Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 38

Skinfaxi - 01.01.2022, Blaðsíða 38
38 S K I N FA X I N orsku lögin voru sett árið 2007 og byggja á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en þau gilda fyrir börn upp að tólf ára aldri. Samkvæmt þeim ber norskum íþróttafélögum sem bjóða upp á æfingar fyrir þennan aldurshóp að vera með sérstakan tengilið sem ber ábyrgð á aldurshópnum og miðlar upplýsingum um lögin þannig að allir séu meðvitaðir um þau. Að auki eru allir sem þjálfa börn yngri en 15 ára skyldaðir til að afhenda sakavottorð. Sambærileg lög tóku gildi í Svíþjóð í fyrra, en þau ná yfir börn upp að 18 ára aldri. „Ástæða þess að við miðum við 12 ára aldurinn er að eftir það aukast æfingar og sérhæfing,“ sagði Hanne-Kristin Kvarme, þróunarstjóri hjá Viken, í heimsókn UMFÍ þangað. Vináttan og gleðin mikilvægust Lögin taka á þáttum eins og öryggi barna, frelsi þeirra til að velja og að bæði æfingar og keppni séu á forsendum barnanna þannig að þau hafi ánægju af. „Vináttan og gleðin eru oft eina ástæða þess að börn æfa íþróttir. Við tryggjum áhrif þeirra með því að spyrja hvað þeim finnst gaman. Við gefum þeim líka frelsi til að velja hve oft þau vilja mæta. Sum félög eða íþróttir gera kröfu um mætingar á allar æfingar en það heldur ekki,“ sagði Hanne-Kristin og bætti við að ánægjan í barnæsku væri forsenda afreka Norðmanna á íþróttasviðinu. Áhersla væri líka á að foreldrum væri frjálst að mæta og fylgjast með æfingum, sum félög hefðu reynt að banna það en það leiddi til brottfalls. Meðal annars eru reglur um hve langt börn mega ferðast til að taka þátt í keppnum. Börn yngri en sex ára eiga að keppa innan eigin félags, níu ára innan eigin héraðssambands en við 11 ára aldur mega þau byrja að keppa á landsvísu. Er það skiljanlegt því Noregur er stórt land, frægt er að loftlínan frá Tromsö í norðri til höfuðborgarinnar Óslóar er jafn löng og frá Ósló til Rómar. Bæði foreldrar og félög fá sektir séu lögin brotin. „Þetta er til að vernda barnið,“ sagði Hanne-Kristin. Eins er reynt að búa til viðburði fyrir þá einstaklinga sem vilja ekki lengur keppa en finnst gaman að stunda íþróttir og hreyfa sig. Allar íþróttir Norska íþróttasambandið hefur þróað verkefni sem kallast „Allidrett“ (Allar íþróttir) og miðar að því að tryggja fjölbreytni í æfingum fyrir börn allt að 12 ára aldri. Hugmyndin er að börnin geti innan sama félags prófað mismunandi íþróttagreinar við ólíkar aðstæður til að finna út hvað þeim henti best. Hanne-Kristin sagði þetta njóta mikilla vinsælda, einnig meðal táninga, sem þyki þó meira töff að verkefnið heiti „multi- sport“ (fjölsport). Hvernig sköpum við gott umhverfi fyrir börn innan íþróttafélaga? Fimmtán ár eru síðan Norðmenn settu lög um réttindi barna í íþróttum. Síðan hafa íþróttahéröð og félög unnið að innleiðingu reglnanna. Sektað er fyrir brot. Hún sagði oft sjálfboðaliða halda utan um æfingarnar fyrir yngstu börnin. Þeir væru ekki mikið lærðir en reyndu sitt besta. Til að mæta því hefði Viken þróað nokkur mismunandi stutt námskeið fyrir slíka þjálfara. Það stysta, en jafnframt það vinsælasta, er ein og hálf klukku- stund, ætlað byrjendum í þjálfurum og tekið á netinu. Í Noregi er hald- ið utan um menntun þjálfara með gagnagrunni á landsvísu. Hjálpa félögunum Þá er vaxandi áhersla hjá Viken á stuðning við íþróttafélög, en hjá sam- bandinu eru sex starfsmenn sem heimsækja félög og aðstoða þau við þróunarvinnu. Er þar meðal annars aðstoðað við lagatúlkanir og sam- skipti milli einstaklinga. Hanne-Kristin nefndi sérstaklega dæmi um aðstoð við íþróttafélagið í Geilo, sem hefði óvænt beðið um aðstoð, því það hefði verið talið fyrirmyndarfélag með níu íþróttagreinar og 1.600 félaga. Aðalstjórnin sagði hins vegar deildirnar vilja fara í ólíkar áttir. Íþróttahéraðið veitti aðstoð við stefnumótun til að tryggja að allir færu í sömu átt. Meðal afurða stefnumótunarinnar í Geilo voru hettupeysur fyrir félagið. Ungmennin fengu að ráða útliti þeirra, en á þær voru prentuð gildi og slagorð félagsins. Það fór ekki vel í alla þá fullorðnu en peysurnar urðu fljótt gríðarvinsælar í bænum.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.