Goðasteinn - 01.06.1986, Side 72
heimili, háskóla, visindastofnanir, námur, oliuhreinsistöðvar,
einkaheimili, samkvæmi og fjölmargt fleira. Allt var þetta mjög
fjölbreytilegt og stórfróðlegt og svo margt að við höfðum kappnóg
að gera við að meðtaka hvers kyns upplýsingar og áhrif.
Alls munum við hafa verið á 20 Rotaryfundum og einu Rotary-
þingi. Var þingið haldið í borginni Texarkana, sem liggur á mörkum
Texas og Arkansas. Lágu ríkjamörkin um eina af aðalgötum
borgarinnar og var talsvert athyglisvert, hversu ólíkt ástandið var í
borgarhlutunum. Meðal annars endurspeglaðist þar mismunandi
áfengislöggjöf í ríkjunum. Á aðra hlið voru bjórstofur og nætur-
klúbbar, en á hina sáust ekki slíkir staðir og voru þar einkum
kirkjur og bænahús. Á öllum þeim mannamótum, þar sem við
vorum heiðursgestir kynntum við sjálfa okkur og land okkar með
ýmsum hætti. Sögðum við gjarna frá íslandi í stuttu máli, sýndum
kvikmynd að heiman og sungum saman eitt eða tvö lög á íslensku.
Á Sprengisandi reyndist okkur best í því efni og þótti heima-
mönnum það minna nokkuð á kúrekasöngva þar vestra.
Eitt sinn, þegar við dvöldumst í Longview, sem er allstór borg í
austurhiuta landsins, fengum við orðsendingu frá velgjörðarmanni
okkar í Dallas Austin B. Watson, um að koma þar út á flugvöll og
fara í dagsferð til Houston. Lét hann sýnilega ekki standa við orðin
tóm, maðurinn sá. Þegar út á völlinn kom, biðu okkar flugmenn á
tveimur litlum vélum. Var annar Tony Watson, sonur velgjörðar-
mannsins og hinn vinur hans einn úr Rotaryklúbbnum. Flugum við
síðan með þessum ágætu mönnum suður til Houston, sem er stór-
borg niður við strönd Mexíkóflóans. Þar tóku á móti okkur Rotary-
félagar, sem fóru með okkur á fund hjá sér og sýndu okkur síðan
nokkuð af borginni. En mestan hluta dagsins notuðum við til að
ganga um geimferðastöðina miklu, sem þarna er. Leiðsögumenn
tóku á móti okkur, sýndu okkur eldflaugar, geimför, geimskutlur,
geimfarabúninga og leiddu okkur í allan sannleika um geimskot,
geimferðir, þyngdarleysi og ferðir til fjarlægra himintungla. Var
þetta allt saman mjög fróðlegt og dagurinn ógleymanlegur.
Skrifuðum við eftir þetta sérstakt þakkarbréf til heiðursmannsins
i Dallas, sem hafði lagt á ráð og greitt götu okkar í þessu skyni.
En þótt þetta tiltæki Watsons með ferðina til Houston væri
70
Goðasteinn