Bændablaðið - 09.02.2023, Síða 21

Bændablaðið - 09.02.2023, Síða 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023 Gasið sem myndast í tönkunum nefnist hauggas, sem er að megninu til blanda af metani og koldíoxíði. Eftir að búið er að meðhöndla mykjuna á þennan hátt er hún orðin að betri áburði, þar sem köfnunarefnissamböndin brotna niður og verða aðgengilegri plöntunum. 60 til 65 prósent af rúmmáli hauggassins er metan. Með lágmarkshreinsun nýtist það til að hita katla og sem eldsneyti á rafstöðvar. Erlendis tíðkast að framleiða rafmagn og varma á þennan hátt. Hérlendis er hitaveita og vatnsaflsorka ódýrari, sem hefur komið í veg fyrir frekari innleiðingu. Ýmsar aðferðir eru til að fullhreinsa hauggas, en hérlendis tíðkast að láta það fara í gegnum vatnsbað, sem leysir upp öll óæskilegu gösin og skilur metanið eftir. Að lokinni þurrkun fæst eldsneytið sem dælt er á bifreiðar og vinnuvélar. Koldíoxíð er stærsta aukaefnið í hauggasi og er möguleiki á að vinna úr því kolsýru sem ýmist gagnast í ylrækt eða gosdrykkjagerð. Í líforkuverinu er gert ráð fyrir þeim möguleika að sótthreinsa mykjuna áður en hún fer í tankana. Þá er hún hituð vel yfir 100 °C undir þrýstingi sem á að koma í veg fyrir dreifingu smitefna. Reikna þarf með að stöku bæir geti ekki tekið þátt ef áhætta á dreifingu búfjársjúkdóma er mikil. „Þetta getur klárlega verið hluti af þessari orkuskiptavegferð sem við erum á. Hvað eldsneytishliðina varðar er fólk áhugasamt um vetni og annað rafeldsneyti, en metanið er ekki síður áhugaverður kostur þó ekki verði hægt að framleiða það í jafn miklum mæli,“ segir Ásgeir, en verðleikar metans felast m.a. í því að framleiðslan er afar orkuhagkvæm. Við framleiðslu á vetni þarf minnst tífalt meiri raforku samanborið við framleiðslu á jafn mikilli orku í formi metans eins og tæknin er núna. Færeyingar með fullkomið líforkuver Eitt af því sem horft var til við frum­ hagkvæmnimatið er líforkuverið Förka, rétt norðan við Þórshöfn í Færeyjum. Þar er hráefnið seyra frá landeldi, úrgangur úr sjókvíum ásamt mykju frá kúabúum, og afurðin er góður áburður, metan og varmi. Lítill hluti hráefnisins eru skemmdir ávextir og grænmeti úr verslunum. Förka er alfarið í eigu fiskeldis­ risans Bakkafrosts. Fróði Mortensen, framkvæmdastjóri Förka, segir kaupendur eldisfisks farna að gera ríkari kröfu um sjálfbærni í framleiðslu, ekki bara þegar kemur að loftslagsmálum, heldur líka varðandi mengun. Meira en helmingur af út­ flutningstekjum Færeyinga er frá fiskeldi. Því skiptir Bakkafrost miklu máli að auka sjálfbærni framleiðslunnar og að losna við úrganginn á sem bestan máta. Fróði segir að gengið sé út frá því að lax sem drepst í sjókvíum beri með sér sjúkdóma og því nauðsynlegt að fjarlægja hræin áður en smitefnin dreifa úr sér. Þennan úrgang þarf að meðhöndla með varúð og má ekki nýta ómeðhöndlaðan sem fæðu, fóður eða áburð eða losa í hafið. Áður en lífmassaverið var sett upp voru hræin send til vinnslu í Noregi og send þaðan sem hráefni í lífmassaver í Danmörku. Nú er öruggur farvegur fyrir úrganginn hjá Förka. Með því að vinna úr úrganginum innanlands styður Bakkafrost við myndun hringrásarhagkerfisins og hefur jákvæð áhrif á samfélagið. „Þetta er dýrt, en samt er þetta ódýrara samanborið við áður,“ segir Fróði. Flutt án endurgjalds Starfsmenn Förka sækja mykjuna með flutningabílum á bæina og skila verkuðum áburði til baka. Bændurnir borga ekkert fyrir flutninginn eða meðferðina í líforkuverinu. Það eina sem bændurnir þurfa að gera er að koma upp tvöfaldri geymslu á lífrænum áburði, þannig að hægt sé að halda meltri mykju aðskilinni. Bændum býðst ekki geymslupláss í lífmassaverinu, því Förka fær mun betri nýtingu á flutningabýlunum ef þeir keyra fulllestaðir báðar leiðir. Færeyskir sauðfjárbændur eru einnig í samstarfi við Förka, þrátt fyrir að leggja engin hráefni í líforkuverið. Þeirra framlag er að leggja til beitiland og tún meðfram þjóðvegum sem Förka getur spúlað áburði á með þar til gerðri dælu á flutningabíl. Stöku kúabændur nýta sömu þjónustu og spara þar með vinnu og eldsneyti við að keyra mykjunni sjálfir á túnin. Förka efnagreinir áburðinn og sendir upplýsingarnar til bændanna. Með því geta þeir séð nákvæmlega hvað þeir eru með í höndunum. Samkvæmt Fróða geta bændurnir uppfyllt þörfina á köfnunarefni með áburðinum frá Förka og gefur seyran frá landeldinu mikinn fosfór. Kaup á tilbúnum áburði eru því í lágmarki. „Bændurnir fá betri afurð þar sem þetta lyktar ekki illa, inniheldur meiri vökva, er einsleitara og er með meira af næringarefnum.