Morgunblaðið - 28.08.1979, Blaðsíða 45
24
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 28. ÁGÚST 1979
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 28. ÁGÚST 1979
25
Framarar skáluðu í
kampavíni en Vals-
menn voru niðurlútir
EINS OG við var að búast voru
leikmenn og: aðstandendur Vals
og Fram misjafnlega glaðlegir í
búningsklefunum eftir leikinn.
Framarar fögnuðu ákaft og skál-
uðu fyrir sigrinum í kampavíni
en Valsmenn voru niðurlútir og
tóku samt tapinu vel. Blaðamað-
ur ræddi við þjálfara liðanna og
fyrirliða eftir leikinn:
Ásgeir Elíasson, fyrirliði
Fram:
I heildina litið var þetta ekki
nógu góður leikur. Við vorum of
óstyrkir og gáfum okkur ekki tíma
til þess að spila. Þá sjaldan við
gerðum það gekk okkur ágætlega.
Það voru ekki mörg marktækifæri
í þessum leik og hvorugt liðanna
tók áhættu. Sigurinn hefði getað
fallið báðum liðum í skaut en við
höfðum heppnina með okkur og í
hreinskilni sagt fannst mér kom-
inn tími til þess að við hefðum
heppnina með okkur, því Valsar-
arnir höfðu heppnina með sér í
leikjunum gegn okkur í íslands-
mótinu fyrr í sumar. Ég var
farinn að kvíða framlengingu þeg-
ar vítaspyrnan kom og mér létti
því mikið þegar við skoruðum. Ég
vil nota tækifærið og þakka stuðn-
ingsmönnum okkar frábæran
stuðning í leiknum.
Hörður Hilmarsson,
fyrirliði Vals:
Ég er auðvitað mjög vonsvikinn
yfir þessum úrslitum. Þetta var
dæmigerður úrslitaleikur, mikil
spenna en hvorugt liðið náði að
sýna sitt bezta. Fyrri hálfleikur-
inn var slakur en mér fannst við
Valsmenn vera betri í seinni
hálfleik og ég var orðinn viss um
framlengingu þegar vítið var
dæmt. Ef leikurinn hefði verið
framlengdur hefðum við unnið
leikinn því það var farið að draga
af Frömurunum. Núna er geysileg
pressa á okkur í íslandsmótinu og
við erum staðráðnir í að sigra í
því.
Hólmbert Friðjónsson,
þjálfari Fram:
Ég er geysilega ánægður með
þennan sigur því nú eru einmitt 10
ár síðan ég var þjálfari ÍBK þegar
liðið varð Islandsmeistari 1969. Ég
tel víst að áhorfendur hafi ekki
verið mjög hrifnir af þessum leik
eins og hann spilaðist, hann bauð
ekki upp á mörg skemmtileg
augnablik. Við vissum fyrirfram
að Valsmenn voru með heilsteypt-
ara og reyndara lið og þeir spila
mjög vel ef þeir fá frið til þess. Því
lét ég beztu menn Vals vera í
sérstakri gæzlu og það tókst vel.
Sigurinn hefði getað orðið þeirra
eins og okkar en við höfðum
heppnina með okkur og áttum það
fyllilega inni því við vorum mjög
óheppnir í báðum leikjunum gegn
Val í Islandsmótinu. Lokamínútan
var geysilega spennandi og ég var
svo spenntur að ég þorði varla að
horfa á Martein þegar hann tók
vítaspyrnuna.
Nemes, þjálfari Vals:
Þetta var mjög lélegur leikur
hjá báðum liðum. Vítaspyrnudóm-
urinn var mjög hæpinn. Mér
fannst persónulega að þetta væri
ekki vítaspyrna en auðvitað má
um það deila. Hins vegar getur
dómari ekki dæmt vítaspyrnu á
síðustu mínútunni þegar svona
mikið álitamál er hvort dæma á
víti eða ekki. Ég hef aldrei séð
þennan dómara áður og skil ekki
hvers vegna óreyndir dómarar eru
látnir dæma úrslitaleiki í bikar-
keppni en reyndustu og beztu
dómararnir eru látnir vera línu-
verðir. -SS.
Hvort lið fékk
3,2 milljónir
ÚRSLITALEIKUR bikarkeppni KSÍ dregur að sífellt fleiri
áhorfendur enda hefur ýmislegt verið gert til þess að gera hann að
meiri viðburði í knattspyrnulffinu en áður var og er það vel. Það er
orðið geysilegt fjárhagslegt atriði fyrir lið að komast f úrslitin og
nánast eins og happdrættisvinningur fyrir þau lið sem það gera.
