Morgunblaðið - 10.05.1980, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 10.05.1980, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 10. MAÍ1980 31 Sextugur: Guðmundur Jónsson óperusöngvari í dag verður Guðmundur Jóns- son, óperusöngvari og fram- kvæmdastjóri Ríkisútvarpsins 60 ára. Ég get ekki stillt mig um að stinga niður penna af því tilefni. Fundum okkar Guðmundar mun fyrst hafa borið saman fyrir röskum 40 árum. Ég var þá nýkominn til borgarinnar utan af landi til skólanáms. Guðmundur, sem er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, hafði þá nýlokið námi við Verslunarskóla Islands. Ég minnist frá þessum fyrsta fundi okkar, að hann lét einhver spaugsyrði falla eins og hans var von og vísa, og ég heyrði að KR-ingar höfðu nýverið unnið frækilegan knattspyrnusigur. Ég komst brátt að því, að Guðmundur var einn af þessum gömlu „sönnu Vesturbæingum", sem ekki geta sofnað væran blund fyrir „austan Læk“, og KR er þeirra félag, hvort sem það ágæta íþróttafélag vinnur eða tapar. En þetta var ofvaxið mínum skilningi á þeim árum. Ekki bauð mig þá í grun, að við ættum eftir að verða nánir sam- starfsmenn og vinir í nær fjóra áratugi. Við Guðmundur stóðum fyrst saman á fjölunum gömlu í Iðnó á haustdögum 1942 í „Dans- inum í Hruna" eftir Indriða Ein- arsson, en margoft síðar höfum við átt stefnumót á þessum sama vettvangi. Það kom snemma í ljós, að Guðmundur var gæddur miklum sönghæfileikum. Þar hjálpaðist allt að. Mikið og fagurt raddsvið, rík skaphöfn og auðug tónlistar- gáfa. Hann gerði sér fljótt grein fyrir, að til að ná góðum árangri og komast langt á listabrautinni þarf að leggja hart að sér og vera gæddur miklum viljastyrk, og þessa eiginleika átti hann vissu- lega í ríkum mæli. Enda náði Guðmundur frábærum árangri á ótrúlega skömmum tíma, eins og öllum er kunnugt sem til þekkja. Ungur að árum hóf Guðmundur söngnám hjá Pétri Jónssyni óperusöngvara. Sigldi síðan til Ameríku á stríðsárunum og stundði nám í Los Angeles í þrjú ár hjá ágætum kennara, Lazar Samoiloff að nafni. Eftir það var hann við nám í tvö ár í Musikal- iska Akademin í Stokkhólmi og síðar í Vínarborg 1959—60. Eftir námsdvöl sína í Ameríku hélt Guðmundur fjölmargar kon- serta hér í borginni og úti á landsbyggðinni. Öllum listelsk- andi mönnum varð þá ljóst, að íslenska þjóðin hafði eignast stór- brotinn söngvara, sem mikils mátti af vænta í framtíðinni, og á mjög skömmum tíma má segja að hann hafi sungið sig inn í hug og hjörtu allra söngelskra manna á þessu landi. Guðmundur kom fyrst fram sem einsöngvari í kórverkinu „Árstíðirnar" eftir Haydn, sem flutt var á vegum Söngfélagsins Hörpu árið 1943. Síðar á sama ári söng hann hlutverk guðspjalla- mannsins í „Jóhannesarpassí- unni“ eftir Bach. Eftirminni- legasta listasigur Guðmundar á óperusviðinu mun þó af mörgum talin túlkun hans á titilhlut- verkinu í óperunni „Rigoletto" eftir Verdi. Hlutverk þetta söng hann fyrst í Þjóðleikhúsinu 1951, og var það jafnframt fyrsta óper- an sem leikhúsið sýndi. Þessi frumraun Þjóðleikhússins tókst svo vel, að hún markaði ákveðin tímamót í íslenskri tónlistarsögu að margra dómi. Guðmundur var aðeins 31 árs að aldri, þegar hann söng þetta hlutverk, en túlkun hans á þessu erfiða verkefni vakti slíka hrifningu hjá öllum listelsk- andi mönnum, að það verður lengi í minnum haft. Hann söng þetta hlutverk í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn tveimur árum síðar, og aftur var „Rigoletto“ sýndur í Þjóðleikhúsinu með hon- um í aðalhlutverkinu. Þeim