Arkitektúr og skipulag - 01.09.1990, Page 91
Gerrit Rietveld Academie er aftur á móti listaskóli þar sem, í anda
stofnandans, er lögð megináhersla á hugmyndir og útfærslu þeirra.
Þangað fór Sigrún frá Englandi. Hugmyndin eða konseptið ræður
ferðinni, jafnvel þó það geti orðið á kostnað notagildis og
framleiðanleika. Sérhver hlutur á sér sögu eða ákveðið samhengi og
galdurinn er að hlutgera söguna eða samhengið í verkinu sjálfu á
meðvitaðan hátt. Þetta getur verið mjög erfitt bæði vegna þess að
klisjurnar eru alltaf hættulega nálægt og vegna þess að vandasamt er
að formbinda hugmynd í hlut þannig að „boðskapurinn” komist til
skila.
Það eru til margar aðferðir til að segja „sögur”, vinna með vísanir
eða reynslu „neytandans”. Borð Sigrúnar hafa t.d. öll sama form, en
mismunandi borðfætur og spónlagning tengja þau ólíkum heimum
sem með vissum hætti gerir þau að sjálfstæðum einstaklingum. Eitt
þeirra hefur fínlega rennda fætur, niðurmjókkandi sívalninga sem
endurvekja minningar um alræði tekksins og skandínavísku
húsgagnanna á meðan annað hefur hörpulaga stálfætur sem vísa til
Art Nouveau eða jafnvel barokksins. Nútíminn læðist síðan inn um
bakdyrnar í formi rótarspóns sem nú er það fínasta af öllu fínu.
Skilveggirnir eru á vissan hátt óður til efnismeðferðarinnar þar sem
notuð eru margvísleg efni til að ná fjölbreyttri áferð. Yfirmálun og
útskurður leggja til náttúruvísanir og undirstrika handverksein-
kennin.
Húsgögnin eru handgerð en þar með er ekki sagt að þau þurfi
að vera það. Ástæðulaust er að afneita tækninni og þeim
möguleikum sem hún býður upp á. Eins og Sigrún hefur bent á þá
er hugsanlegt að sameina handíð og fjöldaframleiðslu með
margvíslegum hætti. Bæði væri hægt að hugsa sér að vissir hlutar
húsgagnanna væru fjöldaframleiddir á meðan frágangur væri að
hluta til handíð.
Það væri áhugavert ef eitthvert vel tækjum búið verkstæði hæfi
samvinnu við hönnuði þar sem húsgögn væru framleidd í litlum
seríum út frá ákveðnum hugmyndum en þó þannig að þau þyldu
verðsamanburð við fjöldaframleidd húsgögn. Tækin eru til en
spurningin er hvort svigrúmið sé nægilegt. Þetta svigrúm er að
skapast erlendis hröðum skrefum og í rauninni væri ekki mikil áhætta
að láta reyna á hvort það sé ekki að myndast hér á landi líka.
Við þurfum að vinna að því á öllum vígstöðvum að sameina
lifandi sköpun og nútíma framleiðslutækni og þar með að endurvekja
lifandi húsgagnagerð. ■
89