Bændablaðið - 27.01.2022, Page 46
Bændablaðið | Fimmtudagur 27. janúar 202246
Alþjóðlegt kynbótamat fyrir íslenska hestinn:
Átta hryssur hlutu heiðursverðlaun
á Íslandi fyrir afkvæmi
HROSS&HESTAMENNSKA
Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir
íslenska hestinn var reiknað
eftir alla dóma ársins og birt í
WorldFeng um miðjan nóvember.
Að þessu sinni hlutu átta hryssur
á Íslandi heiðursverðlaun fyrir
afkvæmi.
Í fyrra var metár í fjölda hryssna
sem hlutu heiðursverðlaun, eða
31 hryssa talsins, og var skýringa
fyrst og fremst að finna í breyttum
útreikningi kynbótamats. Nú er
fjöldi hryssna sem hljóta verðlaun
svipaður og fyrir breytingarnar
og virðist því vissu jafnvægi vera
náð. Til að hljóta verðlaunin þarf
hryssa að eiga að lágmarki fimm
dæmd afkvæmi og vera með 116
stig í kynbótamati, ýmist fyrir
aðaleinkunn eða fyrir aðaleinkunn
án skeiðs. Af þeim átta hryssum
sem hljóta verðlaun fyrir afkvæmi
eru fimm sem ná viðmiðinu 116
fyrir aðaleinkunn og þrjár fyrir
aðaleinkunn án skeiðs. Röðun
hryssna fer eftir kynbótamati fyrir
aðaleinkunn og ef hryssur eru jafnar
að stigum fer röðunin eftir stigum
með aukastaf.
Kynbótamatið byggir á dómum
frá kynbótasýningum þar sem
dómur einstaklings vegur inn í ásamt
dómum allra skyldra hrossa. Magn
upplýsinga (dóma) og gæði þeirra
hefur áhrif á endanlega niðurstöðu
og öryggi matsins. Kynbótamat með
öryggi undir 60% verður að túlkast
með varúð og mat undir 30% er
verulega tæpt að túlka og birting
slíks mat því umhugsunarvert.
Dómar afkvæma eru afskaplega
verðmætir þar sem fjöldi dóma
afkvæma vega endurtekið inn í
mat foreldris og auka ekki aðeins
öryggi þess heldur fara að vega
meira en ætternisdómar og eigin
dómur þegar vissum fjölda er náð.
Dómar afkvæmanna endurspegla
enn frekar kynbótagildi einstaklinga
til framræktunar, þar sem gæði
erfðanna sem hross gefa til afkvæma
sinna birtist. Það er gríðarlega
mikilvægt að sem flest afkvæmi,
sér í lagi hlutfallslega, skili sér í
dóm og því mikilvægi eiginleikans,
mæting til dóms, í útreikninga
kynbótamat mikið, ekki síst fyrir
heiðursverðlaunahryssur.
Ösp frá Hólum
Efsta hryssan árið 2021 sem hlýtur
heiðursverðlaun fyrir afkvæmi
og þar með Glettubikarhafinn er
Ösp frá Hólum undan Markúsi
frá Langholtsparti og Þokkabót
frá Hólum sem var undan Þóru frá
Hólum og Fjölni frá Kópavogi. Það
er því ekki langt í forfeður með
heiðursverðlaun að baki Aspar en
bæði Markús og Þóra hafa hlotið
þau. Ræktandi og eigandi Aspar er
Hólaskóli.
Hæst fór Ösp í 8.64 í aðaleink
unn árið 2006, þar af 8.76 fyrir
hæfileika með 9.0 fyrir brokk, stökk,
vilja og geðslag og fegurð í reið, og
8.46 fyrir sköpulag með 9.0 fyrir
samræmi og hófa, en sama ár kom
hún fram á landsmóti og var hæst
dæmda sex vetra hryssan þar.
Ösp á þrettán skráð afkvæmi þar
af sex með kynbótadóm. Svaði frá
Hólum, Álfssonur er þeirra hæst
dæmdur með 8.63 í aðaleinkunn sem
hann hlaut á Heimsmeistaramótinu
í Herning, Danmörku árið 2015.
