Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.04.2023, Page 47

Læknablaðið - 01.04.2023, Page 47
L ÆKNABL AÐIÐ 2023/109 215 meðal þjóða með lágan barnadauða og mikið langlífi. Enginn hafði skotið sér undan að róa að borði með börnin í bólusetningu. Fólk var samhuga um að hugsa vel um börnin sín. En ég átti einnig eftir að sjá hvernig samfélagið hugsaði um sameiginlega velferð og eins þá sem þurftu stuðning. Það gekk slæm pest með niðurgangi og uppköstum á Ísafirði. Sumir urðu illa veikir. En ég tók eftir því að það urðu engir veikir í Súðavík eða nágrannasveit- um. Gat vatnið á Ísafirði verið mengað? Ég kynnti mér vatnsbólið en það safnaði yfirborðsvatni sem rann niður hlíðarnar fyrir ofan bæinn. Þar var ekkert að sjá athugavert en þarna var þó sauðfé út um grænar grundir eins og gengur og gerist. Stuttu síðar var mér gengið að kvöldi til niður að höfn. Fjöllin spegluðust í firðin- um en í huga mér var ungbarn sem ég hafði áhyggjur af. Ég hafði sagt foreldr- unum að það sakaði ekki að sjóða allt neysluvatn. Og þarna við bryggjuna var hið glæsilega þýska seglskip og skóla- skip Gorch Foch að taka vatn um borð. Í bakgrunninum var fiskvinnslan. Það var kominn tími til að láta reyna á hvort grunur minn um vatnið reyndist réttur. Ef svo, þá væri það erfitt mál. Nokkrum dögum síðar fékk ég hringingu frá Reykjavík. Vatnið reyndist mjög mengað og óhæft til neyslu. Nú voru góð ráð dýr. Áhyggjur mínar af því hvernig ég skyldi bera mig að fuku út í veður og vind daginn eftir þegar bæjarblaðið birti forsíðufrétt þess efnis að allir yrðu að sjóða neysluvatn sitt. Samfélagið tók þetta í sínar hendur, pestin fór að dvína og umræður fóru fljótlega af stað um hvernig leysa skyldi úr vatnsmálum Ís- firðinga. Já, ég varð var við meðvind frá bæjarbúum. Þeir tóku þessu með alvöru og um síðir leystust þessi mál farsællega. Fljótlega varð ég þó fyrir annarri reynslu sem varpaði öðru ljósi á sam- hug fólksins. Í Súðavík bjó gömul kona með slæma slímhúðarbólgu í augum og byrjaður að myndst örvefur. Ég hafði reynt ýmislegt og var í sambandi við sérfræðinga og þar kom að þeir mæltu með að hún kæmi á Landspítala í með- ferð. Gamla konan bað um umhugsunar- frest. Hún bjó rétt utan við þorpið og á tilsettum tíma gekk ég til hennar. Þar beið mín uppdekkað borð og kaffi. Hún ræddi fyrst um daginn og veginn og var hin kurteisasta en svo kemur hún sér að efninu. Hún segist sjaldan hafa farið að heiman og alltaf verið því fegnust að koma til baka. Hún hefði aldrei komið til Reykjavíkur og þangað muni hún ekki fara „en í Súðavík þekki ég alla og allir þekkja mig og hér verð ég blind.“ Ég geng hugsi niður traðirnar. Þar var kominn gamall maður að dytta að girðingarhliði. Hann tók mig tali og vissi vel hvernig viðtali mínu við gömlu kon- una hafði lokið. Sló hann því upp í glens og með sínum vestfirska húmor talaði hann um ellina, lífið og tilveruna og hver endalok okkar allra yrðu. Að lokum segir hann: „Þú gerðir þitt besta en nú sjáum við um gömlu konuna.“ Að verða læknir á landsbyggðinni var leiðin sem ekki var valin. Þegar litið er um öxl 56 árum síðar og spurt hvort valið hafi verið rétt, verður fátt um svör. Að starfa sem sérfræðingur á stóru sjúkrahúsi hefur verið gefandi en að vera partur af og leggja sitt af mörkum til minna samfélags á landsbyggðinni gefur lífinu sérstaka ánægju og fyllingu, sem vart verður fundin annars staðar. En þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli að gamli maðurinn við hliðið segi: „Þú gerðir þitt besta.“ Ö L D U N G A D E I L D I N Fjaran á Súðavík árið 1966, fjallið Kofri gnæfir yfir þorpið.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.