Að þessu sinni greiddu 5894 aðgangseyri og komu 9 miiljónir til
skipta. Þar af fékk hvort lið 3,2 milljónir króna en KSÍ 2,6
milljónir.
Ljósm. Emilía.
• Guðmundur Baldursson ver með tilþrifum skalla Atla Eðvaldssonar eftir
hornspyrnu. Guðmundur var einn af beztu leikmönnum Fram í leiknum.
wKm-Wmm ™
Wm ttl mv . W
• Bikarmeistarar Fram 1979. Talið frá vinstri, neðri röð: Kristinn Atlason, Marteinn Geirsson, Hafþór Sveinjónsson, Kristinn Jörundsson,
Símon Kristjánsson, Rafn Rafnsson, Pétur Ormslev, Gunnar Guðmundsson, Guðmundur Baldursson og Jón Jensson. Standandi f.v. Hólmbert
Friðjónsson þjálfari, Friðrik Egilsson, Guðmundur Steinsson, Gunnar Orrason, Gunnar Bjarnason, Ásgeir Elíasson, Trausti Haraldsson,
Baldvin Elíasson, Júlíus Marteinsson, Hilmar Guðlaugsson, formaður Fram, Vilhjálmur Hjörleifsson liðstjóri og Lúðvík Halldórsson formaður
knattspyrnudeildar Fram. Li6sm Eml,ía
Söguleaur endir a
tilþrifalitlum leik
Vítaspyrna á lokamínútunni færöi Fram bikarinn
EINN tilþrifaminnsti úrslitaleik-
ur bikarkeppni KSÍ hlaut sögu-
legan endi. Eftir að Fram og
Valur höfðu barizt í 89 mínútur í
Laugardalnum á sunnudaginn án
þess að koma knettinum f netið
og við blasti framlenging vakn-
aði leikurinn skyndilega til lffs-
ins. Guðmundur Steinsson, hinn
ungi og eldsnöggi framherji
Framara brauzt framhjá Magn-
úsi Bergs og var að komast í
skotfæri þegar Magnús reyndi að
ná til boltans. Guðmundur féll
við og Þorvarður Björnsson dóm-
ari dæmdi umsvifalaust vfta-
spyrnu. Leikaraskapur hjá Guð-
mundi sögðu Valsmenn, hárrétt-
ur dómur sögðu Framarar.
Undirrituðum virtist ótvírætt
vera brotið á Guðmund og vfta-
spyrna þvf réttur dómur og sú
skoðun styrktist við að horfa á
atvikið f sjónvarpi. Marteinn
Geirsson fékk það erfiða hlut-
verk að framkvæma spyrnuna en
hann brást ekki félögum sfnum á
úrslitastundu heldur skoraði
mjög örugglega og innsiglaði
sigur Fram, sem nú vann sinn
fyrsta meiriháttar titil f 6 ár.
Það var maður þessa úrslita-
leiks, Ásgeir Elíasson fyrirliði
Fram, sem átti heiðurinn af upp-
hlaupi Framara. Hann náði bolt-
anum á vallarhelmingi Vals, lék
laglega á tvo Valsmenn og sendi
knöttinn síðan út í vinstra hornið
til Guðmundar. Guðmundur lék
upp að endamörkum framhjá
Manúsi, sem féll við. Síðan lék
Guðmundur á annan Valsmann og
svo aftur á Magnús, sem á ný var
kominn í vörnina. Magnús gerði
örvæntingarfulla tilraun til þess
að ná boltanum af Guðmundi og
teygði fótinn fram en virtist um
leið krækja í Guðmund svo hann
féll kylliflatur. Dómarinn var í
mjög góðri aðstöðu til þess að sjá
brotið og hann dæmdi vítaspyrnu
án þess að hika. Ekki var að sjá að
leikmenn Vals mótmæltu þessum
dómi nema hvað Hörður Hilmars-
son sparkaði knettinum langar
leiðir í burtu og fékk fyrir gult
spjald en hann mun ekki hafa gert
þetta í mótmælaskyni vegna
dómsins heldur vegna mikilla og
skyndilegra vonbrigða, að því er
dómarinn sagði eftir leikinn.
GUTTARNIR
GÁFU TÓNINN
Veður var mjög gott á sunnu-
daginn, hlýtt en smávegis gola.
Fólk tók að streyma að Laugar-
FRAM — _____A
VALUR ■■“U
dalsvellinum löngu fyrir leik enda
léku 5. flokkar félaganna forleik
og höfðu margir gaman af. Fram-
piltarnir unnu 2:0 og gáfu meist-
araflokksmönnunum þar með tón-
inn. Fyrir leikinn voru leikmenn
kynntir fyrir Björgvin Schram,
fyrrverandi formanni KSÍ, en
hann var heiðursgestur leiksins og
var það vel til fundið.