sem þetta ritar er kunnugt um, að Guðmundur átti þess kost á þessum árum að komast á fastan samning hjá erlendum óperuhús- um og ennfremur að halda kon- serta erlendis í glæstum söngva- sölum. Nær öllum þessum tilboð- um hafnaði hann og kaus heldur að vera heima og vinna að sínum hugðarmálum. Öllum er þó ljóst, að erfið starfsskilyrði biðu þeirra manna, sem lagt höfðu út á óperubrautina. Eflaust hefur gamli Vesturbærinn og þau sterku bönd, sem tengdu Guðmund við það hlýlega umhverfi, átt sinn þátt í að hann kaus að fara hvergi. Hér sleit hann barnsskónum, hér þekkti hann hvert andlit og hér var fólk, sem hann kaus að blanda geði við og starfa með. Guðmundur mun hafa sungið oftar á konsertum með Sinfóníu- hljómsveit íslands en nokkur ann- ar. Þá hefur hann sungið í flestöll- um óperum, sem Þjóðleikhúsið hefur sett á svið á sl. 30 árum, og ennfremur komið fram í fjölmörg- um söngleikjum þar. Hann hefur verið einsöngvari hjá Karlakór Reykjavíkur í áratugi og er nú heiðursfélagi kórsins. Ótalin eru þau skipti sem hin fagra og blæmjúka rödd Guð- mundar hefur hljómað í útvarpinu á sl. fjórum áratugum og margar hljómplötur hafa verið gefnar út með söng hans. Um langt skeið hefur hann kennt söng í einkatímum og á þann hátt miðlað af sinni miklu þekkingu og reynslu til ungra söngvara. Frá því Söngskóli Reykjavíkur tók til starfa fyrir röskum tveim- ur árum, hefur Guðmundur verið einn af kennurum skólans og er mér kunnugt um, að hann hefur frá upphafi borið velferð þeirrar ágætu stofnunar fyrir brjósti. Guðmundur hóf störf hjá Ríkis- útvarpinu árið 1954. Fram- kvæmdastjóri þess hefur hann verið frá árinu 1966. Það er erilsamt starf að vera fram- kvæmdastjóri hjá jafnstórri og umdeildri stofnun og útvarpið hefur jafnan verið. Það mun dómur allra þeirra, er best þekkja, að Guðmundur hafi rækt öll sín embættisstörf af stakri samvisku- semi og mikilli sanngirni. Mörg eru vandamálin, sem daglega bíða úrlausnar, og oft verður vinnudag- urinn bæði langur og strangur. Því skal heldur ekki gleymt, að samstarfsmenn Guðmundar vita, að þeir eiga „hauk í horni" þar sem hann er, ef þeir hafa við einhverja erfiðleika að stríða, eins og oft hendir í dagsins önn. Slíka menn er gott að eiga að yfirmönn- um í stórri stofnun. Fyrir hönd Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins sendi ég vini mínum Guðmundi hugheilar árn- aðaróskir í tilefni af 60 ára afmælinu. Við vonum, að við eigum eftir að njóta starfskrafta hans sem lengst og hin fagra og kliðmjúka rödd hans megi enn um langan aldur hljóma hjá okkur í útvarpinu. Klemenz Jónsson. Stefán íslandi segir í minning- um sínum, að á frammistöðu Guðmundar Jónssonar hafi hvorki verið blettur né hrukka, þegar hann var að syngja „Rigoletto" í Þjóðleikhúsinu forðum. Þegar hann var búinn að syngja sama hlutverk á sviði Konunglega leik- hússins í Kaupmannahöfn tveim- ur árum síðar og Stefán lagði til við Bröndsted leikhússtjóra, að hann réði þennan unga snilldar- söngvara að stofnuninni, runnu tvær grímur á Dani, sem annars eru drengir góðir og vinfastir og skortir ekki kímnigáfu. Leikhús- stjórinn sá sér í fljótu bragði e_kki fært að bæta enn einni stjörnu frá íslandi við þær, sem fyrir voru: Stefán, Önnu Borg, Einar Krist- jánsson og Magnús Jónsson. Þó hefur hann eflaust langað til þess, en hin ramma taug varð honum til bjargar! Guðmundur Jónsson sagði þvert nei. „Ég vil vera heima í Reykjavík með mína fjölskyldu og ekki aðeins í Reykjavík. Eg vil vera í Vesturbænum." Og við það sat. Hvað íslenzkt