Tvö afkvæmi Aspar undan Trymbli
frá Stóraási eru Seiður frá Hólum
með 8.45 í aðaleinkunn og Staka frá
Hólum en hún er nú með 136 stig í
kynbótamati aðaleinkunnar sem er
einu stigi frá hæsta íslenska hrossi
í heimi í því mati. Hún var sýnd
á Hólum fimm vetra og hlaut þá
8.38 í aðaleinkunn þar af 8.49 fyrir
sköpulag og 8.32 fyrir hæfileika,
þar af 9.5 fyrir hófa, tölt og fegurð
í reið auk 9.0 fyrir háls, herðar og
bóga og samræmi.
Afkvæmi Aspar sannarlega
endurspegla kosti hennar og er
Ösp frá Hólum Glettubikarshafi
og hæst heiðursverðlauna hryssna
fyrir afkvæmi árið 2021, er jöfn
að gæðum hvort sem er litið til
aðaleinkunnar og aðaleinkunnar
með skeiði með 125 stig. Hún gefur
framfalleg og samræmisgóð hross
með úrvals hófa. Afkvæmin fara
afar vel í reið, skrefamikil, hágeng
með skýr gangskil og yfirvegaðan
og þjálan samstarfsvilja.
Nótt frá Oddsstöðum
Í öðru sæti var Nótt frá Oddsstöðum
I undan Skorra frá Blönduósi
og Njólu frá Oddsstöðum I sem
var undan Fáfni frá Laugarvatni.
Ræktandi hennar er Margeir
Þorgeirsson sem einnig er eigandi
ásamt Ástríði Lilju Guðjónsdóttur.
Nótt fór hæst í 8.44 en hún var í
fjórða sæti á Landsmóti 2004 í elsta
flokki hryssna. Nótt er með 120 stig
í kynbótamati aðaleinkunnar þar
sem heildarsköpulag og sér í lagi
hófar, skeið auk mætingar liggja hátt
enda hafa allar dætur hennar verið
sýndar eða fjórar talsins.
Með hæstan dóm afkvæmanna
er Freyja frá Vöðlum undan
Forseta frá Vorsabæ II með 8.50 í
aðaleinkunn en hún var í fimmta
sæti á Landsmóti 2016. Annað hæst
dæmda afkvæmið er Álfanótt frá
Vöðlum undan Álffinni frá Syðri
Gegnishólum en hún fór hæst í 8.46
þar af 8.59 fyrir sköpulag og 8.37
fyrir hæfileika en fyrir háls, herðar
og bóga auk hófa hlaut hún 9.0.
Nótt gefur að uppistöðu alhliðageng
hross, myndargripi sem eru þjálir og
viljugir og fara vel undir manni með
góðum fótaburði.
Sefja frá Úlfljótsvatni
Í þriðja sæti heiðursverðlauna
hryssna er Sefja frá Úlfljótsvatni
með 119 stig í kynbótamati
aðaleinkunnar. Sefja er ræktuð
af Snæbirni Björnssyni og í eigu
Hofstorfunnar slf. Hún er undan
Gusti frá Hóli og Sokku frá Úlf
ljótsvatni.
Sefja fór hæst í 8.53 í aðaleinkunn
þar af 8.87 fyrir hæfileika en fyrir
skeið og vilja og geðslag hlaut hún
9.5. Sefja stóð önnur meðal hryssna
í sex vetra flokki á Landsmóti 2008
strax á eftir Ösp frá Hólum.
Sefja á sjö skráð afkvæmi þar af
sex með fullnaðardóm og 83% dætra
eru dæmdar. Hæst dæmda afkvæmi
Sefju er Hágangssonurinn Grámann
frá Hofi á Höfðaströnd með 8.59
í aðaleinkunn með 9.0 fyrir sex
eiginleika. Gjöf, Óskasteinsdóttir
er næsthæst dæmda afkvæmið með
8.50 í aðaleinkunn þar sem hæst ber
9.5 fyrir skeið. Sefja skilar vel frá
sér skeiðgæðum til afkvæma sinna
og liggur kynbótamat hennar þar af
leiðandi hæst í þeim eiginleika eða
123 stig. Afkvæmin eru viljug og
þjál með miklum fótaburði.
Elsa Albertsdóttir
ráðunautur, búfjárræktar- og
þjónustusviði
elsa@rml.is
Ösp frá Hólum var í efsta sæti heiðursverðlauna 2021 og hlaut því Glettubikarinn.
Margeir Þorgeirsson á Nótt frá Oddsstöðum sem var í öðru sæti heiðurs
verðlaunahryssna 2021.
Sefja frá Úlfljótsvatni lenti í þriðja sæti heiðursverðlauna hryssna 2021.