Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 25

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 25
 S K I N FA X I 25 Risastórt og langþráð fjölnota íþróttahús var vígt í Garðabæ í febrúar. Íþróttafulltrúinn Kári Jónsson segir að með opnun hússins aukist flóra og möguleikar í íþróttum í Garðabæ og á Álftanesi. „Það er sama hver er spurður út í íþróttahúsið, knattspyrnuþjálfarar, styrktarþjálfarar, fólk úr lyftingadeildinni og hvaðeina. Allir eru í skýjun- um með húsið og allir þjálfarar búnir að brosa út í bæði munnvik síðan það var vígt,“ segir Kári Jónsson, íþróttafulltrúi Garðabæjar, um nýja fjölnota íþróttahúsið Miðgarð sem vígt var í bænum í febrúar. Miðgarður er með öllu samtals 18.200 fermetrar, kostaði fjóra milljarða króna og er stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í. Í Miðgarði er knattspyrnuvöllur í fullri stærð sem uppfyllir kröfur KSÍ til keppni í öllum flokkum og getustigum í efstu deildum karla og kvenna. Hægt er að hólfa völlinn niður með neti sem nær frá rjáfri í fjórtán metra hæð og niður á gólf, stærsti klifurveggur landsins auk teygju- og upp- hitunaraðstöðu, styrktar- og æfingaaðstöðu í efsta gæðaflokki ásamt tveimur 1.500 fermetra hæðum sem á eftir að innrétta fyrir heilsutengda starfsemi. Gert er ráð fyrir að 830 manns geti verið á svölunum ofan við íþróttavöllinn. Svalirnar eru fjóra metra yfir vellinum og nægilega breiðar til að tveir geti gengið þar hlið við hlið. Þá er ótalinn lyftingasalurinn, sem er búinn átta lyftingapöllum fyrir ólympískar lyftingar. Í framtíðinni er fyrirhugað að byggja tvö íþróttahús við hlið Miðgarðs sem tengjast við húsið auk knattspyrnuleikvangs með stúkubyggingum framan við það. Aðstaða í hæsta gæðaflokki Kári segir ýmsar forsendur hafa verið fyrir framkvæmdinni og unnið eftir þeim í alla staði. „Forsendurnar voru að gera framúrskarandi æfinga- aðstöðu fyrir íþróttafólk, sem er allt öðruvísi en keppnisaðstaðan. Hluti af því var að mæta þörfum þjálfara þegar þeir setja upp æfingar. Hús- næðið er þannig skipulagt að þegar upphitun er lokið geta þjálfarar valið um að bóka sig inn á fullkomið þrekæfingasvæðið. Þar er líka hægt að hita upp fyrir fótboltaleiki,“ segir Kári og bendir á að fólk átti sig í raun ekki á stærð og möguleikum hússins fyrr en hann hafi leitt það í gegn og sýnt því rýmin. Þá fyrst tengi fólk. Kári er sjálfur gríðarlega hrifinn af húsinu og segir aðra verða dolfallna yfir því. Klifurveggurinn á sem dæmi engan sinn líka á landinu og er tvöfalt hærri en sá á Akranesi. Veggurinn er hannaður sem keppnis- klifurveggur og hægt að breyta klifurleiðunum. Eldri borgarar og fleiri sem vilja æfa í skjóli veðurs og vinda geta líka komið hvenær sem er dagsins í húsið og hreyft sig á svölunum. „Húsið getur þjónað gríðarlegum fjölda fólks, 830 manns á svölun- um, 200 krökkum í salnum og fjölda fólks á sama tíma í þrekæfinga- rýminu,“ segir hann og bætir við að Miðgarður bæði létti álaginu á öðrum íþróttahúsum og auki flóruna í íþróttaiðkun í Garðabæ. Þar hafi sem dæmi ekki verið áður klifur í boði, auk þess sem lyftingaaðstaða sé í hæsta gæðaflokki. Annað eins hafi ekki sést áður. „Húsið virkar nákvæmlega eins og við lögðum upp með enda erum við að byggja til langs tíma,“ segir Kári að lokum. Garðbæingar brosa hringinn Ýmis íþróttahús • Íþróttafélagið Höttur á Egilsstöðum byggði nýtt þúsund fermetra hús fyrir fimleika og frjálsar íþróttir sem var vígt í sept- ember 2020. Húsið var byggt í samvinnu við sveitarfélagið Fljóts- dalshérað. Öll framkvæmdin var eftirtektarverð því það var reist með ódýrari hætti en önnur hús og stóðust bæði kostnaðar- og tímaáætlanir. Sjálfboðaliðar stýrðu verkefninu og hlaut það Hvatningarverðlaun UMFÍ. • Árið 2020 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar að for- gangsröðun þverpólitísks hóps um uppbyggingu íþróttamann- virkja í bænum verði höfð til hliðsjónar við undirbúning langtíma- fjárfestingaráætlunar bæjarins. Forgangslistinn telur 11 verkefni næsta áratuginn fyrir rúma 6,7 milljarða króna. Fyrstu verkefnin voru uppbygging á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju, félags- og æfingaaðstaða í Skautahöll Akureyrar og svo má telja áfram. Stefnumótun Reykjavíkurborgar í íþróttamálum nær til ársins 2030. Þar kemur skýrt fram að nokkrar íþróttagreinar eru á hrakhólum með húsnæði. Þar á meðal eru brettafélög, klifur, júdó, taikwondo og fleiri jaðargreinar. Í skilabréfi stýrihóps um forgangsröðum við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík var niðurstaðan eftirfarandi: 1. Stækkun á fimleikahúsi – Fylkir. 2. Íþróttahús í Laugardal. 3. Gervigrasvellir í Laugardal. 4. Fimleikahús – Breiðholti. 5. Fjölnota knatthús KR. 6. Skautahöll – viðbygging. 7. Keilusalur. 8. Fylkisvegur – endurbætur. 9. Tennishús í Laugardal. 10. Aðstaða fyrir jaðaríþróttir. 11. Frjálsíþróttavöllur í Laugardal. 12. Siglingaaðstaða. 13. Knatthús (1/2) – Valur. 14. Knatthús (1/2) – Fram. 15. Íþróttahús KR. 16. Víkin endurbætur. 17. Knatthús (1/2) – Leiknir. 18. Íþróttahús – Valur.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.