Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 24

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 24
24 S K I N FA X I Ísfirðinga dreymir um nýtt fjölnota íþróttahús Gátu ekki spilað heimaleik í heimabyggð Dagný segir skemmst að minnast þess að síðasta sumar hafi meistara- flokkur karla náð þeim frábæra árangri að komast í undanúrslit í Mjólkur- bikarnum en neyðst til að spila heimaleik á KR-vellinum í Reykjavík, þar sem völlurinn á Torfnesi var ónothæfur vegna veðurs. „Þetta var mikilvægur leikur og gríðarlega svekkjandi fyrir liðið og stuðnings- menn þess að ekki reyndist unnt að spila hann heima með allri þeirri stemmningu sem því fylgir. Auk þess fylgdi því talsverður kostnaður að flytja leikinn suður, þannig að í stað þess að knattspyrnudeildin tæki þarna inn tekjur urðu þetta útgjöld upp á fimm milljónir króna fyrir deildina,“ segir Dagný. En það er ekki bara meistaraflokkur sem glímir við aðstöðuleysi því það bitnar ekki síður á yngri iðkendum. „Krakkarnir okkar eru ekki að æfa við sömu aðstæður og jafnaldrar þeirra annars staðar. Það háir þeim og kemur í veg fyrir eðlilegar framfarir, sem þýðir einfaldlega að þau dragast aftur úr gagnvart jafnöldrum sínum.“ Á veturna æfa þau innan- húss í íþróttahúsinu á Torfnesi, sem er fyrir fullnýtt og ríflega það. Ýmsar íþróttagreinar, t.d. körfubolti, blak og handbolti, eru þar með æfingar og mikil barátta um lausa tíma. Þegar við bætast mót og leikir um helgar verður eitthvað undan að láta og eina leiðin er að fella niður æfingar. Dagný hefur tekið saman upplýsingar um notkun á íþróttahúsinu á Ísafirði. „Hver flokkur, óháð íþróttagrein, er að jafnaði með þrjár æfingar í viku en getur gert ráð fyrir að missa a.m.k. tvær í mánuði vegna kapp- leikja. Frá september til desember 2021 féllu niður 142 æfingar og svipað er uppi á teningnum núna eftir áramótin. Við erum að tala um að nálægt 300 æfingar falli niður yfir vetrartímann,“ segir Dagný. Langþráður draumur um fjölnota íþróttahús Lengi hefur verið rætt um að reisa sérstakt hús fyrir knattspyrnuna sem gæti nýst sem fjölnota íþróttahús. Gert er ráð fyrir að stærð hússins nemi hálfum knattspyrnuvelli og er það fyrst og fremst hugsað sem æfingaaðstaða. Húsið verður á Torfnesi, þar sem ýmislegt hagræði fylgir því að hafa öll íþróttamannvirki innan sama svæðis. Að sögn Dagnýjar hefur verið samstaða innan íþróttahreyfingarinnar fyrir vestan um þörfina á þessari framkvæmd, þar sem hún nýtist ekki bara knatt- spyrnunni heldur líka öðrum íþróttagreinum. „Það léttir mikið á íþrótta- húsinu á Torfnesi ef knattspyrnudeildin fer þar út. Það þýðir einfaldlega að aðrar íþróttagreinar fá fleiri tíma þar,“ segir Dagný. Undanfarin ár hefur verið gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss í fjár- hagsáætlunum Ísafjarðarbæjar en ekkert orðið úr framkvæmdum þrátt fyrir að verkið hafið verið boðið út í tvígang. Draumurinn varð raunveru- legri í apríl síðastliðnum þegar fulltrúar Ísafjarðarbæjar og Íþróttafélags- ins Vestra skrifuðu undir viljayfirlýsingu um bygginguna langþráðu, fjölnota íþróttahús með æfingaaðstöðu innandyra. Heildarkostnaður við verkið var áætlaður á bilinu 550 til 650 milljónir króna. En nú virðist málið strand að nýju, að minnsta kosti í bili. Í viljayfir- lýsingunni var gert ráð fyrir að Vestri myndi fjármagna og reisa nýja íþróttahúsið og síðan leigja sveitarfélaginu til ákveðins tíma. Innrás Rússa í Úkraínu hefur hins vegar haft þau áhrif að verð á allri hrávöru hefur hækkað umtalsvert, auk þess sem komið er á daginn að þau láns- kjör sem íþróttafélaginu bjóðast eru mun lakari en þau sem sveitar- félagið getur fengið. Þær forsendur sem lagt var upp með hafa því breyst umtalsvert þegar horft er til kostnaðar við framkvæmd og fjár- mögnun. Það er samt engan bilbug að finna á Dagnýju: „Staðan núna er einfaldlega sú að menn þurfa aftur að setjast yfir málið og leita nýrra leiða til að reisa þetta hús. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og við trúum því að það eigi við um þetta mikilvæga verkefni,“ segir Dagný. Ísafjarðarbær er fjölkjarna sveitarfélag sem varð til við sameiningu sex sveitarfélaga árið 1996. Ísafjörður er stærsti byggðakjarninn en hinir eru Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Hnífsdalur. Sveitarfélagið státar af fimm íþróttahúsum og fjórum sundlaugum, en slík mannvirki eru í öllum byggðakjörnum nema Hnífsdal. Í nágrannasveitarfélaginu Bolungarvík er jafnframt íþróttahús og sundlaug sem Bolvíkingar nýta vel og ekki síður nágrannar þeirra í nálægum sveitarfélögum. Ísafjarðarbær er heilsueflandi samfélag og segir Dagný Finnbjörns- dóttir, framkvæmdastjóri HSV, að þar sé fjölbreytt íþróttastarf og aðstæður til íþróttaiðkunar á svæðinu á margan hátt góðar. „Það verður hins vegar að segjast eins og er að við þurfum að taka okkur verulega á þegar kemur að aðstöðu og íþróttamannvirkjum á Torfnesi. Knattspyrnudeild Vestra, sem er stærst allra íþróttafélaga/ deilda hér fyrir vestan og með langflesta iðkendur, hefur lengi búið við aðstæður sem eru á engan hátt boðlegar. Á Torfnesi eru tveir knatt- spyrnuvellir, annar minni með gervigrasi og svo grasvöllur í fullri stærð. Báðir vellirnir eru nánast ónýtir, gervigrasvöllurinn var gerður árið 2003, hefur lítið sem ekkert viðhald fengið á þeim tuttugu árum sem hann hefur verið í notkun og það er löngu komin þörf á að leggja þar nýtt gervigras. Rekja má fjölgun álagsmeiðsla beint til ástands vallarins og er þar aðallega um yngri iðkendur að ræða, þar sem völlurinn er mest notaður af þeim. Ástandið á grasvellinum er sömuleiðis lélegt og þar er helsta vandamálið að völlurinn drenar sig ekki og þarf lítið til að hann verði ónothæfur vegna veðurs. Ástand hans er það viðkvæmt að nán- ast engar æfingar eru leyfðar á vellinum og einungis meistaraflokkar keppa þar, ef aðstæður leyfa. Meistaraflokkur karla æfir að öðru leyti mest í Bolungarvík.“ „Aðstaðan í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði er löngu sprungin og berjast íþróttafélögin á svæðinu um tíma í húsinu. Nýtt fjölnota íþróttahús myndi létta verulega á þessari eftirspurn,“ segir Dagný Finnbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSV.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.