Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 12

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 12
12 S K I N FA X I Dýrahjúkrunarfræðingurinn Kolbrún Arna hefur hlaupið með husky-hundunum sínum í mörg ár. Hún segir mikilvægt að vera með rétta búnaðinn svo að bæði hundar og fólk njóti hlaupsins. „Það myndast allt önnur tengsl á milli fólks og hunda þegar þau hlaupa saman. Ég tala nú ekki um þegar hlaupafélagarnir æfa saman að ákveðnu markmiði. Hundarnir eru svo líkir okkur, þeir finna sína vellíðunartilfinningu við hreyfingu og finnst samneytið skemmtilegt,“ segir Kolbrún Arna Sigurðardóttir, dýrahjúkrunarfræðingur og dýra- sjúkraþjálfari á Dýraspítalanum í Garðabæ. Kolbrún Arna hefur átt husky-hunda í næstum 20 ár og hljóp með hundunum sínum áður en hún vissi að það væri sérstök íþrótt. Hundahlaupið (e. canicross) er ein þeirra fjögurra greina sem boðið er upp á í Íþróttaveislu UMFÍ sem fram fer í fyrsta sinn í sumar. Þetta er grein í vexti á Íslandi en stór keppnisgrein úti í heimi og er komin í hóp með þekktari víðavangshlaupum. Sleðahundaklúbbur Íslands hefur verið helsti málsvari hundahlaups hér á landi og haldið Íslands- meistaramót árlega síðastliðin tólf ár. Vissi ekki að hundahlaup væri íþrótt Eini sjúkraþjálfari hunda á Íslandi „Ég eignaðist fyrsta husky-hundinn minn árið 2006. Þá voru í mesta lagi hundrað husky-hundar á Íslandi. Ég fór mikið út að ganga og hlaupa með honum, bæði innanbæjar og utan vegar. Hundunum fór fljótlega að fjölga eftir þetta og samhliða því jókst áhugi fólks á dráttarsporti með hunda. Ég fann mig strax í sleðasportinu því ég hafði hlaupið með hund- unum og verið mikið í íþróttum síðan í æsku, í frjálsum og knattspyrnu með Hetti á Egilsstöðum,“ segir Kolbrún Arna. Höttur er aðildarfélag Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA). Hundar og kettir eru Kolbrúnu afar ofarlega í huga. Hún útskrifaðist sem stúdent frá VUC í Danmörku, fór með styrk UMFÍ í lýðháskóla á sínum yngri árum og upp úr því í framhaldsnám í dýrahjúkrunarfræði við Hansenborgarskóla í Kolding í Danmörku. Eftir það hélt hún áfram í sjúkraþjálfun fyrir hunda og ketti í Noregi. Hún útskrifaðist úr náminu árið 2017 og er sú eina hér á landi með þá menntun. Hlaupurum og hundum þarf að líða vel Kolbrún segir að um tólf ár séu síðan hún kveikti á því að fleiri en hún nytu þess að hlaupa með hundinum sínum. „Ég fór þá að kynna mér málið betur og sá að ég gat fengið betri taum og beisli fyrir hundana ásamt öðrum búnaði. Búnaðurinn skiptir miklu máli, bæði fyrir hlaupar- ana og hundana. Ég hafði líka meðhöndlað óvenju marga hunda sem glímdu við álagsmeiðsli og lélega líkamsbeitingu. Hún skýrðist af því að þeir voru að ganga í beislum sem heftu hreyfingar þeirra eða þrýstu á þá á röngum stöðum. Fyrir nokkrum árum varð vitundarvakning í röðum hundaeigenda um að betra væri fyrir hunda að ganga með búkbeisli en hálsólar og nú er það orðið algengara,“ segir hún. Kolbrún Arna segir hlaup sín með hundunum hafa gjörbreyst eftir að hún kynntist rétta búnaðinum og fór sjálf að nota beisli. „Hlaupin breyttust mikið. Áður var ég með brjóstbeisli og taum án teygju eða hélt um tauminn. Eftir að ég hætti heimagerðum redding- um urðu hlaupin betri og upplifunin önnur. Nú rennum við saman í mjög gott flæði af því að við erum í alvöru að hlaupa saman,“ segir hún og bætir við að leitin að réttum búnaði til hundahlaupa sé líkust því að finna réttu hlaupaskóna. „Þegar hlaupara og hundi líður vel verður upplifun beggja miklu skemmtilegri,“ segir Kolbrún Arna að lokum. Kolbrún Arna Sigurðardóttir.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.