Goðasteinn - 01.06.1983, Blaðsíða 67
sem flestir unglingar urðu að fara, a. m. k. þeir sem áttu
að geta orðið menn með mönnum. Faðir minn átti góða
vini í Vestmannaeyjum og á heimili eins þeirra átti ég
að vera til húsa. Þar var margt fólk í heimili, fullorðin
hjón og uppkomin börn þeirra 6 að tölu og margt vinnu-
fólk auk 10—12 sjómanna sem voru vertíðina, og var
heimilið að flestu fyrirmynd góðra heimila. Parna var
farið með mig eins og ég væri einn af fjölskyldunni, og
þarna vaknaði hjá mér fyrir alvöru sú fróðleikslöngun
sem hefur fylgt mér síðan og sem ég held að ég sé ekki
alveg laus við enn, þó ég sé kominn nær sjötugu.
Húsbóndinn var einn af þessum hæglátu hygginda-
mönnum, sívinnandi eða lesandi þegar hann var ekki á
sjónum. Þá voru brúkaðir opnir bátar og varð því ekki
oft róið þó Eyjamenn væru harðfengir sjómenn þá eins
og nú. Húsfreyjan var framúrskarandi dugnaðarkona
sem stjórnaði öllu bæði utan húss og innan. Alltaf var
lesinn húslestur á hverju kvöldi alla vertíðina hvað seint
sem komið var af sjónum, og þar heyrði ég fyrst reglu-
lega fagran söng, enda var einn af sonum hjónanna Jón
faðir Péturs óperusöngvara.
Á heimilinu var mikið af góðum bólcum, og í þeim
mátti ég lesa þegar ég hafði tíma til. Á þessu heimili var
ég nokkrar vertíðir, alltaf við sama sólskin og hlýju.
Þegar ég nú ber saman þessi tvö heimili sem ég var
kunnugastur á fyrstu 20 árum æfinnar þá er munurinn
mikill, a. m. k. á yfirborðinu. Á því fyrra var lítið til af
bókum. Öll aðalhugsun fólksins snerist um vinnuna. En
það átti inni í sér, mér liggur við að segja, ótæmandi
fróðleiks uppsprettu sem var reyndar á köflum grugguð
af hjátrú og hindurvitnum, og þessi fróðleikur gekk í
erfðir mann frá manni og smáhreinsaðist með aukinni
þelckingu. En ef einhver vildi fá að vita meira þá varð
hann að leita eitthvað annað, og það gat lánast ef lukkan
var með. Á hinu heimilinu var gnægð góðra bóka og vel
menntað sjálfmenntað fólk. Auk þess var þá komið
Goðasteinn
65