Bændablaðið - 09.02.2023, Page 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023
Boðað hefur verið til II. búgreinaþings þann
22. og 23. febrúar næstkomandi, þar munu
bændur funda í sínum búgreinadeildum,
fara yfir helstu atriði er snúa að viðkomandi
búgrein og kjósa sér stjórn deilda til að
leggja línurnar í áherslum ársins.
Veigamesta atriðið verður væntanlega
áherslur búgreina við endurskoðun
búvörusamninga. Þá á sér nú stað mikil
umræða í samfélaginu um tolla og tollvernd
þar sem forkólfar verkalýðshreyfingarinnar
hafa meira að segja sett það inn sem hluta af
samningum við sinn viðsemjanda að lækka
tolla á landbúnaðarvörum. Hér er hreinlega
verið að vega að launakjörum bænda og
starfsfólks í landbúnaði og því sætir það undrun
að verkalýðsfélög fari í þessa vegferð, því
mikið af þeirra félagsfólki hefur lífsviðurværi
sitt af því að vinna landbúnaðarvörur eða
þjónusta greinina. Tollar eru og verða alltaf
hluti af rekstrarumhverfi landbúnaðar hér á
landi eins og í öllum vestrænum heimi.
Eftirlit með innflutningi
Um miðjan janúarmánuð felldi matvæla-
ráðuneytið úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar
um að synja fyrirtæki um heimild til
innflutnings á trjábolum með berki frá
Póllandi. Ráðuneytið, sem fer jafnframt með
málefni skógræktar, var ósammála niðurstöðu
MAST og virðist sem svo að hér hafi verið
tekist á um mismunandi skilning á reglugerð
um plöntur og plöntuafurðir. Síðustu tíu ár
hafa garðyrkjubændur óskað eftir því við
ráðherra landbúnaðar að umrædd reglugerð
verði endurskoðuð. Viðbrögð ráðuneytisins,
(og þar með, að ég tel, fimm ráðherra), hafa
einkennst af dulbúinni jákvæðni.
Vinnan hefur nefnilega ítrekað strandað,
sem er að mínu áliti með öllu óskiljanlegt
þar sem hagsmunir flóru Íslands er í húfi.
Í 4. gr. reglugerðarinnar er tekið fram að
innflutningur á bolvið með berki er óheimill.
Í 5. gr. sömu reglugerðar kemur fram að
heimilt er að flytja inn trjávið með berki.
Það er augljóst að nauðsynlegt er að ljúka
endurskoðun á gildandi reglugerð þar sem
auðveldlega megi túlka innflutning á plöntum
og plöntuafurðum á mismunandi veg með
flóru Íslands að veði.
Verksmiðjubúskapur
Mikið er spáð og spekúlerað um
verksmiðjubúskap á Íslandi. Þar virðast
menn líta til skilgreiningar á slíkri framleiðslu
með mjög neikvæðum hætti. En hver er
skilgreining verksmiðjubúskapar?
Matvælaframleiðsla er bundin í þannig
umhverfi að mögulegt er að framleiða
afurðirnar, hvort sem er svín, kjúklingur, egg
eða jafnvel grænmeti. Allt er þetta framleitt
við kröfur og skilyrði svo neytendur geti notið
öruggra matvæla á hverjum tíma. Ef ekki væri
húsakostur fyrir svínaframleiðslu myndu þau
drepast úr kulda á okkar harða landi. Sama á
við kjúkling og egg. Tómatar og gúrkur þrífast
ekki utandyra og þar sem þessi framleiðsla
fer fram innandyra í vernduðu umhverfi í
miklu magni, er framleiðslan þá skilgreind
sem verksmiðjubúskapur?
Íslenskir svínaræktendur eru að framleiða
jafn mikið á einu ári og það sem Danir
framleiða af svínakjöti á einni viku. Þar á
bæ tala menn eftir sem áður um landbúnað
en ekki verksmiðjubúskap. En að hluta þá
er þessi vara flutt inn og enginn talar um að
verið sé að neyta verksmiðjuframleidds matar.
Höfum skilgreiningar og hugtök svo allir
skilji það eins, stöndum vörð um íslenskan
landbúnað öllum til heilla, bændum,
neytendum og verkamönnum þessa lands.
SKOÐUN
Villandi
framsetning
Yfirgnæfandi meirihluti neytenda telur
upprunamerkingar á mat mikilvægar,
ef marka má könnun sem Gallup gerði
fyrir hönd Icelandic Lamb árið 2021.
Samkvæmt henni sögðust rúmlega
70% neytenda óánægðir með að erlendar
kjötafurðir séu seldar undir íslenskum
vörumerkjum og hafði a.m.k. 20%
svarenda upplifað að hafa verið blekktir
við innkaup hvað varðar uppruna matvöru.
