Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1990, Page 100
Vorið 1990, þann 27/3 var enn haldinn almenn-
ur bændafundur að Heimalandi til að taka ákvarð-
anir um upprekstur og framtíð afréttanna.
Samráð voru um að engir utanaðkomandi aðilar
yrðu á þessum fundi, t.d. enginn fulltrúi frá
Landgræðslunni. Það virtist gefa góða raun og
var sveitarstjórn veitt heimild til samninga við
Landgræðsluna um upprekstrarrétt bænda. Sveit-
arstjórn fjallaði um niðurstöðu bændafundarins
6/4. Guðjón Ólafsson oddviti og Baldur Björnsson
á Fitjamýri komu síðan í Gunnarsholt 26/4 þar
sem gengið var frá samkomulagi um að bændur í
Vestur-Eyjafjallahreppi muni ekki reka búfé á
afrétti hreppsins, a.m.k. næstu 10 ár. Þarmeð var
loks búið að tryggja í raun friðun Þórsmerkur
fyrir beit, 70 árum eftir að bændur í Fljótshlíð
afsöluðu sér beitarréttinum þar til að vernda og
efla skóginn.
í samkomulagi Landgræðslunnar og Vestur-
Eyfellinga er sérstaklega tekið fram að land-
græðslan muni vinna að gróðurbótum á afréttum
hreppsins eftir því sem fjárveitingar leyfa og jafn-
framt beina sjálfboðaliðastarfi í landgræðslu inn
á hið friðaða svæði að höfðu samráði við heima-
menn. Þess er full þörf því mikil gróðureyðing
hefur orðið þar í tímans rás. Eins var tekið fram
að Landgræðslan myndi reyna eftir föngum að
aðstoða bændur í hreppnum við að laga sig að
þessum breytingum og hefur verið unnið að því
með ýmsum hætti í samræmi við þarfir viðkom-
andi bænda.
Upprekstrar- og beitarmál eru einhver við-
kvæmustu mál sem fjallað er um í mörgum sveit-
arfélögum. í ljósi þess má telja að þau fimm ár
sem liðu frá því markið var sett í ársbyrjun 1986
og þar til samningar við bændur voru undirritaðir
vorið 1990 séu ekki óeðlilega langur tími. Leysa
þarf margvísleg vandamál sem koma upp við slíka
röskun. Ekki má heldur gleyma því að erfitt er að
breyta aldagömlum hefðum. Að þessum áfanga
náðum er mér efst í huga þakklæti til Vestur-
Eyfellinga fyrir einstaklega ánægjuleg samskipti.
Sérstaklega ber að þakka Guðjóni Ólafssyni, odd-
vita í Syðstu-Mörk, fyrirgreiðslu hans. Þótt
nokkuð bæri á milli, eins og gengur, voru málin
ætíð rædd af hreinskilni og í bróðerni.
HORFT TIL FRAMTÍÐAR
Viðhorf til landnotkunar hafa breyst mikið á
allra síðustu árum. í Þórsmörk skipuðust mál
þannig að uppbygging gróðurs og notkun lands til
útivistar var sett ofar beitarnytjum, en á þessu
svæði fór þetta tvennt illa saman. Ýmis félaga-
samtök hafa unnið að gróðurbótum í Þórsmörk,
svo sem Ferðafélag íslands, Útivist, Farfuglar,
ungliðadeild Rauða krossins o.fl. Ætlunin er að
auka slíkt starf á öllu Þórsmerkursvæðinu.
Ýmis ný sjónarmið blasa við augum þegar búið
er að friða allt þetta stóra svæði fyrir beit. Brýnt
er að fara að takast þar á við ýmis vandamál sem
fallið hafa í skugga gróðurskemmda af völdum
beitarinnar. Eitt þeirra er átroðningur ferðafólks
sem sums staðar veldur orðið verulegum spjöll-
um. Gróður hefur t.d. látið mikið á sjá í Húsadal
á síðustu árum.
Huga þarf að því að tryggja með einhverjum
hætti varðveislu Þórsmerkursvæðisins til frambúð-
ar. Því lengur sem því er skotið á frest þeim mun
meiri verður vandinn og er þó ærinn fyrir. Að mín-
um dómi væri farsælasta leiðin sú að gera allt
þetta svæði, ásamt Emstrum, afrétti Hvolhrepp-
inga, að þjóðgarði. Jafnframt væri hyggilegt að
reisa góða þjónustumiðstöð utan aðalsvæðisins,
t.d. á Stakksflötum, líkt oggert var í Skaftafelli.
Raddir um stofnun þjóðgarðs hafa heyrst frá '
Fljótshlíðingum, eigendum hálfrar Þórsmerkur,
og tillaga um það var samþykkt á Náttúruvernd-
arþingi 1988. Samkvæmt núgildandi náttúru-
verndarlögum verður þjóðgarðsland að vera
ríkiseign.
Eignarlönd Vestur-Eyfellinga innan friðunar-
girðingarinnar munu ekki færa þeim neinn arð að
óbreyttu ástandi á næstu árum. Lönd þeirra búa
hins vegar yfir ekki síðri náttúrufegurð en Þórs-
mörk og eru kjörin til útivistar. Vel skipulagður
þjóðgarður gæti skapað mörgum atvinnu, eink-
um á sumrin, ekki síst skólafólki úr héraðinu.
Fegurð landsins verður ekki metin til fjár.
Jöklarnir og fljótin lúta eigin lögmálum, en það
er hins vegar á valdi okkar að hafa áhrif á gróð-
urframvinduna. Því er það einlæg ósk mín að
komandi kynslóðir beri gæfu til að vernda og efla
gróðurfar á Þórsmerkursvæðinu. Þannig verður
sá fjársjóður best ávaxtaður.
98
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1990