Goðasteinn - 01.06.1986, Page 48
hefir sú árátta bliknað í brjósti mínu við það að eiga elskulega frú
fyrir sáiusorgara. 1)
Nú var farið yfir Stóruvallalæk við bæinn þar og fram heiðina,
sem er eins og öldurnar á Atlantshafinu, sagði Ólafur Fríkirkju-
prestur. Hann þekkti hvorutveggja.
Systir hans var frú Ólafía á Fellsmúla og hann því farið þarna um
þegar hann heimsótti hana.
Það voru þreyttir og framlágir snáðar sem leystir voru af Bleikku
þetta kvöld, og þessi hvítasunnudagur hefir greypst svo ótrúlega
djúpt í hugarfylgsni mín, að þegar ég er kominn á níunda áratuginn
man ég þessa kirkjuferð ljósar en margt sem skeð hefir mikið, mikið
seinna.
Hrossunum var sleppt í tröðunum, þessum heimilisvinum. Pabbi
gerði það og strauk þeim um bakið hverju fyrir sig. Þau höfðu
eitthvað úfnast undan reiðverunum, það varð að slétta. Hrossin
voru þá húsdýr, þau máttu ekki standa úti í slæmu veðri, voru sótt
ef þau komu ekki sjálf.
í þá tíð hefði ekki verið hægt að búa á íslandi ef ekki hefðu verið
hestar, það var allt gert með þeim. Fyrsta ferð barnsins til kirkju,
og svo sú síðasta í svartri kistu sem bundin var á hestbaki til grafar-
innar þar sem henni er stungið niður í skaut jarðar og prestur til-
kynnir kistubúanum að hann verði að mold.
Skrifað fyrir mina kæru elskulegu Stínu 1) 5. júlí 1983. H.E.
V Kristínu Jónsdóttur frá Litlu Tungu. Ég hef látið stafsetningu
Haraldar halda sér nema þar sem upp hefur verið tekinn annar
háttur er allir halda. Óbreytt hef ég látið ýmislegt standa er mér
þykir gefa skemmtileg dæmi um framburð, þótt það stangist á við
hina stöðluðu stafsetningu.
Þórir Kr. Þórðarson.
Goðasteinn á það að þakka velvild Þóris Kr. Þórðarsonar prófessors og Gunnars
Bjarna Guðmundssonar frá Heiðarbrún að þessi skemmtilegi þáttur Haralds á
Heiðarbrún birtist í lokahefti ritsins.
1) Átt er við séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur.
46
Goðasteinn