tónlistarlíf hef- ur grætt á þessu, er svo önnur saga og verður sjálfsagt seint vegið og mælt. Það vill svo til, að mér er ekki öldungis ókunnugt um viðhorf Guðmundar til þeirra kosta, sem brauðryðjendum úr hópi mennt- aðra, íslenzkra söngvara hafa boð- izt heima og erlendis. Hann vildi taka þátt í sáningunni, hver sem yrði hlutur hans sjálfs af uppsker- unni. Og það hefur hann gert með slíkum myndarbrag, að á sextugs- afmæli hans stendur íslenzkt tón- listarlíf með meiri blóma en nokkru sinni fyrr, og einhvern veginn hef ég fengið það á tilfinn- inguna, að velgengni Söngskólans í Reykjavík og starfið þar eftir erfiðan vinnudag hafi orðið hon- um til meiri gleði en flest önnur viðfangsefni á sviði tónlistarinnar síðustu misserin. Jafnframt syng- ur hann enn af slíkum þrótti, að engum þykir annað hæfa en að leita fyrst til hans, þegar mikið stendur til, enda munu margir hugsa hlýtt til hans á þessum degi, minnugir allra þeirra stunda gleði og listar, sem þeir hafa lifað með honum. Sérfróðir menn og söngelskir draga ekki í efa, að hann hefði hvarvetna borið sér og list sinni fagurt vitni og varpað ljóma á land og þjóð, hefði hann kosið sér það hlutskipti að syngja fyrir heiminn. En hann vildi ekki verða rótarslitinn vísir, og fyrir bragðið höfum við eignazt hann allan. Þetta vitum við vel, þó að okkur hætti kannski stundum til þess að gleyma því í amstri hversdagslífs- ins, enda gerir hann ekki kröfu til athygli fram yfir aðra menn, hvað þá forréttinda, og ber ekki utan á sér, að þar fari einn mesti lista- maður þjóðarinnar. En það er einmitt það, sem máli skiptir í dag, að hann viti, að allir vita, — líka þeir, sem með honum starfa daglega á Skúlagötu 4 og sífellt eru að angra hann með kvabbi og smámunum og hann nýtur ekki sannmælis hjá nema stundum. Ég kynntist honum fyrst hjá útvarpinu fyrir um það bil sextán árum, en þar hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra í 14 ár, svo að mörg ár erum við nú búnir að vera samvistum nær daglega. Þess vegna er margs að minnast, en sögur af því verða að bíða betri tíma, því að á þeim bæ er nú í mörg horn að líta og ekki tími til mikilla skrifta. Framkvæmda- stjórastarf hjá útvarpinu er eng- inn dans á rósum, og þar getur iðulega þurft að sætta býsna mörg og ólík sjónarmið við erfiðar aðstæður. Þegar mest gengur á, segi ég stundum, að auglýsa þurfi eftir sálgæzlustjóra, en nú sé ég auðvitað, að þetta er mesti óþarfi, því að Guðmundur Jónsson er fæddur í þetta óvenjulega starf! Mörgum hefur þótt gott að leita til hans, þegar eitthvað bjátar á. Þó að hann sé seinþreyttur til vand- ræða út af smámunum, getur hann tekið af skarið, ef þyí er að skipta. Og undir niðri eru æringj- ar oft hinir mestu alvörumenn. Ég ætla hvorki að tala um ævi né listferil Guðmundar Jónssonar í smáatriðum. Það gera aðrir. Þetta á aðeins að vera vinarkveðja til samstarfsmanns á heiðursdegi hans og fjölskyldunnar á Hagamel 44 — með þökk fyrir vináttu og hollráð til eins af þeim, sem enn eru yngri. Ég ætla heldur ekki að tala meira um sönginn og stóru löndin, þar sem afmælisbarnið hefur dvalizt, kórana, plöturnar, konsertana, böndin, óperuhúsin og sigrana. Til þess eru aðrir kjörnir. Og um útvarpið getum við alltaf talað. Engin þjóð hefur hins vegar efni á að gleyma þeirri náð, sem henni hlotnast, þegar hún eignast hæfileikamikla, gagnmenntaða og frábæra listamenn. Þeir eru ekki á hverju strái. Þess vegna óska Islendingar þess á sextugsafmæli Guðmundar Jónssonar, að óperan endist sem lengst og söngur hans