Morgunblaðið - 24.09.2022, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. SEPTEMBER 2022
Hafréttarstofnun Íslands og Íslenski
sjávarklasinn gangast fyrir námskeiði í
hafrétti fyrir almenning í Húsi Sjávarklas-
ans, Grandagarði 16, Reykjavík, föstudag-
inn 7. október 2022 kl. 9.00 til 12.00.
Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávar-
klasans, setur námskeiðið og kennsla er í höndum
Tómasar H. Heiðar, varaforseta Alþjóðlega hafréttar-
dómsins í Hamborg og forstöðumanns Hafréttarstofnunar,
Birgis Hrafns Búasonar, deildarstjóra hafréttarmála í
utanríkisráðuneytinu, og Snjólaugar Árnadóttur,
lektors við lagadeild HR og forstöðumanns Sjálfbærni-
og loftslagsréttarstofnunar.
Þátttakendur eru beðnir að skrá sig í síma 577 6200 eða á netfangið
sjavarklasinn@sjavarklasinn.is. Skráningargjald, kr. 1.000, greiðist
á námskeiðinu. Boðið er upp á kaffiveitingar í hléi.
Hafsjór fróðleiks bíður þín
ÖRNÁMSKEIÐ
Í HAFRÉTTI
FYRIR ALMENNING
Hver var þáttur Íslendinga í þróun hins nýja hafréttar
á 20. öld?
Hvað eru grunnlínur, innsævi, landhelgi, efnahags-
lögsaga, landgrunn, úthaf og alþjóðlega hafsbotns-
svæðið?
Hvaða reglur gilda samkvæmt hafréttarsamningnum
og öðrum alþjóðasamningum um fiskveiðar, hvalveiðar,
siglingar og lausn deilumála?
Hver er staða mála varðandi ákvörðun ytri marka
landgrunns Íslands utan 200 sjómílna?
Hvaða lausnir eru færar til að takast á við helstu
viðfangsefni nútímans, svo sem verndun líffræðilegs
fjölbreytileika hafsins utan lögsögu ríkja og áhrif
hækkandi sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga á
grunnlínur og mörk hafsvæða?
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Ljóst er orðið að nýi sæstrengurinn,
ÍRIS, sem liggur frá Írlandi til Þor-
lákshafnar kemst ekki í gagnið fyrr
en 1. mars, tveimur mánuðum á eftir
áætlun. Ástæða þess er aðallega sú að
tafir hafa orðið á afhendingu nauð-
synlegs endabúnaðar. Yfirmaður sölu
og þróunar hjá Farice telur að til-
koma strengsins og hátt orkuverð á
Írlandi geti skapað tækifæri fyrir
írsku gagnaverin til stækkunar á Ís-
landi. Hann segir að brátt þurfi að
huga að næsta streng til Evrópu þar
sem FARICE-1 komist á aldur undir
lok áratugarins.
Sæstrengurinn ÍRIS var lagður á
sjávarbotninn í sumar. Því verki lauk
í byrjun ágúst þegar komið var sam-
band á milli kapalhúsanna í Þorláks-
höfn og Galway á Írlandi. Örn Orra-
son, yfirmaður sölu og þróunar hjá
Farice ehf., segir að framleiðandi
strengsins, SubCom, vinni að próf-
unum í samvinnu við Farice sem ann-
ist viðtökuprófanir.
Leyst úr landtengingum
Landtengingum er ekki lokið.
Ljósleiðari hefur verið grafinn niður í
götur Galway þar sem hann mun
tengjast ljósleiðarakerfi til Dublin,
höfuðborgar Írlands. Örn segir að
lokahnykkurinn sé eftir. Grafa þarf í
gegnum fjölfarna götu, Dublin Road,
til að tengja ljósleiðarana saman og
þurfi að loka götunni í hálfan dag á
meðan á framkvæmdum stendur.
Segir hann að leyfi hafi fengist og
verði þetta gert einhvern næstu daga.
Íslandsmegin er unnið að tveimur
sjálfstæðum hringtengingum til að
auka öryggið. Er tenging DANICE
sem kemur á land í Landeyjum upp-
færð um leið. Segir Örn að ef eitt-
hvert óhapp verði á öðrum hringnum
færist tengingin sjálfkrafa yfir á hinn.
Annar hringurinn er um Suðurnes
þar sem virkjanir og gagnaver tengj-
ast. Hin hringtengingin er um Suður-
land. Báðir hringirnir hafa snertingu
við Reykjavík. Lagning ljósleið-
aranna um Suðurnes er langt komin,
sömuleiðis um Suðurland. Um 10
kílómetra kafli er þó eftir í Þykkvabæ
þar sem nokkrir landeigendur hafa
meinað Ljósleiðaranum ehf., sem
leggur ljósleiðara frá Þorlákshöfn til
Landeyja, að fara um land sitt. Fjar-
skiptastofa hefur nú úrskurðað að
Ljósleiðarinn eigi rétt til aðgangs að
landi til að leggja strenginn en ekki
endilega á þeim kjörum sem landeig-
endum hefur verið boðið upp á.