Hófst nú leikurinn og voru
menn vongóðir um að hann yrði
fjörugur og skemmtilegur því
þarna áttust jú við tvö af beztu
knattspyrnuliðum okkar og að-
stæður voru allar eins og bezt varð
á kosið. En fjörið lét því miður
bíða eftir sér. Framararnir sóttu
meira til að byrja með en síðan
náðu Valsmenn valdi á miðjunni
og fóru að sækja. En það var sama
sagan báðum megin, varnirnar
voru mjög traustar og hleyptu
nánast engu í gegn. Tækifæri voru
því sárafá og fátt sem gladdi
augað. Valsmenn fengu ágætt
tækifæri á 16. mínútu þegar Hörð-
ur gaf góða sendingu á Guðmund
Þorbjörnsson sem skaut af víta-
teig en skot hans fór naumlega
yfir. Þorvarður dómari var nokkuð
spar á flautuna í f.h. og varð það
til þess að nokkur harka hljóp þá í
leikinn en enginn var samt bókað-
ur. í seinni hálfleik hafði Þorvarð-
ur aftur á móti góð tök á leiknum.
Fyrri hálfleikurinn sniglaðist
áfram og áhorfendur voru greini-
lega ekki allt of ánægðir. Undir
lok hálfleiksins náðu Framarar
sér aftur á strik og sóttu þá meira.
Pétur Ormslev átti skot í hliðar-
netið á 30. mínútu eftir sendingu
frá Ásgeiri og á 40. mínútu fór
Guðmundur Steinsson illa að ráði
sínu þegar hann gat gefið boltann
á þrjá félaga sína í dauðafæri en
fyrirgjöfin var óvönduð og lenti
beint í andstæðingi.
VALSMENN SÆKJA
í SIG VEÐRIÐ
Seinni hálfleikurinn var ekki
tilþrifamikill en þó öllu fjörugri
en sá fyrri. Valsmennirnir voru
mun ákveðnari í seinni hálfleikn-
um og sköpuðu sér nokkur góð
færi. Olafur Danivalsson skallaði
naumlega framhjá á 62. mínútu og
á 65. mínútu átti Albert Guð-
'mundsson þrumuskot naumlega
yfir. Sævar miðvörður Vals
meiddist í byrjun hálfleiksins og
kom Vilhjálmur Kjartansson inn í
staðinn og Framarar skiptu
Kristni Jörundssyni inná fyrir
Gunnar Guðmundsson um miðjan
hálfleikinn til þess að fá meiri
brodd í sóknina. Framarar fengu
líka sín tækifæri og á 72. mínútu
skaut Marteinn naumlega yfir
eftir hornspyrnu.
Á 73. mínútu fengu Valsmenn
sitt bezta tækifæri. Vörn Fram
sleppti Atla Eðvaldssyni lausum
úr gæzlu eitt augnablik og það sá
Hörður Hilmarsson. Hann sendi
boltann langt fram völlinn og
skyndilega var Atli frír með bolt-
ann og brunaði að markinu. En í
stað þess að leika með boltann alla
leið skaut Atli af vítateig en
Guðmundur markvörður sá við
honum og varði skot Atla frábær-
lega vel neðst í horninu. Á 82.
mínútu tók Atli mikinn sprett upp
allan völlinn og skaut að markinu
en Guðmundur var aftur vel á
verði og sló boltann í horn. Þrem-
ur mínútum síðar tók Guðmundur
Þorbjörnsson hornspyrnu og gaf
boltann beint og á höfuðið á Atla
sem skallaði laglega að markinu
en enn á ný sá Guðmundur mark-
vörður við honum og sló boltann
yfir með miklum tilþrifum. En
ekki vildi boltinn í markið hjá
Fram og það voru svo Framarar
sem gerðu út um leikinn í lokin
eins og áður er getið.
LIÐIN
Sem fyrr segir var leikurinn
ekki skemmtilegur á að horfa, lítið
um fallega samleikskafla en þess
meira um rangar sendingar og
önnur mistök. Var þessi leikur
keimlíkur leik sömu félaga í bikar-
úrslitunum 1977, þegar Valur
vann 2:1.
Framarar gripu til þess ráðs að
hafa beztu menn Vals í sérstakri
gæzlu, þ.e. þá menn sem halda
spilinu gangandi og þeir leikmenn
Fram sem fengu það hlutverk
skiluðu því vel. Beztu leikmenn
Fram voru Ásgeir Elíasson, sem
var bezti maður vallarins, Guð-
mundur markvörður og Marteinn
Geirsson. Einnig er ástæða til
þess að geta frammistöðu Gunn-
ars Bjarnasonar, Kristins Atla-
sonar og Hafþórs Sveinjónssonar.
