Bændablaðið - 25.08.2022, Side 52

Bændablaðið - 25.08.2022, Side 52
52 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. ágúst 2022 Fæðuöryggi er nú efst á dagskrá alþjóðastofnana en stríðið í Úkraínu hefur aukið enn á þær áskoranir sem þó voru ærnar fyrir. Verð á matvælum hefur þotið upp um heim allan og milljónir eru á barmi hungursneyðar. Alþjóðabankinn birti í júlí sl. skýrslu þar sem m.a. er að finna upplýsingar um hækkanir á matvælaverði víðs vegar um heiminn. Meðfylgjandi mynd sýnir þessar hækkanir í nokkrum löndum heimsins sl. 12 mánuði fram til júlí síðastliðins. Gríðarlegar hækkanir eru í mörgum fátækum löndum sem reiða sig mjög á innflutning. Í þessum löndum ver fólk að jafnaði háu hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum, jafnvel allt að helmingi, til kaupa á matvælum. Hækkanir sem þessar stefna því lífskjörum almennings í voða. Fátækustu lönd heimsins fara verst út úr ástandinu. Reikningur þeirra vegna kaupa á innfluttum matvælum hefur hækkað og í kjölfarið er hætta á að þau lendi í skuldavandræðum. Á sama tíma er hækkunin hvað minnst í hagkerfum eins og Kína (2,9%) og í Japan (3,7%) sem styður sinn landbúnað ríkulega. Á Íslandi mælist hækkun matvöruverðs 7,3%. Í fljótu bragði eru einu löndin í Evrópu þar sem hækkunin er minni en hér á landi, Írland, Frakkland, Lúxemborg, Sviss og Noregur (tölur fyrir maí). Tyrkland trónir á toppnum með 94,3% hækkun. Horfur næstu mánuði Þó matvæla- og hrávöruverð sé nú tekið að lækka á heimsmarkaði eftir að hafa náð sögulegum hæðum á fyrri hluta ársins er alls ekki fyrirséð með hversu lengi ástandið verður að ganga niður. Miklir þurrkar í Evrópu hafa lækkað spár um uppskeru og eru þær nú rétt neðan við meðaltal síðustu fimm ára hvað helstu korntegundir snertir. Víðs vegar í heiminum hafa lönd gripið til útflutningsbanns eða annarra takmarkana á útflutning á ýmsum matvælum til að tryggja framboð innanlands. Fyrrgreind skýrsla Alþjóðabankans gefur yfirlit yfir slíkar aðgerðir. Einnig hafa nokkur lönd gripið til takmarkana á útflutningi mikilvægra hráefna. Kína hefur t.d. bannað útflutning á hrá fosfór og útflutningur á áburði er leyfisskyldur. Kyrgistan og Rússland hafa einnig bannað útflutning á áburði og Úkraína á köfnunarefnisáburði. Erfið staða bænda í Evrópu Aðföng til landbúnaðar eru enn dýr í sögulegu samhengi og framboð þeirra að einhverju leyti háð óvissu. Þetta mun hafa áhrif á ákvarðanir bænda um hvort og hve mikið þeir munu framleiða á komandi mánuðum. Mjólkurframleiðendur í ESB skrifuðu opið bréf til Evrópusambandsins í júlí sl. Þar lýstu þeir stöðu framleiðenda og áhyggjum sínum af framtíðinni. Vegna mikilla verðhækkana á aðföngum eru margir bændur tekjulágir og safna jafnvel skuldum og geta ekki greitt sér laun. Í bréfinu kemur fram að laun bænda í Frakklandi séu aðeins um 430 kr/klst í laun (3,09 evrur), í Lúxemborg um 730 kr/klst og Litháen um 325 kr/klst. Danskir og hollenskir kollegar þeirra ná ekki endum saman og safna skuldum til að geta greitt sér laun. Þá má sem dæmi nefna að á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022 hækkaði fóðurkostnaður í Frakklandi úr tæpum 15 kr/lítra mjólkur á árinu 2021 í ríflega 20 kr, eða um 33%. Svipaða sögu af kostnaðarhækkunum er að segja frá öðrum löndum. Samtök