Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 15

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 15
 S K I N FA X I 15 allar vorum við þá heimavinnandi, og spurði hvort við gætum ekki hjálpað sér, hún væri alein eftir því að allir aðrir væru að hætta í stjórn- inni. „Jú, jú, sögðum við. Við hljótum að geta hjálpað.“ Við áttum sem sagt allar dætur í fimleikum. Þannig byrjaði það.“ Ætla ekki að heita neitt í stjórninni Anna segist eiginlega aldrei hafa verið kosin í stjórn fimleikadeildarinnar. „Á þessum tíma voru stjórnir deildanna bara skipaðar einhverju áhuga- sömu fólki. Ég sagði einmitt við þessa vinkonu mína: „Ég ætla ekki að heita neitt í þessari stjórn. Ég hef aldrei starfað í félagi, þannig að ég veit ekkert um það. Ég get hjálpað til en ég ætla ekki að heita neitt í stjórninni.“ Svo leið og beið og starfsmaður aðalstjórnar og formaður voru farnir að hringja í mig út af alls konar hlutum. Ég endaði á því að spyrja þá: Af hverju eruð þið að hringja í mig? Ég veit ekkert um þetta. Ég sagðist vera bara nýbyrjuð. Þeir sögðu að enginn vildi vera formaður og að ég héti Anna og það væri bara langbest að ég væri formaðurinn. Það var af því að ég var fremst í stafrófinu. Þannig æxlaðist það að ég var bara allt í einu orðin formaður fimleikadeildarinnar áður en ég vissi af. Ég var það síðan til 1991 en þá var ég kosin formaður aðalstjórnar Stjörnunnar.“ Bárum áhöldin út og inn fyrir og eftir æfingar „Starfið á þessum árum gekk mest út á að reka deildina,“ segir Anna. „Við þurftum m.a. að ráða þjálfara og innheimta æfingagjöld. Ég man nú ekki alveg hve oft deildin æfði á þessum tíma, enda deildin ný og aðstaðan ekki góð, en við vorum mikið í því að bera áhöld inn og út fyrir og eftir hverja æfingu. Þetta gekk mest út á að halda utan um praktíska starfið.“ Formaður Stjörnunnar 1991 Hvernig kom það til að þú varst kosin formaður aðalstjórnar Stjörnunnar? „Ég veit svo sem ekki af hverju það kom til. Einhver umræða hafði átt sér stað og það var ljóst að það yrði skipt um formann. Svo var bara hringt í mig og ég spurð hvort ég væri tilbúin að taka það að mér. Sem hlýtur að þýða að ég hafi staðið mig sæmilega vel í því sem ég var að gera áður. Ég var svo kosin þarna 1991 en var ekki formaður nema í þrjú ár, til 1994. Ég var önnur konan til að gegna þessu embætti. Katrín Gunnarsdóttir var fyrsti kvenformaðurinn. Það var einn formaður á milli okkar.“ Frekjudósin í fimleikadeildinni Hver voru helstu verkefni Stjörnunnar á þessum árum sem þú varst formaður? „Á þessum tíma var verið að byggja við íþróttahúsið Ásgarð, sem er körfuboltasalurinn í dag. Áður var einn íþróttasalur í Ásgarði en síðan var sá hluti hússins sem var í byggingu alltaf kallaður nýi salurinn. Inn- gangurinn í sundlaugina er í dag á milli gamla og nýja salarins. Það var alltaf mikil barátta um tíma fyrir æfingar en fimleikadeildin átti að fá afnot af nýja salnum. Á þessum árum var verið að byrja að byggja fim- leikagryfjur. Fimleikafélagið Björk í Hafnarfirði var fyrsta félagið sem fékk gryfju. Fyrst var rætt um hvort þessi félög gætu sameinast um gryfju, þ.e. að byggja sameiginlegt hús fyrir félögin því það væri svo stutt á milli þeirra. Það var nú ekki vilji fyrir því. Við í stjórninni fórum og fengum stuðning nokkurra öflugra félagsmanna um að þrýsta á bæjar- félagið að lengja húsið þannig að það væri hægt að setja gryfju í end- ann. Ég átti kannski ekki að vita af því, en á þessum tíma var ég stund- um kölluð „frekjudósin í fimleikadeildinni“. Það þurfti auðvitað að breyta ýmsu og þetta var alls ekki gryfja af bestu gerð. Hún gerði samt alger- lega sitt gagn. Á þessum tíma vorum við með fimleikaþjálfara af guðs náð, Guðni Sigfússon heitir hann. Hann smíðaði stökkbrautir og stökk- bretti og var í því að hjálpa okkur að útbúa svampinn í gryfjuna og allt þetta. Þetta var allt mjög heimilislegt. Það var ekki lagt í verulegan kostnað við þetta,“ segir Anna. Félagsheimilið mikil lyftistöng Þegar Anna var formaður aðalstjórnar var töluvert verið að taka á fjár- málum félagsins, eins og oft hefur verið gert. Hún segir að það hafi ver- ið stærstu málin, þ.e. að gera tilraunir til að múlbinda deildirnar. Þær þurftu að bera allar meiriháttar fjárfestingar undir aðalstjórn. „Annað sem var félagslega mjög gott var að það var byrjað á því að byggja félagsheimilið. Það var reyndar byrjað á því áður en ég tók við sem formaður. Það var mikil lyftistöng þegar félagsheimilið var risið.“ Fyrstu kynnin af UMFÍ á Landsmótinu á Húsavík Á formennskutímanum í fimleikadeildinni kynntist Anna starfi UMSK og þá einkum í tengslum við samstarf við Gerplu í Kópavogi. Félögin fóru t.d. á Landsmótið á Húsavík með eitt sýningarlið frá Stjörnunni og Gerplu undir merkjum UMSK. Anna segir að það hafi verið sín fyrstu kynni bæði af landsmótum og UMSK. „Á þessum tíma þegar ég var í fimleikadeildinni var ég í nefnd hjá UMSK í eitt tímabil. Það stóð til að ég færi á þing UMFÍ á Húnavöllum en það kom eitthvað upp og ég komst ekki. Fyrsta UMFÍ-þingið sem ég fór á var í Kópavogi 1997 en þá var ég kosin í varastjórn UMFÍ.“ Framkvæmdastjóri Fimleikasambandsins Anna tengdist starfi Fimleikasambandsins um árabil og varð síðan framkvæmdastjóri þess. Hún var spurð hvernig það hefði komið til. „Það byrjaði þegar ég var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar, en þá tengdumst við inn í Fimleikasambandið. Á árunum 1994 til 1996 var ég í stjórn Fimleikasambandsins. Árið 1996 var fyrirséð að það yrðu breytingar á stjórn og þá var ég fengin til að taka að mér starf fram- kvæmdastjóra. Því starfi gegndi ég til 2007.“ Anna hóf störf hjá Evrópu unga fólksins árið 2007. Síðar varð verkefnið að Erasmus+ áætluninni. Hér er hún með Ólafi Árnasyni sem stýrði verk- efninu fyrsta árið áður en Anna tók við. Anna og Kristján Elvar Yngvason voru gerð að heiðursfélögum UMFÍ á sam- bandsþingi UMFÍ í október 2021.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.