Á meðan reglugerðir kveða á um
að skylt sé að merkja uppruna á kjöti
og ferskum matjurtum er einhverra
hluta vegna ekki skylda að merkja
unnar kjötvörur eða tilbúna rétti eftir
upprunalandi.
Því skyldi engan undra þótt neytendur
hér á landi kvarti yfir því að óljóst þyki
hvort búvara sé úr innlendu eða erlendu
hráefni. Skyldumerkingarnar eru oft
í smáu letri og á ólíkum stöðum á
pakkningum.
Uppruni matvöru skiptir miklu máli
og allir ættu að hafa greiðan aðgang
að upplýsingum um hvernig vara er
til komin, hvernig hún er ræktuð og
framleidd, hversu langt að hún er flutt
og svo framvegis.
Það sýnir sig ekki síst hversu brýnt
þetta neytendamál er þegar upp koma
dæmi um grófar blekkingar.
Áhyggjur bænda af neikvæðum
áhrifum af tollfrjálsum innflutningi á
landbúnaðarvörum frá Úkraínu voru ekki
úr lausu lofti gripnar.
Þegar Bændasamtökin lögðu til
fyrirvara við tollaniðurfellingu á vörum
upprunnum frá Úkraínu í júní síðastliðnum
var því slegið upp í mörgum fjölmiðlum
sem einhvers lags hysteríu af þeirra hálfu.
Innflutningur á búvörum frá Úkraínu
þekktist ekki, flutningsvegalengdin væri
svo mikil að ekki þótti ástæða til að óttast
að nokkuð þess háttar myndi gerast.
En viðskiptahættir geta verið siðlausir
eins og eftirfarandi dæmi sýnir:
Þegar þetta er ritað standa
afurðafyrirtæki, í eigu hérlendra bænda,
að innflutningi, vinnslu og umpökkun
á úkraínsku kjúklingakjöti. Uppruna er
ekki getið á umbúðum. Þetta eru fyrirtæki
sem gefa sig út fyrir að vinna kjötvöru
af ýmsu tagi og endurselja til verslana,
veitingahúsa, hótela og mötuneyta.
Umræddar vörur liggja frammi í
verslunum á tæplega helmingi lægra
kílóverði en aðrar kjúklingavörur með
svipaðri framsetningu.
Af hverju í ósköpunum eru teknar
ákvarðanir sem brjóta í bága við hagsmuni
íslenskrar landbúnaðarframleiðslu í
fyrirtækjum sem eru í eigu íslenskra
bænda?
Þetta nær ekki nokkurri átt.
Af hverju er kjúklinginn ekki
sérstaklega merktur sem úkraínskur? Slíkt
getur þótt söluvænlegt, auk hagstæða
verðsins. Neytendur gætu þá sýnt samhug
og stuðning sinn við Úkraínu með því
að velja úkraínskt hráefni vísvitandi.
Yfirlýstur tilgangur ríkisstjórnarinnar
með tollaniðurfellingunni var jú að
sýna stuðning í verki. Þarna eru augljós
tækifæri.
Með þessum blekkingarleik er hins
vegar engum greiði gerður. Hvorki
neytendum, né framleiðendum á Íslandi.
Traust til verslunar og matvælaframleiðslu
dvínar. Stuðningurinn við Úkraínu virðist
óheiðarlegur.
Guðrún Hulda Pálsdóttir
ritstjóri.
Búgreinaþing
GAMLA MYNDIN
Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
gunnar@bondi.is
Bændablaðið kemur út 23 sinnum á ári.
Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim
í pósti gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (23. tölublöð) kostar þá kr. 14.900
með vsk. Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar kr. 11.900 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Borgartún 25, 4. hæð - 105 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Kt: 631294-2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0300 – Blaðamenn: – Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is
Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 563 0303
Netfang auglýsinga: thordis@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Fyrsta andabúið. Jón M. Guðmundsson, sem yfirleitt er kenndur við Reyki í Mosfellsbæ, ásamt Pekingöndum á Álfsnesi um 1900. Á árunum
1958 til 1964 var starfrækt andabú í Álfsnesi á Kjalarnesi og fjölgaði aliöndum á landinu talsvert við það. Endurnar á búinu klöktust úr eggjum
sem fengin voru af dönsku Pekingandakyni. Þegar best gekk var slátrað 200 til 300 fuglum á viku. Búið skipti um eiganda í miðjum rekstri og
við því tók Sigurbjörn Eiríksson, sem oftast er kenndur við veitingahús sem var í Reykjavík og hét Klúbburinn. Hann rak búið til 1964 en þá var
rekstrinum hætt. Mynd / Myndasafn Bændasamtaka Íslands.
Grísir í Laxárdal. Mynd / ÁL