Skessuhorn


Skessuhorn - 04.04.2022, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 04.04.2022, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 4. MAÍ 202216 Benedikt Kristjánsson býr á Akranesi þótt starf hans kalli hann víða um heim. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni þang­ að frá Berlín fyrir um það bil ári. Blaðamaður Skessuhorns sótti hann heim til að fræð­ ast um sönginn og tónlistina og hvað það var sem kallaði á fjöl­ skylduna heim til Íslands. Hóf söngnám sextán ára Benedikt er sonur Margrétar Bóasdóttur söngmálastjóra Þjóð­ kirkjunnar og Kristjáns Vals Ing­ ólfssonar biskups sem búsett eru í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Sjálf­ ur er hann fæddur á Húsavík, en bjó á ýmsum stöðum sem barn. „Ég bjó á Grenjaðarstað í Aðaldal fyrstu fimm árin. Svo fluttum við í Skálholt, þar sem pabbi var rektor Skálholtsskóla og mamma stjórn­ aði kórum í bænum og víðar. Svo fluttum við til Þýskalands í eitt ár. Þá var ég níu ára og gekk í þýsk­ an grunnskóla. Svo fluttum við til Reykjavíkur og ég var þar í MH. En svo fór ég aftur til Þýskalands um tvítugt,“ segir Benedikt, en fyrsta spurning blaðamanns lýtur að því hvers vegna hann valdi þessa braut í lífinu. „Það var engin pressa frá foreldrunum. Ég var t.d. settur í barnakór þegar ég var sex ára, einmitt hjá Hilmari Erni Agnars­ syni, sem er núna kominn á Akra­ nes og var nágranni minn þegar ég var lítill. En mér fannst þetta hall­ ærislegt, vildi ekki mæta á aðra æfingu og komst upp með það. Ég byrjaði svo ekki að syngja fyrr en ég var orðinn táningur, þá fór ég að spila á gítar, vera í hljómsveit og svoleiðis.“ Þegar Benedikt var sextán ára lá svo leið hans í Söngskólann í Reykjavík þar sem hann fór að læra söng hjá móður sinni. Þar var hann í tvö ár og fór svo í Tónlistarskóla Reykjavíkur til að fá meira bóklegt, en hélt jafnframt áfram söngnám­ inu hjá Margréti. Til Berlínar Straumhvörf urðu hjá Benedikt þegar hann fór á námskeið til Stutt­ gart nítján ára gamall. „Þar kynnt­ ist ég kennara sem heitir Scot Weir og er þekktur fyrir ljóðasöng og túlkun sína á verkum Bach. Hann kenndi bæði í Berlín og Zürich. Mig langaði til að læra meira hjá honum og var ekki spenntur fyr­ ir að fara til Zürich svo ég fór til Berlínar. Scot Weir er bandarískur en er búinn að kenna í Þýskalandi í mörg ár og hefur mjög góðan þýsk­ an framburð. Oft er það líka þannig að útlendingar þurfa að vanda sig enn meira en heimamenn. Ég er svo lánsamur að þýskan talar mik­ ið til mín af því ég hafði hana í bakgrunninum og var með fram­ burðinn á hreinu. Íslenskan er líka ágætur grunnur fyrir önnur tungu­ mál, við getum byggt svo mikið á henni í framburði,“ segir Benedikt. Talið berst að náminu sjálfu og Benedikt rifjar upp dvölina í Berlín. „Ég tók inntökupróf í Hochschule für Musik Hanns Eisler, þar sem Scot er prófessor. Ég vissi að hann hefði sungið mikið af tónlist sem mig langaði til að syngja í framtíð­ inni, barokktónlist og léttari óperur eins og Mozart og/eða Rossini. Ég er sem sagt lýriskur tenór. Ég vissi alveg frá fyrstu mínútu að röddin mín væri þannig byggð; ég væri ekki að fara að syngja Verdi. Það höfðar einhvern veginn ekki til mín að syngja slíka tónlist þótt ég hlusti mjög mikið á hana.“ Alls bjó Benedikt í þrettán ár í Berlín. Námið sjálft var sjö ár og svo dvaldi hann þar áfram við að byggja upp ferilinn. Hann kynnt­ ist Angelu Árnadóttur konu sinni í Berlín og þau eiga þrjú börn. „Elsti sonur okkar er að verða þrettán ára og svo eru þau sex og þriggja ára. Angela kann mjög margt, en er fyrst og fremst málari og kennir myndmennt hér við Grundaskóla. Hún var líka í dansi og kenndi dans auk þess að hafa líka lært söng. Elsti sonur okkar spilar á fiðlu af miklum krafti. Tónlistarskólinn hér er mjög góður og kennarinn hans sem heit­ ir Gróa er frábær, ég hef stundum unnið með henni.