Hökt í aðfangakeðjunni
Vegna erfiðleika í aðfangakeðju
heimsins í kjölfar kórónuveiru-
faraldurs hafa orðið seinkanir í af-
hendingu á búnaði sem nauðsynlegur
er til að reka sæstrenginn. Það hefur
orðið til þess Farice getur ekki hafið
sölu á nýja strenginn fyrr en 1. mars,
tveimur mánuðum síðar en áformað
var. Þrátt fyrir það er stefnt að opn-
unarhátíð í Galway undir lok október
með þátttöku ráðherra frá Íslandi og
Írlandi.
Annars segir Örn að framkvæmd-
irnar í heild hafi gengið vel. Lagning
sæstrengsins hafi gengið nánast al-
veg eins og áætlað var. Vinnunni hafi
aðeins seinkað um 2-3 daga vegna
veðurs. Leyfismálin hafi gengið upp.
Þá stenst kostnaðaráætlun. Kostn-
aður er áætlaður um 50 milljónir evra
sem svarar til um 7 milljarða króna,
miðað við gengi evrunnar nú.
Ný viðskiptatækifæri
Íslensku fjarskiptafélögin og
gagnaverin eru helstu kaupendur
þjónustu ÍRISar, eins og á annarri
þjónustu Farice. Öryggi tengingar
landsins tífaldast með fjölgun sæ-
strengja úr tveimur í þrjá og segir
Örn að það skipti miklu máli fyrir
landið en einnig gagnaver sem fyrir
eru og geti dregið fleiri að.
Mörg gagnaver eru á Írlandi en
ekki miklir möguleikar til vaxtar á
meðan orkan þar er fokdýr og af
skornum skammti. Örn segir að við-
skiptatækifæri kunni að felast í því
fyrir gagnaver á Írlandi að geta
stækkað á Íslandi. Löndin gætu með
því hjálpað hvort öðru að vaxa með
þessari góðu tengingu.
Spurður að því hversu lengi nýi
strengurinn muni duga segir Örn að
svo virðist sem hægst hafi á aukningu
internetsins hjá Íslendingum, eins og
öðrum þróuðum þjóðum. Íslendingar
muni því seint fylla strenginn einir.
Sú spurning ráðist meira af því
hversu mikil uppbygging verður hér í
gagnaverum. Telur hann eðilegt að
hann dugi í 15 til 25 ár.
Huga að nýjum streng
„Við þurfum að fara að huga að
lagningu næsta strengs. FARICE-1
verður 25 ára undir lok áratugarins.
Mér sýnist á vexti umferðar að við
þurfum að huga að endurnýjun
hans,“ segir Örn en undirbúningur
fyrir lagningu sæstrengs tekur lang-
an tíma. Tekur hann fram að FAR-
ICE-1 sem liggur frá Seyðisfirði til
Danmerkur með tengingu til Fær-
eyja sé vel hannaður strengur sem
hafi reynst áreiðanlegur.
Spurður um staðsetningu nýs
strengs segir Örn að gott væri að
leggja hann frá Austfjörðum, til að
dreifa jarðfræðiáhættu, og eins vilji
menn síður leggja strengi þvert á
strengi sem fyrir eru. Þess vegna
segir hann að Danmörk eða suður-
hluti Noregs komi vel til greina.
Nefnir hann svæðið norður af Es-
bjerg í því sambandi. Þar er að
verða miðstöð sæstrengja og fjöldi
gagnavera að rísa. Þá séu betri
ljósleiðarakerfi á Norðurlöndunum,
einkum Danmörku, en í Skotlandi
þar sem FARICE-1 kemur í land í
dag.
FARICE-1
DANICE
IRIS
Sæstrengur til Írlands
ÍRLAND
Galway
ÍSLAND
Þorláks-
höfn
Tveir fjarskiptastrengir liggja nú til
Íslands, FARICE-1 sem tekinn var í
notkun 2004 og liggur til Skotlands,
og DANICE sem tekinn var í notkun
2009 og liggur til Danmerkur.
Farice hefur lagt nýjan
sæstreng, ÍRIS, til Írlands.
Unnið er að tengingum við
ljósleiðaran í báðum löndum.
Áætlað er að strengurinn verði
tilbúinn 1. mars.
Seyðisfjörður
Landeyjar
Dunnet Bay
Blaabjerg
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
ÍRIS Strengjaskipið hóf lagningu sæstrengsins á hafsbotninn milli Íslands og Írlands í maímánuði. Verkið gekk vel og var lokið í byrjun ágústmánaðar.
Tímabært að huga að nýjum streng
- Nýi strengurinn
til Írlands kemst
ekki í gagnið fyrr
en 1. mars