Bændablaðið - 09.02.2023, Side 20

Bændablaðið - 09.02.2023, Side 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023 Á síðasta ári framleiddi Sorpa tvær miljónir rúmmetra metangass sem jafngildir orkunni í tveimur milljónum lítra af dísilolíu. Á þessu ári er stefnt að því að koma framleiðslunni upp í fjórar milljónir rúmmetra til að svara eftirspurn. Aukning hefur verið á afköstum eftir að Gaja, gas- og jarðgerðarstöð, var tekin í gagnið. Norðurorka framleiðir nálægt 250 til 300 þúsund rúmmetra af metangasi á ári hverju, sem er nálægt fullum afköstum stöðvarinnar. Allt er það selt sem eldsneyti og myndi duga fyrir árskeyrslu 250 til 300 fólksbíla. 60 til 70 prósent af metaninu er hins vegar notað til að knýja metanstrætisvagna á Akureyri. Einnig eru framleidd 70 til 100 tonn af lífdísil á hverju ári úr steikingarolíu frá veitingahúsum. „Engar tæknilegar hindranir“ Núna er komin af stað vinna við að hanna líforkuver í samstarfi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Þar yrði farvegur fyrir allan lífrænan úrgang og afköstin í eldsneytisframleiðslu myndu tífaldast. „Tíminn er svo fljótur að líða. Ísland ætlar að vera búið að draga úr losun um 55 prósent fyrir 2030 – og árið 2023 var að detta inn. Við klárum samdráttinn ekki í desember 2029, heldur þurfum við að ná árangri á hverju ári. Við þurfum að nýta þessar „núlausnir“ sem við erum með í staðinn fyrir að horfa alltaf á einhverja nýsköpun. Það eru engar tæknilegar hindranir í nýtingu metans – það þarf bara vilja til verka,“ segir Guðmundur H. Sigurðarson hjá Vistorku, sem er dótturfélag Norðurorku. Kaupendur að öllu íslensku metani Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Sorpu, segir þá nýbreytni hafa átt sér stað á síðustu misserum að iðnfyrirtæki eru farin að sækjast eftir metani. Malbiksstöðin stefnir að því að kaupa milljón rúmmetra á ári. Enn fremur hafa Te og kaffi ásamt Lava Show nýlega skipt út innfluttu jarðgasi í stað metans frá Sorpu. Gunnar segir að í flestum tilfellum þar sem notað er propangas eða dísil sé hægt að skipta yfir í metan. Ekki er þó hægt að skipta út innihaldi gaskútsins við grillið, því rúmmál metans við stofuhita er of mikið til að það sé meðfærilegt í litlu magni. „Staðan er sú að það eru kaup- endur að bróðurpartinum af því metani sem framleitt er á Íslandi í dag. Þannig að ef við ætlum að nýta þennan kost betur í orkuskiptunum þurfum við að framleiða meira,“ segir Gunnar. Metan er 80 sinnum verri gróðurhúsalofttegund fyrstu tíu árin en koltvísýringur – og 30 sinnum verri yfir hundrað ár. Gunnar Dofri segir risavaxið loftslagsmál að nýta metanið ekki bara í orkuskipti, heldur líka fanga það. Söfnun metans á urðunarstöðum er mjög óskilvirk samanborið við þegar lífrænn úrgangur er unninn við stýrðar aðstæður. Um áramótin tóku í gildi nýjar reglur þar sem sveitarfélög eru skylduð til sérsöfnunar á lífrænum úrgangi, þó svo að fæst sveitarfélög hafi lokið sinni aðlögun eins og kom fram í síðasta tölublaði Bændablaðsins. Í þeim reglum er tekið fyrir urðun á áðurnefndu sorpi. Gunnar segir að þegar byrjað verði að taka við sérflokkuðum matarleifum muni Gaja skila af sér mjög hreinni afurð. Í stöðinni er búnaður sem hreinsar burt aðskotahluti, en þar sem almenna sorpið sem kemur í stöðina núna inniheldur 30 prósent af óæskilegum efnum ræður búnaðurinn ekki við að hreinsa afurðina nógu vel í moltu sem má nýta. Sorpið er því verkað til metanframleiðslu og urðað að því loknu. Samkvæmt Gunnari fara mikil verðmæti forgörðum með að fullnýta ekki lífúrgang. „Það er eitthvað sem við getum ekki leyft okkur ef okkur er alvara að ætla í orkuskiptin. Við erum alltaf að bíða eftir stóru lausninni en hún kemur aldrei. Orkuskiptin verða „þúsundlausnalausn“. Við höfum ekki efni á því að bíða eftir að einn orkukostur vinni af því það verður enginn sigurvegari.