykkar aðstoð.“
Þeir snöruðust upp í bátinn og var nú róinn lífróður út á
slysstað, en þá var þar engan mann að sjá. Nú var orðið allhvasst
af suðvestri og þá segja þeir: „Þú hlýtur að vera biluð, þeir eru
allir drukknaðir, þú verður að skilja það, Anna.“ Ég svaraði
þeim ekki en segi þeim að róa út undir svokallað Hellunes. „Þar
eru mennirnir og þangað ætla ég að sækja þá.“ „Þú ert orðin
brjáluð, Anna“, svöruðu þeir, en samt reru þeir með mér þangað
sem ég vísaði til. Þar voru allir mennirnir á floti og héldu sér uppi
á girðingarstaurum, en hafði rekið alllangt frá slysstað. Hundur,
sem var með þeim á „Ebba“, var á herðunum á Ingólfi bróður
mínum. „Bjargið fyrst honum Ingólfi Péturssyni. Hann komst
svo seint út úr stýrishúsinu og var lengi í kafi.“ Þeir Sigurgeir og
Skúli voru undir árum, en ég hjálpaði mönnunum upp í bátinn
og síðast Ingólfi bróður mínum og seppa, sem honum fylgdi.
Þvínæst var tekinn róðurinn inn að Eyri og tók Kristinn aðra
árina og reri móti Sigurgeiri. Knálega var róið, því báðir höfðu
mennirnir krafta í kögglum.
Mennirnir voru ótrúlega hressir en orðið mjög kalt. Þegar kom
heim að Eyri var Guðrún amma búin að hita kaffi til að hressa
þá, hún hafði séð heiman frá, að öllum hafði verið bjargað.
Eg sótti flösku af víni, sem faðir minn átti niðri í kjallara og
yljaði það hinum hröktu mönnum vel. Þvínæst fóru þeir úr
blautum fötunum og fengu hlý og þurr föt og varð engum meint
af volkinu.
Þess má svo geta að lokum, að föður mínum var boðið að ná
„Ebba“ upp, en hann neitaði því og sagði að ekki skyldi verða
slys af þeim báti, því ekki væri víst að aftur tækist svo giftusam-
lega til með björgun áhafnar bátsins eins og í þetta skipti, og
mun „Ebbi“ liggja óhreyfður á botni Ingólfsfjarðar um alla
framtíð.
27