Bændablaðið - 09.02.2023, Blaðsíða 40
40 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. febrúar 2023
Kynbótamatið er í stöðugri þróun og á síðasta
ári varð sú breyting á útreikningi að hætt var að
leiðrétta fyrir umhverfisáhrifum sýningarárs. Sú
breyting gerði það að verkum að röðun hrossa í
kynbótamatinu breyttist töluvert á alþjóðlegum
grunni en hélt sér að mestu innan landa. Þróun
á kynbótamatinu er langt komin en næsta skref
verður að bæta við því að kynbótamat verði
reiknað á grunni keppnisgagna auk gagna
frá kynbótasýningum eins og er gert í dag.
Það er mikilvægt að endurmeta þau lágmörk
sem gilda fyrir afkvæmaverðlaun verði mikil
breyting á niðurstöðum við mismunandi skref
í þróun matsins. Í dag þarf hryssa að eiga að
lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með
116 stig í kynbótamati ýmist fyrir aðaleinkunn
eða fyrir aðaleinkunn án skeiðs til að hljóta
viðurkenningu fyrir afkvæmi. Af þeim 20
hryssum sem hlutu verðlaun fyrir afkvæmi
árið 2022 voru 4 sem ná viðmiðinu 116 fyrir
aðaleinkunn án skeiðs. Röðun hryssna fer
eftir kynbótamati fyrir aðaleinkunn, ekki eftir
kynbótamati fyrir aðaleinkunn án skeiðs. Hér
á eftir og í næsta blaði verður fjallað um þessar
hryssur og dómsorð afkvæma.
Elísa frá Feti
Efsta hryssan árið 2022, og þar með
Glettubikarhafinn, er Elísa frá Feti. Hún er
undan heiðursverðlaunahrossunum Gusti frá
Hóli og Þernu frá Feti. Ræktandi Elísu er
Guðmundur Friðrik Björgvinsson en eigendur
eru Takthestar ehf. og John Sörensen.
Elísa er með 126 stig í kynbótamati fyrir
aðaleinkunn en hún á 12 afkvæmi og hafa 6
þeirra hlotið kynbótadóm.
Dómsorð afkvæma: Elísa frá Feti gefur
hross í meðalstærð. Höfuðið er með vel opin
augu og vel borin eyru en kjálkar eru stundum
djúpir. Hálsinn er reistur við háar herðar með
góða yfirlínu. Bakið hefur jafnan góða yfirlínu
og er vöðvafyllt líkt og lendin. Samræmið er
hlutfallrétt og fótahátt. Fætur eru þurrir en
útskeifir og nágengir að framan. Hófar eru
efnisgóðir og prúðleiki meðalgóður. Afkvæmin
eru alhliðageng með skrefgott og takthreint
tölt. Brokkið er fremur skrefmikið og taktgott
líkt og skeiðið. Stökkið er afar gott, hátt og
takthreint og hæga stökkið er svifgott. Fetið
er taktgott með góða skreflengd. Afkvæmin
fara vel í reið með góðum fótaburði.
Elísa gefur reist og samræmisgóð hross
með góða yfirlínu. Þau eru viljug, skrefmikil
með góð gangskil og fótaburð. Hún hlýtur
heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.
Æsa frá Flekkudal
Hryssan í öðru sæti er Æsa frá Flekkudal. Hún
er undan heiðursverðlaunahrossunum Orra frá
Þúfu og Pyttlu frá Flekkudal. Ræktandi hennar
er Guðný Ívarsdóttir en eigendur eru Guðný
Ívarsdóttir og Sigurður Sigurðarson. Æsa er
með 127 stig í kynbótamati fyrir aðaleinkunn
en hún á 10 afkvæmi og hafa 6 þeirra hlotið
kynbótadóm.
Dómsorð afkvæma: Æsa frá Flekkudal gefur
stór hross. Höfuðið er með vel opin augu og vel
borin eyru en ekki fínlegt. Hálsinn er reistur
við háar herðar en getur verið djúpur. Bakið er
fremur breitt og lendin öflug en stundum gróf.
Samræmi er hlutfallarétt og fætur þurrir með
öflugar sinar en geta verið nágengir. Hófar eru
afar góðir með hvelfdan botn og efnismiklir,
prúðleiki er alla jafna góður. Afkvæmin eru til
helminga alhliðageng eða klárhross. Töltið og
hæga töltið er mjög gott og jafnan skrefmikið
með góðum fótaburði. Gæði brokksins getur
brugðið til beggja átta allt frá því að vera
sæmilegt og upp í það að vera úrvalsgott en
að uppistöðu er það skrefgott með góðri lyftu.
Ef skeiðgeta er til staðar er hún ekki mikil.