“ Nokkur munur er á Gaja og því líforkuveri sem fyrirhugað er fyrir norðan, því fyrrnefnda sorphreinsistöðin verkar þurrt lífrænt sorp, á meðan sú síðarnefnda myndi að auki vinna með lífrænar afurðir á vökvaformi. Heildstæð lausn í burðarliðnum Samtök sveitarfélaga og atvinnu- þróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) létu gera frumhagkvæmnimat á fýsileika þess að reisa líforkuver í landshlutanum. Smári Jónas Lúðvíksson, verkefnastjóri hjá SSNE, kom að vinnu skýrslunnar og segir hann niðurstöðurnar í stuttu máli mæla með frekari skoðun á uppbyggingu líforkuvers. „Þetta yrði heildstæð lausn á meðhöndlun lífúrgangs,“ segir Smári. Öll vinna við undirbúning muni taka nokkur ár áður en framkvæmdir geta endanlega hafist. Samkvæmt tímalínu í skýrslunni er talið mögulegt að líforkuverið verði klárt í tveimur áföngum. Sá hluti sem snýr að metanframleiðslu gæti verið kominn í gagnið í lok árs 2027 og sorpbrennslan um mitt ár 2030. „Við vonumst til þess að fljótlega verði gerð viljayfirlýsing á milli sveitarfélaganna og ráðuneytis um að fara í þá vinnu,“ segir Smári. Farvegur fyrir öll dýrahræ Líforkuverið mun taka við dýra- hræjum úr öllum áhættuflokkum. Eins og staðan er núna er ekki hlaupið að því að farga sauðfé sem smitað er af riðu, en í líforkuverinu mun opnast farvegur til að búa til lífdísil úr fitunni og brenna restinni. „Þetta er orkuver, en afurðin sem slík er orkugjafar,“ segir Smári. Þar á hann annars vegar við eldsneyti eins og metan og lífdísil, og hins vegar áburð í formi moltu eða meltrar mykju. Ef samstarf næst við aðila í fiskeldi skapast miklir mögu- leikar á að framleiða fosfórríkan áburð úr seyru sem verður til í landeldi. Öll tæknin sem lagt er upp með að nota í líforkuverinu er þekkt og var horft til þess sem vel er gert í öðrum löndum. „Það eina sem er nýtt er að við erum að setja þetta allt á sama stað. Með því að ná þessum efnum í hringrás verðum við sjálfum okkur nægari. Það er mjög mikilvægt að við týnum ekki þessum verðmætum út úr keðjunni hjá okkur – því að þetta eru sannarlega verðmæti. Við erum alltaf að reka okkur meira og meira á það í dag að öll þessi verðmæti eru ekki tæmandi og þau verða dýrari og dýrari,“ segir Smári. Loftfirrt gerjun á mykju Ásgeir Ívarsson hjá Gefn kom einnig að vinnu frumhagkvæmnimatsins á líforkuveri fyrir SSNE. Hann segir að matið geri ráð fyrir að fyrirhugað líforkuver á Norðurlandi eystra muni vinna metan úr mykju frá landbúnaði. Hráefninu yrði safnað í loftþétta tanka, en við þær aðstæður éta örverur upp allt súrefnið og koma af stað loftfirrtri gerjun. FRÉTTASKÝRING Vagnhöfði 7, 110 Reykjavík | Sími: 517 5000 | stalogstansar.is stalogstansar.is VARAHLUTIR Í KERRUR 2012 2021 Hringrásarhagkerfið: Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi – Fullnýting er mikilvægt loftslagsmál Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is Í dag eru tveir stórir metanframleiðendur á Íslandi – annars vegar Sorpa í Reykjavík og hins vegar Norðurorka á Akureyri. Lífrænn úrgangur ratar hins vegar enn í urðun og fara verðmæti forgörðum. Tæknin til að fullvinna lífrænan úrgang er þekkt, en innleiðing hefur gengið hægt hingað til. Skriður virðist vera kominn á þessi mál og má reikna með framförum á næstu misserum. Matarleifar og lífúrgangur eru verðmæt hráefni. Sveitarfélög landsins áttu að innleiða sérsöfnun á lífrænu sorpi um áramótin, en innleiðingin hefur dregist. Mynd / Þráinn Kolbeinsson

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.