Iðjuþjálfinn - 2023, Blaðsíða 17
Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa I 1. tölublað 2023 17
Áhrifaþættir á birtingu
Hinn breiði birtingargrundvöllur vekur upp þær spurningar
hvar iðjuþjálfar kjósa að birta og hvers vegna. Fjölmörg réttindi
og hlunnindi þeirra sem starfa innan háskólasamfélagsins
tengjast birtingum á viðurkenndum vettvangi. Í Matskerfi
opinberra háskóla segir að við mat á tímaritsgreinum sé stuðst
við tvo helstu gagnagrunna vísindatímarita, en þeir eru Web of
Science (WoS) á vegum Clarivate og Scopus á vegum Elsevier
https://www.hi.is/sites/default/files/brynjadis/matskerfi_
opinberra_haskola_2022.pdf. Auk þess er stuðst við finnska
mats- og röðunarlistann fyrir akademísk verk Julkaisufoorumi
(tsv.fi). Efst trjóna svokölluð ISI-tímarit sem gefa 20 stig. Þetta
eru alþjóðleg vísindatímarit sem skráð eru í sérstaka gagna-
grunna og með það háan áhrifastuðul (e. impact factor) að
þau raðast í efstu 20% í sínum flokki. Dæmi um slíkt tímarit
er Disability and Rehabilitation. Flest erlend iðjuþjálfatímarit
svo sem SJOT og AJOT eru með áhrifastuðul og birtingar þar
gefa 15 stig. Ritrýndar greinar í ýmsum íslenskum tímaritum,
svo sem Tímariti hjúkrunarfræðinga, Tímariti um uppeldi og
menntun og Tímariti félagsráðgjafa gefa 10 stig en ritrýndar
greinar í Iðjuþjálfanum hafa hin síðustu ár eingöngu gefið 5
stig. Stjórn matskerfisins tekur ákvörðun um röðun íslenskra
tímarita og er þá meðal annars stuðst við ofangreind viðmið
og höfnunarhlutfall. Okkur er kunnugt um að fræðileg
ritnefnd Iðjuþjálfafélagsins hafi um árabil gert athugasemdir
við stigagjöf í Iðjuþjálfanum við fulltrúa matsnefndar um
flokkun íslenskra tímarita en án árangurs. Það að birting á
þeim vettvangi veitir einungis 5 stig kann að hafa dregið úr
áhuga iðjuþjálfa á að birta þar. Þetta er eins konar vítahringur
vegna þess að meðan svo lítið er birt af ritrýndum greinum
þá hækkar stigagjöfin ekki. Greinar í Iðjuþjálfanum beinast
að fagi og starfi hér á landi og ætla má að þeim skrifum sé
sérstaklega ætlað að ná til kollega innan fagsins og nemenda
líkt og þessari grein.
Oftar en ekki kjósa iðjuþjálfar að birta á almennari vettvangi til
að ná til fleiri lesenda og leggja sitt af mörkum í þverfræðilegu
samhengi. Og líkt og segir að framan skrifa iðjuþjálfar í félagi
við fólk með ólíkan fræðilegan bakgrunn, sem síðan hefur
áhrif á það hvar er birt. Margar birtingar tengjast doktorsnámi
iðjuþjálfa sem oft er í öðrum fræðigreinum. Þegar þetta er
ritað hafa fjórir iðjuþjálfar lokið doktorsnámi að því að við best
vitum. Þrír iðjuþjálfar stunda doktorsnám í fötlunarfræði og
tvær þeirra kvenna sem lokið hafa doktorsnámi tengjast þeim
vettvangi sterkum böndum þótt þær birti einnig á almennari
vettvangi félags- heilbrigðis- og menntavísinda. Einn iðjuþjálfi
stundar nú doktorsnám í lýðheilsuvísindum og annar í heilsu,
færni og þátttöku. Að mati okkar sem þetta ritum skortir öflugt
þverfræðilegt tímarit í heilbrigðis- og félagsvísindum hér á
landi sem hefði tök á að ná til þess fjölbreytta hóps sem lætur
sig heilbrigðis- og velferðarmál varða. Jafnframt er mikilvægt
að hefja Iðjuþjálfann til vegs og virðingar og stuðla að því að
ritrýndar greinar í tímaritinu verði metnar sem skyldi í fram-
tíðinni. Í auknum mæli er gerð krafa um að rannsakendur birti
fræðigreinar í opnum aðgangi og í mörgum tilvikum fylgir því
verulegur kostnaður. Ef ritrýndar greinar í Iðjuþjálfanum yrðu
betur metnar og áfram gjaldfrjálsar yrði mun álitlegra fyrir
rannsakendur í iðjuþjálfunarfræðum að birta í tímaritinu. Þótt
mikilvægt sé að miðla rannsóknarniðurstöðum til fræðasam-
félaga ytra er einnig brýnt að fjalla um þær á íslensku, ekki síst
í fagtímariti iðjuþjálfa. Slíkt gæti unnið fræðunum enn frekari
sess og rótfestu í íslenskri tungu og samfélagi.
Niðurlag
Líkt og sagði í upphafi greinar var markmið okkar að
kortleggja fræðastörf innan fagsins frá aldamótum. Þótt við
reiknuðum með að úr miklu væri að moða kom fjöldi birtinga
á óvart í ljósi þess að íslenskir iðjuþjálfar eru rétt um 400. Í
fljótu bragði er ekki hægt að benda á tiltekin „göt“ eða svið
þar sem rannsóknir vantar sárlega miðað við stöðu fags og
fræða. Dreifingin er einnig áhugaverð að okkar mati.
Við höfum allar komið að og látið okkur varða þróun fags og
fræða í gegnum árin. Við héldum í þessa vegferð í því skyni að
líta yfir farinn veg og svala eigin forvitni nú þegar tvær okkar
hafa látið af störfum og styttist í starfslok hinnar þriðju. Við
vonumst til að samantektin geti orðið starfandi og verðandi
iðjuþjálfum gagnleg heimild í framtíðinni.