mjólkurframleiðenda í Evrópu lýsa því miklum áhyggjum af stöðunni sem er uppi. Hana má ekki aðeins rekja til stríðsins í Úkraínu heldur einnig til þróunar landbúnaðarstefnu ESB sl. 20 ár. Miklar breytingar hafa verið gerðar á henni en afleiðingarnar eru núna að koma fram af fullum þunga. Þá benda samtökin á að mun meiri kröfur af ýmsu tagi eru gerðar til bænda í ESB en annars staðar í heiminum. Samtökin leggja áherslu á að sömu kröfur verði gerðar til framleiðsluaðferða við innfluttar landbúnaðarafurðir og gerðar eru innan ESB. Í bréfinu er beinlínis bent á nauðsyn þessa til að tryggja samkeppnisstöðu mjólkurframleiðenda og að því verði afstýrt að heilsu neytenda innan ESB sé með þessu, stefnt í hættu. Léleg afkoma og fækkun í stétt bænda ógnar því nú framtíð reksturs kúabúa og þar með mjólkurframleiðslu innan Evrópusambandsins. Bændur á Íslandi standa frammi fyrir sömu áskorunum Hér á landi hafa bændur einnig þurft að mæta nær fordæmalausum hækkunum á framleiðslukostnaði. Slíkt krefst aukins fjármagns fyrir reksturinn sem eykur enn á framleiðslukostnaðinn þegar vextir fara sömuleiðis hækkandi. Verð á innfluttu korni til fóðurs hefur hækkað undanfarið, t.d. á byggi til fóðurs sl. 12 mánuði (frá júlí ́ 21 – júní ´22) um 21%, á harðhveiti um 59% og á maís um 37%. Myndin sýnir þessa þróun frá ársbyrjun 2020 Lækkanir á aðfangaverði skila sér seint Áburðarverð er nú tekið að lækka á heimsmarkaði eftir miklar hækkanir undanfarna mánuði. Alþjóðabankinn gefur mánaðarlega út vísitölu áburðarverðs. Árið 2010 liggur til grundvallar = 100. Í júlí 2022 stóð vísitalan í 213,08 stigum og hafði hækkað um 67,84% síðustu 12 mánuði. Í janúar 2022 var vísitalan 200,61 stig. Hún er því enn 6,2% hærri nú en var þá. Líklegt er að áburðarverð lækki áfram í takt við lækkun olíuverðs. Á móti því vinna þó m.a. takmarkanir á útflutningi framleiðslu- landa sem fyrr voru nefndar og aukin fjárbinding í rekstri vegna hækkana á aðfangaverði á sama tíma og vextir hafa hækkað mikið. Því er ljóst að áfram verða miklar áskoranir á framleiðsluhlið matvæla á komandi mánuðum. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur og verkefnastjóri hjá MS LESENDARÝNI Fæðuöryggi á haustmánuðum Erna Bjarnadóttir. Landbúnaðarháskóli Íslands og sjö aðrir samstarfsháskólar í Evrópu hlutu nýverið styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins að upphæð 6,83 milljónir evra, eða að jafngildi um 960 milljónir íslenskra króna til samstarfsnetsins UNIgreen (The Green European University). Hinir háskólarnir eru Háskólinn í Almeria á Spáni, sem stýrir verkefninu, Landbúnaðarháskólinn í Plovdiv í Búlgaríu, Tækniháskólinn í Coimbra í Portúgal, Paris Sup’Biotech í Frakklandi, Háskólinn í Modena og Reggio Emilia á Ítalíu, Háskólinn í Varsjá í Póllandi og Háskólinn í Liege í Belgíu. Efla á menntun, rannsóknir, nýsköpun, gæðamál og miðlun þekkingar Evrópusambandið leggur áherslu á að efla samstarf æðri menntastofnana í Evrópu. Evrópskum háskólanetum er ætlað að tengja saman háskóla í ólíkum löndum álfunnar og efla samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Samstarfið leggur einnig áherslu á að auka gæði háskólastarfsins og styðja við þekkingarmiðlun og stjórnsýslu háskólanna. