Bændablaðið - 09.02.2023, Síða 7

Bændablaðið - 09.02.2023, Síða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023 Fagurlega dekkað borð gladdi viðstadda og maturinn án efa bragðast vel. Unnur Þorvaldsdóttir, Litlu-Reykjum, Hrafnhildur Baldursdóttir, Litla-Ármóti, Elín Magnúsdóttir, Brúnastöðum, Árný Ilse Árnadóttir, Oddgeirshólum. Blómaskreyting sem ber af! LÍF&STARF Stórviðri ganga nú yfir landið sem sjaldan fyrr. Veðurviðvaranir nánast daglegar. Það er líka appelsínugul viðvörun í fyrstu oddhentu vísu þáttarins eftir Ingólf Ómar Ármannsson: Veldur kvíða vetrartíð veðrin stríðu meður. Þróttinn níðir úr þreyttum lýð þrálát hríðarveður. Svo er hér ein gömul sem oft var sungin í heimasveit minni, en óvíst er um höfund: Úti hríðar alla tíð, að mér kvíða setur. Svol’tið “íðí” sem ég níð svo mér líði betur. Og höldum áfram á þessum nótum. Ingvar Frímannsson, Skógum í Kolbeinsstaðahreppi, orti þessa mergjuðu hringhendu: Skýjatigla breið er brú, bólstrar myglufúnir. Hraðan siglir Norðri nú, napur ygglir brúnir. Eftir Kristbjörn Benjamínsson á Kópaskeri er lokavísa þessarar stórviðra-syrpu: Birtist þrátt hið bitra tjón, bylur hátt við kveður. Vetrarmáttur felur Frón, fönn í gáttir hleður. Þórarinn Sveinsson í Kíla-Koti var mikill afburða hagyrðingur. Næstu tvær vísur taka þar af allan vafa: Eg er kominn á ysta barð elligrár og lotinn. Naut ég þess sem notið varð, nú eru föngin þrotin. Bráðum kveð ég bæ og hörg, bjartan flýg í geiminn. Eg á orðið ekki mörg erindi við heiminn. Enn finn ég áður óbirtar vísur eftir Rósberg Guðnason Snædal. Þessi fegurð fannst í gömlu grúski: Baða koll í blámans firrð bjartir jöklar heiða. Víðáttunnar vald og kyrrð vegfarandann seiða. Gísli Gíslason í Skörðum kvað til manns er ávítti konu sína: Eg hef hlýtt á yðar tal ei með sinni gljúpu. Oft hef ég gráan vitað val vega að hvítri rjúpu. Þjóðskáldið Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli orti þessa fagurgerðu stöku: Gott er að koma að garði þeim sem góðir vinir byggja. Þá er meira en hálfnað heim hvert sem vegir liggja. Sveinn í Elivogum kvað um sr. Gunnar á Æsustöðum, er tekið hafði hross til hagagöngu af honum: Þegar hesta haga þraut og herti klakatakið, Gunnar prestur skildi skaut skálds fyrir nakið bakið. Sr. Gunnar svaraði Elivogaskáldinu: Hækka mun þinn hróður, Sveinn hér í fjallasalnum. Þú ert eins og stakur steinn sem stendur upp úr dalnum. Einmitt nú er hann genginn til sunnanáttar. Ólína Jónasdóttir orti af snilli sinni: Lækjaraðir fjöllum frá fram sér hraða af stalli, sýnist glaður svipur á Silfrastaðafjalli. Umsjón: Árni Geirhjörtur Jónsson kotabyggd1@gmail.com MÆLT AF MUNNI FRAM Þorrablót með Bændablaðsþema Íbúar í fyrrum Hraungerðis- og Sandvíkurhreppi í Flóa nýttu heldur betur tækifærið, en nýverið „kom loksins að því“ að hægt væri að halda þorrablót. Höfðu gestir beðið óþreyjufullir í nú þrjú ár og blótið því haldið með pomp og prakt í félagsheimilinu Þingborg en þema kvöldsins var Bændablaðið og gamli tíminn. Eins og vani er var góðlátlegt grín í garð sveitunga í hámæli, skemmtiatriði og leikþáttur sýnd auk þess sem myndband og „Flóa-Bændablaðið“ útgefið. Fundust þar fréttir gríns og glens en einnig mátti finna söngtexta í formi Bændablaðsins. Veglegur vinningur frá Sláturfélagi Suðurlands var veittur fyrir best skreytta borðið en borðskreytingakeppni var að sjálfsögðu í gangi. Sá Sjafnarblóm um að pakka vinningnum inn en einnig voru veitt verðlaun frá fyrrnefndum fyrirtækjum fyrir bestu stökuna. Dynjandi dans var þreyttur fram á rauða nótt við tóna hljómsveitarinnar Sveitamanna og tókst skemmtunin vel í alla staði. Hvað varðar vinningsstökuna var hún ort af Guðmundi nokkrum Stefánssyni, fyrrverandi bónda í Hraungerði. Dómnefndin taldin hana bragfræðilega alveg hárrétta auk þess að vera með innrími og er hún svohljóðandi: Víni töppum við í munn, víst með köppum gaman. Takta stöppum talsvert kunn, tryllt með löppum saman. Allir í stuði: Ágúst Guðjónsson, Læk, Björgvin Elísson, Egilsstöðum á Héraði, Anna Þórný Sigfúsdóttir, Garðshorni, Margrét Drífa Guðmundsdóttir, Læk. Vinningsborðið: Ólöf Ósk Magnúsdóttir í Hrygg var hugmyndasmiðurinn að þeim skreytingum. Þeir hressu: Geir Gíslason, Einar Magnússon, Árni Freyr Pálsson, Haukur Gíslason og Ívar Freyr Hafsteinsson. Nefndin: Malin og Ólafur Tindum, Veronika og Bjarni Túni, Jóhanna og Birkir Austurmýri 3, Sigurbára og Einar Langstöðum, Jóhannes og Helga Stóra-Ármóti 2. Dæmi um aðrar stökur sem komu vel til álita eru eftirfarandi: Feitmeti úr Flóanum fæ ég hér á blóti Metfjárins úr móunum menn hér allir njóti Höf: Ingólfur Narfason og Guðmundur Stefánsson Stöku, stöku, stöku sinnum stormum við á þorrablót Eftir drjúga drykkju finnum dásamlega fiman fót Höf: Betzy Marie Davidson Villtust í Þingborg Villingar vaðandi snjó og krapa Sagt er að þau séu snillingar sem kunna mjög illa að tapa Höf: Sigtryggur og Sigfús (mjög líklega dulnefni) Skemmtinefnd með stólpagrín skaffar mörgum kvíða Meðalið er meira vín má það fara víða Höf: Byggðarhornsborðið Bil á milli borða býsna lítið er Ef geymir kona forða á afturenda sér Höf: Svanhildur „Súrt er það“ sagði einn og stakk upp í sig hvalnum „Þetta er nú sítróna Sveinn, sem var hérna á gólfinu í salnum“ Höf: Sigurður Andri Jóhannesson Húð á beinum hangir hold þar hvergi sést út frá limum langir af liggur ýldupest Höf: Sævar Eiríksson

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.