Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 22

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 22
22 S K I N FA X I Formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts í Austur-Skaftafellsskýslu segir aðstöðuna á Hornafirði viðkvæma. Sveitarfélög þurfi að marka sér stefnu í uppbyggingu íþróttamann- virkja og eiga í virku samtali við íþróttafélög á hverjum stað til að tryggja íþróttir fyrir alla. „Við þurfum að vanda okkur við skipulagningu og byggingu íþrótta- mannvirkja. Það er alltaf hættan um þetta leyti að sveitarstjórnarfólk í kosningaham fari í framkvæmdir sem ekki er þörf á eða þjóna fáum. Slík upphlaup þjóna ekki samfélaginu á neinn hátt,“ segir Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, formaður Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ). Sambandssvæði þess er á Hornafirði. Jóhanna Íris segir mikilvægt að forsvarsfólk íþróttahéraða og sveitar- félaga eigi í virku samtali um það sem þjóni íbúum hvers svæðis fyrir sig best. Samtalið þurfi að vera lifandi og í samræmi við framtíðarsýn hvers sveitarfélags fyrir sig. „Við verðum að hugsa fram í tímann í bæjarfélagi eins og á Höfn þar sem bærinn er nánast byggður á landfyllingu. Sem dæmi er kjallarinn í sundlauginni undir sjávarmáli. Hlaupabrautin okkar er í talsverðri hættu ef framkvæmdir fara af stað í kringum og á aðalvellinum,“ segir hún og bendir á að sökum þess hversu viðkvæmt allt íþróttasvæðið sé á Höfn þurfi að hugsa fram í tímann þegar komi að framkvæmdum. „Það þarf að hugsa vel fram í tímann. Ef hróflað er við svæðinu og byggt eitt árið fer allt á flot og aftur næst þegar það er gert. Til að tak- marka skemmdirnar þurfum við að samræma aðgerðir,“ segir hún og efast um að Höfn eigi einn bæja við þetta vandamál að etja. Íþróttir eru fyrir iðkendur og íbúa „Íþróttahreyfingin veit hverjar þarfir iðkendanna eru á hverjum tíma. En við verðum líka að horfa út fyrir boxið og hugsa til framtíðar. Það gengur ekki að hugsa sérstaklega vel um ákveðnar greinar og þeirra Mikilvægt að íþrótta- mannvirki séu fyrir alla framgang. Það gagnast svo fáum,“ segir Jóhanna Íris og leggur áherslu á að huga vel að því í hverju samfélagi hvernig íþróttafélag á hverjum stað geti þjónað íbúunum og iðkendunum sem best. „Fjölnota íþróttahús og vel skipulögð svæði íþróttamannvirkja þvert á greinar þjóna samfélaginu best. Í fjölnota íþróttamannvirkjum geta iðkendur á öllum aldri komið til að æfa sig, eldri borgarar gengið á hlaupabrautum og jafnvel líkamsræktarstöðvar verið innan íþróttahúsa. Það gagnast öllum,“ segir hún og áréttar mikilvægi þess að sveitar- félög marki sér stefnu í uppbyggingu íþróttamannvirkja, sérstaklega í dreifðari byggðum. „Á litlum svæðum eins og Höfn þurfum við enn meira á því að halda að íþróttamannvirkin séu fjölnota því ekki skreppum við í næsta sveitar- félag og nýtum aðstöðuna þar. Þess vegna verðum við að galopna íþróttahúsin fyrir fleiri iðkendum og búa til sambönd þvert á deildir. Þetta er fordæmi, komið frá UMFÍ, sem hefur talað fyrir gildi samvinnu. Við í grasrótinni þurfum að tileinka okkur það,“ segir hún. Góð íþróttaaðstaða er aðlaðandi Jóhanna tekur sem dæmi íþróttahúsið á Höfn í Hornafirði, sem byggt var eins og fleiri á landinu eftir ríkisteikningu. Körfuboltavöllurinn rétt rúmast inni í húsinu og er á undanþágu í fyrstu deildinni. „Ef lið Sindra kemst í Subway-deildina er mjög ólíklegt að það fái að spila heimaleiki þar. Í staðinn þarf liðið og stuðningsfólk að aka t.d. til Egilsstaða fyrir heimaleiki sína. Aðstaðan er engin til þess að taka á móti keppendum yfir vetrartímann í öðrum íþróttagreinum, sem gerir það að verkum að ferðakostnaður fyrir félagið er gríðarlegur og kíló- metrafjöldinn sem keppendur og þjálfarar þurfa að ferðast hleypur á þúsundum. Ef við værum með almennilegan heimavöll myndi það styrkja liðin og gera iðkendur stolta af aðstöðu sinni. Góð aðstaða getur líka laðað nýja íbúa í bæinn,“ segir hún. „Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það geta ekki allir fengið það sem þeir vilja. En samtalið þarf að eiga sér stað svo að við gerum sem best úr því sem við höfum,“ segir formaður USÚ.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.