Morgunblaðið - 13.01.1980, Blaðsíða 47
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 13. JANÚAR 1980
47
ÁR TRÉSINS
í fornum ritum er þess víða
getið að þá er menn kvöddu
gamla árið og minntust og rifj-
uðu upp atburði þess þá „stigu
þeir á stokk og strengdu þess
heit“ að vinna ákveðin verk á því
ári er í hönd fór og þóttu menn
þá stundum gerast fulldjarfir i
heitstrengingum sínum. Mikið
vatn hefur til sjávar runnið
síðan sá siður er vitnað var til
aflagðist en þó eru enn í dag til
þeir menn sem setja sjálfum sér
og öðrum ýmis ákveðin markmið
á nýbyrjuðu ári — og er það vel.
Skógræktarmenn hafa nú t.d.
ákveðið að vinna ötullega að
eflingu trjáræktar í landinu á
nýbyrjuðu ári — ÁRI TRÉSINS
— en á árinu 1980 eru liðin 50 ár
frá stofnun Skógræktarfélags
íslands. Heita þeir á landsmenn
alla að bregðast vel við og hefja
myndarlegt átak í því að gróður-
setja tré — græða landið — og
þarmeð greiða því dálítið upp í
skuldina sem við íbúar þess
eigum því að gjalda fyrir illa og
óskynsamlega notkun þess um
ár og aldir. Hafa fjölmörg félög,
hópar og einstaklingar heitið
málefninu stuðningi.
Sannarlega er kominn tími til
þess að ekki sé látið standa við
orðin tóm með að klæða landið
skógi heldur hefja verkið af
fullum krafti. Engum dettur þó í
hug að unnt sé að ljúka slíku
verki á einu ári — síður en svo
— en meiningin er sú að sem
allra flestir taki þátt í að
gróðursetja, ungir sem aldnir, þó
ekki væri nema að hver og einn
gróðursetti eitt tré. Safnast þeg-
ar saman kemur. Aðalatriðið er
að byrja og byrja á réttum stað:
Rétt tré á réttum stað! En til
þess að svo megi verða er
sérstaklega byrjendum ráðlegt
að leita til þeirra sem þekkingu
og reynslu hafa bæði um plöntu-
val og staðaval og á það við
hvort heldur um er að ræða
lítinn garð heima við hús eða
skóggræðslu í víðtækari
merkingu. En vinna þarf mark-
visst svo árangurinn verði sem
tilgangurinn. Þessum hugleið-
ingum mínum beini ég fyrst og
fremst til félagsmanna Garð-
yrkjufélags íslands svo og allra
þeirra sem gróðri og ræktun
unna og heiti hér með á þá að
leggja málinu það lið að „ÁR
TRESINS" verði í raun og reynd
upphaf að nýrri vakningu um
trjárækt, ekki aðeins á þessu ári
heldur framvegis. Þannig geta
öll ár orðið ár trésins og skapað
landsmönnum betra, nytsamara
og fegurra umhverfi.
J.P. formaður G.í.
Guðný Runólfsdótt-
ir — Minningarorð
Fædd 3. október 1913.
Dáin 2. janúar 1980.
Á morgun fer fram frá Foss-
vogskirkju útför Guðnýjar Run-
ólfsdóttur, er andaðist 2. janúar
síðastl., eftir langvarandi veikindi.
Fyrir 5 árum síðan kenndi hún
fyrst þess meins, er varð henni nú
að aldurtila.
Það er mannlegt að kvíði sæki á
við slíka uppgötvun enda leyndi
hún því eigi fyrir sínum nánustu.
Þetta olli þó ekki því, að
lífsgleðin biði nokkurt skipbrot,
hún elskaði lífið og naut þess að
lifa því í ríkum mæli með sínum
nánustu ástvinum, þótt trúa megi
því að í einrúmi hafi verið undir-
búin sókn til varnar aðgerðum
hins mikla sláttumanns. Þau átök
hófust fyrir alvöru fyrir um það
bil þremur árum. Margar voru
þær orrustur háðar af harðfylgi
beggja, oftast tvísýnar, aldrei
heyrðist hún kvarta er hún var
harðast leikin. Fagnaði jafn oft
unnum sigri, kunni vel að meta
störf lækna sinna og hjúkrunar-
fólks.
Hún gekk æðrulaus til þeirrar
síðustu, sem hún vissi að ekki yrði
umflúin, enda þá fyrir löngu búin
að sætta sig við örlög sín, sátt við
allt og alla, þakklát Guði sínum
fyrir allt það er henni hafði
auðnast í þessu lífi.
Guðný — Lóa eins og hún var
alltaf kölluð af öllum þeim er
hana þekktu, var fædd í Reykja-
vík, dóttir hjónanna Runólfs Guð-
jónssonar bökbindara og konu
hans Margrétar Guðmundsdóttur,
er lengst af bjuggu á Berg-
staðastræti 60. Þangað fluttist
Lóa á þriðja aldursári. Þar eignað-
ist hún sínar tvær yngri systur, og
ólst þar upp hjá elskuðum og
mikilsvirtum foreldrum, í glað-
værum sex systkina hópi, sem nú
hefir í þriðja sinn verið höggvið
skarð í. Lóa var fríð kona sýnum,
vel vaxin og samsvaraði sér vel.
Hún flíkaði ekki tilfinningum
sínum, en var vel gefin og traust.