Stökkið er skrefmikið og lyftingargott og hæga
stökkið takthreint og svifgott. Fetið er líkt og
brokkið afar misgott en er oftar skrefmikið
og takthreint.
Æsa frá Flekkudal gefur framfalleg
og samræmisgóð hross sem eru sterkari á
klárganginn. Afkvæmin fara vel í reið með
góðum fótaburði og hafa góða framhugsun og
eru samstarfsfús. Hún hlýtur heiðursverðlaun
fyrir afkvæmi og annað sætið.
Hnota frá Stuðlum
Hryssan í þriðja sæti er Hnota frá Stuðlum. Hún
er undan heiðursverðlaunahrossunum Orra frá
Þúfu og Þernu frá Arnarhóli. Ræktendur og
eigendur hennar eru Edda Björg Ólafsdóttir
og Páll Stefánsson. Hnota er með 124 stig
í kynbótamati fyrir aðaleinkunn en hún á 8
afkvæmi og hafa 6 þeirra hlotið kynbótadóm.
Dómsorð afkvæma: Hnota frá Stuðlum
gefur fremur stór hross. Höfuðið er fínlegt og
skarpt með beina neflínu. Hálsinn er langur,
mjúkur og hátt settur. Bakið er fremur breitt
og lendin öflug en yfirlína í baki er misgóð.
Samræmi einkennist af jöfnum hlutföllum og
fótahæð. Fótagerð er afar góð, fætur þurrir
með öflugar sinar og fremur góð sinaskil
en geta verið nágengir að framan og aftan.
Hófar eru efnismiklir og traustir en prúðleiki
er í tæpu meðallagi. Afkvæmin eru ýmist
alhliðageng eða klárhross með afar góðu tölti.
Töltið og hæga töltið er mjög gott,
takthreint, mjúkt með góðri lyftu og jafnan
skrefmikið með miklum fótaburði. Sé skeið
fyrir hendi er það takthreint og öruggt.
Stökkið er ferðmikið með góðri fótlyftu og
hæga stökkið er jafnvægisgott og takthreint.
Fetgæðin eru misjöfn bæði hvað varðar
skreflengd og framtak. Afkvæmin eru ásækin
í vilja en þjál og fara afar vel í reið, reist með
miklum fótaburði.
Hnota frá Stuðlum gefur framfalleg og
myndarleg hross með afar góða fætur. Þau
eru ásækin í vilja með fallega framgöngu.
Hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og
þriðja sætið.
Hrönn frá Búlandi
Hryssan í fjórða sæti er Hrönn frá Búlandi. Hún
er undan Smára frá Skagaströnd og Heklu frá
Efri-Rauðalæk. Ræktandi hennar er Björgvin
Daði Sverrisson og eigendur eru Björgvin
Daði Sverrisson og Helena Ketilsdóttir. Hrönn
er með 121 stig í kynbótamati fyrir aðal-
einkunn en hún á 13 afkvæmi og hafa 5 þeirra
hlotið kynbótadóm.
Dómsorð afkvæma: Hnota frá Búlandi
gefur hross í meðallagi að stærð. Höfuðið
er fremur skarpt en merarskálar gætir
stundum. Hálsinn er reistur og hátt settur.
Bak og lend er vöðvafyllt en baklína
mætti stundum vera hærri. Afkvæmin eru
hlutfallrétt og sívalvaxin með meðalgóða
fætur sem eru fremur réttir. Hófar eru
efnismiklir með hvelfdan botn og prúðleiki
er í tæpu meðallagi. Afkvæmin eru flest
Hrossarækt:
Hryssur sem hlutu heiðursverðlaun
haustið 2022
– Fyrri hluti: Hryssur í 1.–9. sæti
RÁÐGJAFARMIÐSTÖÐ LANDBÚNAÐARINS
Hið alþjóðlega kynbótamat fyrir íslenska hestinn var reiknað eftir alla dóma ársins
í lok október 2022 og birt í WorldFeng. Þar kom í ljós að 20 hryssur á Íslandi hlutu
heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Þetta eru mun fleiri hryssur er almennt er að hljóti slík
verðlaun á einu ári en skýringuna er helst að finna í breyttum útreikningi á kynbótamati.
Elísa frá Feti, efsta hryssan árið 2022 ásamt afkvæmi og ræktanda sínum. Mynd / Aðsend
Halla Eygló Sveinsdóttir. Elsa Albertsdóttir.
Hrönn frá Búlandi. Mynd / Aðsend
Álfarún frá Halakoti. Mynd / Aðsend
Gréta frá Feti. Mynd / Aðsend
Píla frá Syðra-Garðshorni. Mynd / Aðsend
Glæða frá Þjóðólfshaga 1. Mynd / KollaGr
Hnota frá Stuðlum. Mynd /Eiðfaxi