Goðasteinn - 01.06.1986, Page 44
Sigríður í Drangshlíð byrjaði að syngja í Hólakirkju um alda-
mótin. Það var Sigríður í Skarðshlíð sem sendi niður í kirkju til
hennar og bað hana að koma upp á kirkjuloftið til að vera þar með
í söngnum. Lengi síðan var Sigríður einn besti liðsmaður kirkju-
söngsins í Eyvindarhólum, hún var framúrskarandi lagviss og söng-
röddin að sama skapi mikil og fögur. Hún lærði aldrei neitt í
tónfræði, en söng þó lög eftir nótum. „Er Sigga í Drangshlíð
komin?” spurði séra Jakob Ó. Lárusson í Holti er komið var nær
messubyrjun i Eyvindarhólum og fátt komið kirkjugesta. Jú, Sigga
var komin. „Þá er hægt að messa” svaraði séra Jakob.
Ég heimsótti hana í þorrabyrjun 1958. Hún kvaddi mig með
þessum orðum: „Hver veit nema þú sjáir mig nú í síðasta sinn. Ég
segi eins og gömul kona á Eystri-Sólheimum: Ég get svo vel dáið á
góunni.” Hún kvaddi raunar á góunni þann 16. mars. Nóttina sem
hún kvaddi var séra Sigurður Einarsson í Holti í svefni suður í
Reykjavík og dreymdi þá Sigríði í Drangshlíð sem söng honum þetta
vers:
Kveð ég í Guði góðan lýð,
gleðilegar þeim nætur býð,
þakkandi öllum þeirra styrk,
þjónustu, hjálp og kærleiksverk.
„Nú er Sigriður Árnadóttir í Drangshlíð dáin” sagði séra
Sigurður við konu sína að morgni er honum var tilkynnt landsíma-
samtal undan Eyjafjöllum. Hann talaði fagurlega yfir moldum
Sigriðar sem svo oft hafði sungið honum gömlu lögin við samfundi
á liðnum árum.
Sigríði á ég það að þakka að ég kann þó nokkur af gömlu sálma-
lögunum eins og þau voru sungin í Mýrdal um 1880.
42
Goðasteinn