Hún var hrókur alls fagnaðar í
góðra vina hópi, hafði sérstakt lag
á að taka á móti gestum og láta þá
finna hversu velkomnir þeir voru,
svo þeir fundu til vellíðunar í
návist hennar. Kom þessi eigin-
leiki áberandi vel í ljós hin allra
síðustu ár. Á Bergstaðastræti 60
átti Lóa heima mestan hluta ævi
sinnar, þar átti hún sín bernskuár,
og síðar sitt eigið heimili ásamt
fyrri manni sínum Sigurði Þórðar-
syni, sem er nýlátinn. Eignuðust
þau eina dóttur, Málfríði, sem
búsett er í Keflavík, gift Marís
Gíslasyni bifreiðastjóra og eru
barnabörn hennar þar nú fjögur.
Atvikin í lífi þeirra Lóu og
Sigurðar, höguðu því þannig að
þau slitu samvistum eftir fimm-
tán ára sambúð. Sá skilnaður
hefir að öllum líkindum verið
sárastur tíu ára dótturinni er unni
foreldrum sínum báðum. Þær
mæðgur höfðu miklar mætur hvor
á annarri og voru einkar samrýnd-
ar.
Næstu árin vann Lóa ýmis
verzlunar- og afgreiðslustörf,
lengst af í söludeild varnarliðsins
á Keflavíkurflugvelli, en einnig
síðar í verzlunum í Reykjavík. Var
hún vel látin af vinnuveitendum
og samstarfsfólki, fyrir samvisku-
semi og lipurð í hvívetna. í annað
sinn öðlaðist hún hamingju þessa
lífs, er átti eftir að valda straum-
hvörfum í lífi hennar.
Fyrir rúmum tíu árum giftist
Lóa eftirlifandi manni sínum,
Ragnari Bárðarsyni, Faxatúni 42,
Garðabæ. Þar áttu þau yndislegt
heimili, og þar naut hún lífsins í
ríkum mæli, umvafin ást og um-
hyggju eiginmanns og vina. Sam-
búð þeirra varði þó skammt,
aðeins rúm tíu ár. Lífið var
dásamlegt fyrri hluta þess tíma-
bils, en svo dró ský fyrir sólu, sem
að framan er getið. Við vitum um
og reynum að skilja liðan sjúkra,
en sá skilningur nær skammt hjá
þeim sem aldrei hafa kennt sér
neins meins. Síðustu þrjú árin
urðu Lóu einkar erfið og hefðu
orðið henni næsta óbærileg ef ekki
hefði notið við ástríkis, skilnings
og umhyggju eiginmannsins, er í
engu lét sitt eftir liggja, að gera
henni lífið svo létt sem nokkur
kostur var. Var þar í engu til
sparað, aðdáunarvert og til eftir-
breytni þeim er með fylgdust.
Nú þegar leiðir skiljast hérna
megin hinnar miklu móðu, er efst
í huga þakklætið fyrir samfylgd,
kærrar mágkonu, þakklæti fyrir
samveruna á Bergstaðastræti 60,
þar sem heimili okkar beggja var í
tæp þrjátíu ár. Frá þeim árum
öllum er svo margs að minnast. Ég
ætla þó ekki að gera tilraun til
þess að tíunda þær minningar hér,
því svo vel þekkti ég Lóu að ég veit
að það myndi henni síst að skapi.
Þó get ég ekki á þessari hinstu
kveðjustund skilið svo við þessi
fátæklegu orð mín, að þakka ekki
fyrir alla hennar umhyggju fyrir
börnum okkar Unnar, sem henni
þótti svo vænt um, sem væru þau
hennar eigin. Lóa var sérstaklega
barngóð og nærgætin, þess fengu
börn okkar óspart að njóta. Sam-
gangur á milli heimila okkar var
mjög náinn öll þessi ár, er við
bjuggum í Bergstaðastrætinu,
samkomulag með eindæmum gott,
svo að aldrei bar skugga á. Þess
ber að minnast og þakka. Eigin-
manni Lóu, Ragnari, Millý, manni
hennar og börnum bið ég huggun-
ar í þeirra miklu sorg. Þetta er
ekki í fyrsta sinn er hinn mikli
sláttumaður kveður dyra hjá
Ragnari. Ég vil biðja algóðan guð
að styrkja Ragnar og styðja í
þeirri sorg er hann nú má líða. Ég
veit að minningin um horfna
ástvini er honum huggun harmi
gegn. Friðhelg veri minning hinn-
ar látnu.
Þórður Kristjánsson.
Hinn 2. janúar síðastliðinn lézt
elskuleg frænka mín, Guðný Run-
ólfsdóttir, eftir löng og erfið
veikindi. Lóa, eins og hún var
kclluð, ólst upp að Bergstaða-
stræti 60 hjá foreldrum sínum,
þeim Margréti Guðmundsdóttur
og Runólfi Guðjónssyni bókbind-
ara í Landsbókasafninu. Með fyrri
eiginmanni sínum Sigurði Þórðar-
syni, eignaðist hún eina dóttur,
Málfríði, sem nú er gift Marís
Gíslasyni, og eiga þau fjögur börn.
Mig langar aðeins í fáum orðum
til að þakka elskulegri frænku
fyrir hve vel hún hefur reýnst mér
og fjölskyldu minni, og senda
eftirlifandi eiginmanni hennar
Ragnari Bárðarsyni, Málfríði,
Marís og barnabörnum hennar
mínar innilegustu samúðarkveðj-
ur og bið góðan Guð að styrkja
þau á þessari sorgarstundu.
Margrét Erla.