Iðjuþjálfinn - 2023, Qupperneq 41

Iðjuþjálfinn - 2023, Qupperneq 41
Iðjuþjálfinn I Fagblað iðjuþjálfa I 1. tölublað 2023 41 áskorunum á eigin skinni og einstaklingur sem leitar þjónustu kemur á eigin forsendum. Jafningjastuðningur (e. peer support) er nýttur í starfi Hugarafls og nú starfa hjá samtökunum þrír þjálfaðir jafn- ingjastuðningsaðilar. Í jafningjastuðningi er virðing borin fyrir reynslu þess sem þarf á stuðningi að halda. Þetta er ekki meðferðarvinna heldur stuðningur sem oft er nýttur meðan beðið er eftir aðstoð fagmanna. Hins vegar er oft nóg að fá slíkan stuðning þar sem fólk finnur svo greinilega fyrir að það sé ekki eitt og getur speglað sig í því sem jafningjastuðnings- aðilinn deilir af sinni reynslu. Þessi stuðningur er gerður eftir ákveðnum starfsreglum sem fylgja jafningjanálgun. Hearing Voices Iceland var stofnað hjá Hugarafli 4. apríl 2019 að erlendri fyrirmynd og starfræktur hefur verið hópur sem er vettvangur þeirra sem heyra raddir eða upplifa óhefðbundnar skynjanir. Ekki er litið á raddir eða skynjanir sem sjúkdóm heldur sem hluta af mannlegum fjölbreytileika. Það hefur reynst notendum mjög mikilvægt að eiga traustan vettvang til að ræða skynjanir, raddir eða sýnir með öðrum sem hafa svipaða reynslu án sjúkdómastimplunar. Hugarafl á tvo þjálfara í andlegu hjartahnoði (e. emotional eCpr) sem byggir á tengslum í gegnum tilfinningar og hjartað. Orð eru oft óþörf, nándin sem byggir á virðingu og jafningja- grunni nýtist vel einstaklingum sem ganga í gegnum tilfinn- ingalegt álag og stuðlar að „endurlífgun“. Einstaklingi er mætt með nánd, samlíðan og samveru á jafningjagrunni.  Andlegt hjartahnoð er líka notað með hópum eða samfélögum sem hafa gengið í gegnum áfall eða hamfarir. Hugarafl á einn þjálfara í opnu samtali (e. open dialogue, OD) sem er eini menntaði þjálfarinn á Íslandi og stundar nú fram- haldsnám til að geta þjálfað aðra. OD er aðferð sem notuð er með fjölskyldum sem hafa gengið í gegnum geðrænar áskoranir með aðstandanda sínum og unnið er með opnu samtali. Opið samtal felst í að allir innan fjölskyldunnar eigi sögu og stuðlað er að sameiginlegri orðræðu um aðstæður fjölskyldunnar. Engar ákvarðanir eru teknar um velferð einstaklingsins án þess að viðkomandi sé viðstaddur fundinn. Þeir fagaðilar sem starfa samkvæmt þessari aðferð eru hluti af samtalinu og taka þátt í ferlinu með einstaklingnum og fjölskyldunni, deila upplifunum sínum og eigin tilfinningum. Fleiri verkefni og þróunarverkefni sem unnið er að í þessum töluðu orðum mætti nefna en við látum staðar numið hér. Rauði þráðurinn í öllum okkar verkefnum er að reynsla notenda er efst á baugi og nýtt markvisst. Þróun er unnin af notendum og sömuleiðis útfærsla. Þannig tryggjum við að geta nýtt þá dýrmætu reynslu sem er að finna hjá einstaklingum og aðstandendum sem hafa gengið í gegnum geðrænar áskor- anir. Kerfið veit ekki betur, fagfólk veit ekki betur, en samstarf aðila getur verið gæfuríkt ef farið er vel með og hugmyndir ekki afbakaðar. Því miður eru margar hugmyndir sem hafa komið frá notendum eins og til dæmis jafningjastuðningur „innlimaðar“ í hefðbundið kerfi og aðlagaðar kerfinu til þess að fagfólk geti hugsað sér að vinna eftir þeim. Þá er í raun verið að leita í þekkinguna en „stofnanavæða“ hana. Það er áhyggjuefni og við skorum á stefnumótandi aðila að láta það ekki gerast. Að sama skapi er mikilvægt að nýta grasrót eins og okkar til að efla nýsköpun og bæta þjónustu. Þjónustukönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands Í september 2022 var gerð stór þjónustukönnun fyrir Hugarafl á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Sú könnun sýnir magnaðar niðurstöður sem sannarlega gefa okkur byr inn í ókomna framtíð. Niðurstöður Alls 83% þeirra sem leita til Hugarafls segja að líðan þeirra hafi verið slæm eða mjög slæm þegar fyrst var leitað til Hugarafls. Þar af voru 42% sem glímdu við mjög alvarlega vanlíðan. Eftir veruna í Hugarafli lækkar sú tala niður í 4% og einungis 15% segja líðan sína slæma nú. 40% greindu frá því að starfsgeta þeirra hefði aukist á tímabilinu. 90% notenda voru ánægð með þjónustuna og 3% óánægð. 61% þátttakenda lýsti því að þjónustan hefði farið fram út væntingum. Hér er aðeins stiklað á stóru en það verður að segjast að hér er vísbending um að Hugarafl nái mjög eftirtektarverðum árangri sem verður að taka tillit til.

x

Iðjuþjálfinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.