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir fyrir kerfisbundið og langvarandi samstarf sem nær bæði þvert á landamæri og námsgreinar. Alls var 272 milljónum evra veitt til háskólanetanna að þessu sinni og hefur upphæðin aldrei verið hærri. Netin ná til 340 háskóla í 31 landi. Áður hefur Háskóli Íslands hlotið styrk vegna Aurora Alliance samstarfsnetsins. Landbúnaðarháskóli Íslands er því annar íslenski háskólinn sem sameinast evrópska háskólanetinu. Ávinningur fyrir nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands Þátttaka í samstarfsneti eykur möguleikana á fjármögnun alþjóðlegra rannsókna- og nýsköpunarverkefna og að koma upp og samnýta aðstöðu. Nýir möguleikar opnast fyrir nemendur og starfsfólk háskólanna með auknu úrvali námskeiða og meiri möguleikum til skiptináms og nýtingu fjartækni til þátttöku í námskeiðum þvert á landamærin. Þá mun UNIgreen stuðla að auknu samstarfi við atvinnulífið meðal annars með starfsþjálfun, nýjum þverfaglegum verkefnum og áherslu á samlegðaráhrif og þekkingaryfirfærslu. Að vera hluti af evrópsku háskólaneti opnar dyr til nýrra tækifæra, það er spennandi að fara í skipti- og verknám eða taka þátt í samstarfsverkefnum erlendis. Við getum lært margt af samstarfi við aðra háskóla á okkar fagsviðum og einnig margt sem við getum boðið okkar samstarfsaðilum. Við hlökkum til að fá enn fleiri gestakennara í gegnum samstarfið og bæta við okkar námsframboð fyrir háskólanema og jafnvel líka í gegnum endurmenntun skólans. Samstarf við hagaðila Evrópusambandið styrkir sérstaklega verkefni sem unnin eru innan evrópskra háskólaneta. Erasmus+ mun veita rúmlega milljarði evra til samstarfsneta háskóla á tímabilinu 2021-2027 og auk þess mun fjármagn frá Horizon Europe renna til rannsóknarsamstarfs innan netanna. Þátttaka í samstarfsneti eykur þannig möguleika háskólanna á frekara samstarfi og að koma upp nýjum verkefnum í samstarfi við aðra hagaðila. UNIgreen er því afar mikilvægt fyrir framtíðarþróun Landbúnaðarhá- skóla Íslands. Íslenskir stuðningsaðilar Landbúnaðar- háskóla Íslands í UNIgreen eru Nemendafélagið Hvanneyri, Hvanneyrarbúið, Borgarbyggð, RML, Matís, Auðna Tæknitorg og Orkídea. Heimsókn frá Almeria Háskólinn í Almeria á Spáni leiðir verkefnið og fulltrúar þeirra koma í heimsókn til Íslands í byrjun næsta mánaðar til að ræða frekari samstarfsmöguleika við Landbúnaðarháskólann og aðra hagaðila hérlendis. Þeir munu taka þátt í ráðstefnu um matvælaframleiðslu sem haldin verður á Selfossi þann 8. september og er öllum opin. Síðan verður fundur með fyrirtækjum í ylrækt og sérfræðingum Landbúnaðarháskólans. Farið verður yfir tækifæri Íslands til aukinnar framleiðslu, samstarf um rannsóknir og nýsköpun og möguleika á formlegu samstarfi um nám á háskólastigi. Landbúnaðarháskóli Íslands sér fjölmörg tækifæri til eflingar landbúnaðar og vinnur að því að auka íslenska framleiðslu með nýsköpun og tækniyfirfærslu. Aukið alþjóðlegt samstarf í gegnum UNIgreen samstarfsnetið er stórt skref áfram og verðmæt viðurkenning fyrir starf skólans. Ragnheiður I Þórarinsdóttir rektor og Christian Schultze, rannsókna- og alþjóðafulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands Landbúnaðarháskóli Íslands verður hluti af evrópsku háskólaneti Ragnheiður I. Þórarinsdóttir. Christian Schultze.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.