Guðmundur Steinsson og Pétur
Ormslev voru í strangri gæzlu og
gátu sig lítið hreyft en góður
sprettur Guðmundar í lokin
reyndist Frömurum dýrmætur.
Vörn Vals átti einnig góðan leik,
t.d. átti Dýri óaðfinnanlegan leik
svo og Sævar á meðan hans naut
við. Magnús Bergs barðist vel að
vanda en leikur af óþarflega mik-
illi hörku. Hörður Hilmarsson
barðist vel á miðjunni, óvenju lítið
bar á Atla en hann tók þó góða
spretti í s.h. Albert Guðmundsson
vann vel en framlínan var óvenju
dauf. Það hafa vafalaust verið
mistök að setja ekki Inga Björn
Albertsson inná í lokin til þess að
hressa upp á framlínuna, hann er
maður sem með reynslu sinni og
markheppni hefði getað snúið
leiknum í sigur fyrir Val.
í STUTTU MÁLI:
Laugardalsvöllur 26. égúst, bikar-
keppni KSÍ, úrslit, Fram — Valur
1:0(0:0).
Mark Fram: Marteinn Geirason úr
vítaspyrnu á 90. mínútu.
Áhorfendur: 5894.
Áminning: Höröur Hilmarsson bók-
aður í s.h.
-ss.
Lið Fram: 1. Guðmundur Baldursson, 2. Gunnar Bjarnasun. 3. Trausti Haraldaaon, 4.
Gunnar Guðmundsson (Kristlnn Jörundsaon á 71. m(nútu), 5. Marteinn Geirsson, 6.
Kristinn Atlason, 7. Ásgeir EHasson, 8. Rafn Rafnsson, 9. Pétur Ormsiev, 10. Guðmundur
Steinsson. 11. Hafþór Svelnjónsaon.
Lið Vals: 1. Sigurður Haraldsson, 2. Magnús Bergs. 3. Grfmur Sæmundsen, 4. Hörður
Hilmarsson, 6. Scevar Jónsson (Vllhjálmur Kjartansson á 50. m(nútu), 7. óiafur
Danivalsson, 8. Atli Eðvaldsson, 9. Albert Guðmundsson, 10. Guðmundur Þorbjörnsson,
11. Hálfdán örlygsson.
Dómari Þorvarður Björnsson, lfnuverðir Eysteinn Guðmundsson og Guðmunur
Haraldsson.
100%
víti
sagði
dómarinn
EFLAUST verður lengi um það deilt hvort vítaspyrn-
an sem dæmd var á Val á lokamínútu bikarúrslita-
leiksins hafi verið rettmæt eða ekki. Eftir leikinn
ræddi blaðamaður Mbl. við þá „sem við sögu komu“,
Þorvarð dómara, Guðmund Steinsson og Magnús
Bergs.
Þorvarður Björnsson dómari:
Þetta var 100% vítaspyrna, um það er enginn vafi í mínum huga.
Ég var aðeins 5—6 metra frá og sá því mjög vel hvað gerðist.
Guðmundur var kominn framhjá Magnúsi og Magnús krækti fyrir
fætur hans aftan frá og felldi hann. Frá mínum sjónarhóli var þetta
augljóst brot og ég held að leikmenn hafi almennt verið sammála um
að þetta hafi verið vítaspyrna því enginn Valsari mótmælti vítinu
svo að ég heyrði. Þetta var nokkð erfiður leikur að dæma, sérstaklega
í fyrri hálfleik þegar hljóp svolítil harka í leikinn.
Magnús Bergs:
Þetta var alls ekkert víti og hefði ég verið dómari hefði ég ekkert
dæmt. Ég var að reyna að ná boltanum en um leið bakkaði
Guðmundur og lét sig falla um leið. Þetta var hreinn leikaraskapur
hjá Guðmundi og dómarinn hefði átt aö sjá það.
Guðmundur Steinsson:
Ég mótmæli því harðlega að þetta hafi verið einhver leikaraskap-
ur. Ég var kominn framhjá Magnúsi þegar hann krækti löppinni í
mig svo ég missti jafnvægið. Þetta var pottþétt vítaspyrna og ég er
rosalega ánægður með sigurinn í leiknum.
-ss.
• Rafn Rafnsson skýlir knettinum skemmtilega fyrir
Ólafi Danivalssyni. Ljósm. Emilía.