“ Ferlið í gegnum Förka Tveir móttökutankar eru við líforkuverið. Annar tekur við mykju og seyru, á meðan hinn er hugsaður fyrir laxahræ. Hráefnið í móttökutönkunum er hitað upp í 85 °C í eina klukkustund til gerilsneyðingar. Að því loknu er efninu dælt í aðal verkunartankinn þar sem gerjunin hefst við 28 °C. Þaðan er efninu dælt í minni gerjunartank og kælt niður í 25 °C og er umframhitinn nýttur til kyndingar. Þaðan fer efnið svo í geymslutanka sem duga til að geyma vikuforða af framleiðslu. Metanið sem verður til er notað í rafstöð, sem annars vegar framleiðir rafmagn sem sett er á dreifikerfið, og hins vegar skilar rafstöðin af sér varma sem fer í vinnsluna og í að kynda hús í Þórshöfn. Á síðasta ári seldi Förka 2,6 gWst af rafmagni, en Fróði segir að stefnt sé að því að ná þessari tölu upp í 9 gWst eftir einhver ár. Markmiðið er að framleiða rafmagn fyrir 1.900 heimili og hita fyrir 400. Aðspurður hvaða úrgangur komi frá starfsemi Förka segir Fróði að það séu einungis slitnir vélahlutir, skrifstofupappír og umbúðir. Einnig kemur eitthvað af koltvísýringi frá metanrafstöðinni. Metan mun alltaf fylgja okkur Ragnar K. Ásmundsson, Ph.D., verkefnisstjóri Orkusjóðs, segir að mest af því metani sem framleitt er í heiminum sé jarðgas – sem oftar en ekki er aukaafurð úr olíulindum. Allt metan sem er nýtt og framleitt á Íslandi kemur frá úrgangi. Ragnar segir mikið loftslagsmál að safna metani úr lífrænum úrgangi, en eins og áður segir er það gastegund sem veldur mun meiri loftslagsáhrifum en koltvísýringur. „Það er loftslagsatriði þó þú gerir ekkert annað en að kveikja í þessu.“ Ragnar nefnir að metangas sem búið er að kæla niður á vökvaform sé talsvert notað sem eldsneyti á skipavélar og er bruninn á því mjög hreinn samanborið við dísil eða bensín. „Metan er þó ekki sett efst á lista yfir þau eldsneyti sem eiga að taka við síðar meir þar sem sameindin inniheldur kol og við brunann myndast koltvísýringur. Metan verður samt alltaf með okkur af því að við erum kolbaseruð lífvera og það er partur af okkar lífi. Við þurfum því að koma því í farveg.“ Félagið Norður með svissneska bakhjarla standa á bak við verkefni á Hellisheiði og Þeistareykjum sem byggjast á að fanga og nýta metan sem verður til við framleiðslu á jarðvarma. „Ef það fer af stað eru ákveðin samlegðaráhrif sem auka metan á íslenskum markaði,“ segir Ragnar. Fríform ehf. Askalind 3, 201 Kópavogur. 562–1500 Friform.is. Virka daga 10-17 Laugardaga 11-15 Hjarta heimilisins Við hönnum innréttingar að þínum þörfum 2000 — 2022 Óhagkvæmt á smáum skala Jón Tryggvi Guðmundsson, vél- tæknifræðingur á orkusviði, gerði tilraun fyrir nokkrum árum við framleiðslu metans úr mykju sem féll til á kúabúinu Hraungerði í Flóahreppi. Tækjabúnaðurinn gat framleitt átta rúmmetra á klukku- tíma og nýtti Jón Tryggvi afurðina sem eldsneyti á eigin bíla. Aðspurður hvort hann myndi fara aftur í sömu vegferð, verandi með þá reynslu sem hann er með núna, segir Jón Tryggvi forsendurnar vera breyttar. „Þegar ég fór af stað árið 2008 var þróun rafbíla ekki komin eins langt og núna. Mínar hugmyndir gengu út á að framleiða metan á fólksbíla sem þá var þekkt lausn og komnar upp metanstöðvar í Reykjavík.“ Jón Tryggvi segir torsótt að safna upp miklum metanforða með einföldum tækjabúnaði. Þetta atriði geri ópraktískt fyrir bændur að fá sér metantraktora með það að sjónarmiði að framleiða orkuna á þá sjálfir. „Þegar orkuþörfin er mest, á sumrin í heyskap, þá ertu búinn að dreifa öllum haugnum á túnin og ert með tóm haughús. Bændur þyrftu að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja að framleiðslan fari fram jöfnum höndum og notkunin.“ Stofnkostnaðurinn er nokkuð hár og getur Jón Tryggvi ekki mælt með að einstaka býli fari í sömu vegferð. „Mér finnst hundleiðinlegt að þurfa að segja þetta en það er ekki arður af þessu og þetta stendur varla undir sér.“ Guðmundur H. Sigurðarson. Ásgeir Ívarsson. Gunnar Dofri Ólafsson. Ragnar K. Ásmundsson. Fróði Mortensen. Smári Jónas Lúðvíksson. Með réttum innviðum er hægt að auka áburðargildi mykju svo um munar. Mynd / Úr myndasafni

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.