“ Við ræðum um samspilið milli söngferils og fjölskyldulífs og Benedikt hefur ákveðnar skoðanir á þeim málum. „Fyrst var ég með umboðsmann, en svo sagði ég skil­ ið við það fyrirkomulag. Ég hef eiginlega aldrei verið ánægður með umboðsmenn og vil heldur fá að stjórna því sjálfur hversu mikið ég er í burtu frá fjölskyldunni. Síðan ég flutti heim hef ég skipulagt þetta þannig að ég er einhverjar vikur úti að sinna verkefnum en kem svo heim í milli og er kannski heima í mánuð,“ segir hann. Ferðalögin Starfið kallar á mikil ferðalög því Benedikt vinnur að verkefnum víða um heim. En hann telur mikil­ vægt að það hafi sem minnst áhrif á fjölskylduna. „Ég tek ekki að mér hluti sem kalla á að fljúga enda­ laust fram og til baka, sérstaklega þar sem ég bý núna á Íslandi og það er lengra að fara en var frá Berlín. Meðan börnin eru lítil vil ég vera meira hjá þeim,“ segir hann hugsi. „Þetta er aldrei auðvelt og t.d. lenti ég í því um síðustu páska að ég var í Los Angeles og veiktist illa af flensu daginn fyrir tónleikana. Þarna þurfti ég að afbóka tvenna tónleika og fljúga svo svona veik­ ur til Amsterdam sem er þrettán klukkutíma flug. Að sjálfsögðu varð ég tífalt veikari við það og varð að afbóka allt í Amsterdam líka. Alls voru þetta því sex tónleikar sem ég missti úr og þetta var rétt fyrir páska þegar mest er að gera í mínu fagi, allt Matteusarpassíutónleikar [Bach]. En ég hef annars verið lán­ samur og aðeins einu sinni þurft að afbóka og get yfirleitt alveg sung­ ið þótt ég sé eitthvað lasinn. En þegar svona gerist fær maður ekk­ ert greitt, það er engin trygging fyrir söngvarann,“ segir Benedikt. Draumur að syngja Daða Nú spyr blaðamaður hvort mik­ ið af verkefnum hans séu hlutverk í óratoríum. „Já langmest,“ segir Benedikt. „Ég hef ekki gert mikið af því að syngja óperur vegna þess að sýningar á þeim taka yfir svo löng tímabil og ég vil ekki vera svo lengi fjarri heimilinu. En svo er ég líka orðinn þekktur á sviði trúarlegrar barokktónlistar. Og tónleikaform­ ið hentar mér mun betur.“ Miðað við hversu mörg verkefni Benedikts eru erlendis er spurn­ ing hvaða tækifæri eru til að njóta söngs hans hér á landi. Hann seg­ ist ekki syngja mikið hér heima, en um næstu jól syngi hann þó í jóla­ óratoríu Bachs í Langholtskirkju. Aðspurður um draumahlutverk­ ið í íslenskri tónlist myndi hann gjarnan vilja syngja hlutverk Daða í óperunni Ragnheiði biskups­ dóttur eftir Gunnar Þórðarson, en nú eru komin tíu ár síðan hún var sýnd. Hann fór á fyrstu tónleikana, í Skálholti og fannst þetta vera frá­ bært verk og gaman að Íslendingar skuli hafa eignast glæsilega óperu sem höfðar svona mikið til fólks. Nýstárleg verkefni Benedikt er bókaður tvö ár fram í tímann og syngur mikið í Stuttgart. „Það er mjög skemmtilegt því þar fór ég fyrst á þetta námskeið, það var hjá Bach akademíunni sem er núna minn aðal vinnuveitandi. Þar er m.a. verið að vinna að risavöxnu verkefni sem er að taka upp allar kantötur sem Bach samdi í Leipzig. Það verkefni er þegar byrjað og nær alveg fram til haustsins 2024. Svo syng ég ljóð líka, svo sem í septem­ ber næstkomandi í Bonn í Þýska­ landi þegar ég verð staðarlistamað­ ur Beethoven tónlistarhátíðarinnar. Ég verð þar með ferna tónleika og fékk alveg frjálsar hendur með hvað ég vildi gera,“ segir hann. „Aðaláhugamálið er alltaf tónlistin“ Rætt við Benedikt Kristjánsson söngvara sem nú býr á Akranesi Benedikt Kristjánsson. Benedikt og Angela heima á leiðinni á Íslensku tónlistarverðlaunin. Frá tónleikum í Montréal í Kanada.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.