hljómi sem víðast, en sjálfur eigi hann eftir að lifa mörg falleg vorkvöld í Vesturbænum, þar sem vagga hans stóð. En nú er bezt að hætta þessari guðsgjafaþulu, því að annars kem- ur þrekvaxið ljúfmenni með bros á vör, dregur upp dósirnar og segir: „Vertu ekki að þessari vitleysu! Fáðu þér heldur í nefið!" Hjörtur Pálsson. „Launasjóðsfarganið“: Lokaorð vegna athugasemdar Baldurs, Ingimars og Péturs Á fundi Rithöfundaráðs 2. maí síðastliðinn var borin upp eftir- farandi tillaga að samþykkt ráðs- ins varðandi klögumál 45 eða 46 rithöfunda til Alþingis: „Bókmenntastarfsemi þarf að vera frjáls. Hlutverk bókmennta er náttúru sinni samkvæmt í andstöðu við valdakerfi og samfé- lagsstofnanir. Stjórnmálamenn og aðrir valdhafar mega aldrei komast í aðstöðu til að skammta einstökum höfundum frelsi né vinnuaðstöðu. Þeir eru ófærir til þess. Helst ætti ekki að þurfa að skammta þá aðstöðu. Þessar grundvallarstaðreyndir móta lög Rithöfundasambandsins sem og baráttu þess til að tryggja rithöfundum viðunandi starfskil- yrði. Launasjóður rithöfunda er við- urkenning á því að samfélags- heildin sé annar helsti notandi verka okkar og skipan fólks í stjórn sjóðsins er viðurkenning þess að fagmenn en ekki stjórn- málamenn eigi að ráða ferðinni og ákvarða það á grundvelli bók- menntalegs mats en ekki póli- tískrar ruglandi hverjir fá viðun- andi starfsaðstöðu. Markmiðið er raunar það að stjórn sjóðsins geti séð til þess að allir hæfir kraftar á sviði bók- mennta hafi aðstöðu til starfa. Meðan það hefur ekki verið tryggt með nægum fjárframlögum verður eðlileg óánægja. En sú óánægja þarf að vera á faglegum grundvelli og má aldrei snúast uppí ofsóknir félaganna á hendur þeim sem njóta verðskuldaðrar aðstöðu til starfa hver sem stjórn- málaskoðun eða trúarbrögð þeirra kunna að vera. Sé einhver afskiftur hljóta við- brögð hans að vera eitt af tvennu: skrifa betur til að öðlast ótvíræða viðurkenningu eða krefjast meiri fjármuna í sjóðinn til að stjórn hans þurfi ekki að velja á milli hæfra umsækjenda heldur geti sinnt öllum sem teljast hæfir. Kröfur um það að sjóðum rit- höfunda sé deilt út eftir einhverju öðru en starfi - höfundanna og árangri eru skaðlegar og beiðni um það að pólitískar skoðanir komi til álita í þessu samhengi er beinlínis tilræði við grundvöll bókmenntanna. Þeir 45 eða 46 höfundar sem nú afhrópa stjórn Launasjóðs rithöf- unda án nokkurs faglegs rök- stuðnings, taka höndum saman við atvinnupólitíkusa á Alþingi og stefna þarmeð augljóslega að því að endurreisa kerfi þarsem þjónar valdastofnana og pólitískra flokka geta ráðskað með fjármuni rithöf- unda og deilt þeim út eftir fram- vísun flokksskírteina, þeir hafa beinlínis (í stundaræði sumir, aðr- ir af meiri yfirvegun) gert atlögu að sjálfum grundvelli bókmennta- starfseminnar í landinu. Þeir brjóta með þessu athæfi lög sam- bandsins, vinna gegn hagsmunum þess og grundvallarstefnu. Þeir eiga eiga því að víkja úr Rithöf- undasambandi íslands og ekki að fá þar inngöngu aftur fyren þeir hafa gert sér grein fyrir því að frjáls rithöfundur verður enginn útá flokksskírteini." Þessi tillaga var felld með 7 atkvæðum gegn 2. Samþykkt var önnur mildari tillaga og send fjölmiðlum. Þá bregður svo við að 45 menningarnir — sem raunar eru orðnir þremenningar — geys- ast enn fram með yfirlýsingu þarsem þeir vara menn við því að taka mark á ráðinu. Má ég benda þeim Baldri, Ingi- mar og Pétri á það að föstudaginn 2. maí (áðuren Kastljósþátturinn byrjaði) áttu þeir hvorki meira né minna en 7 málsvara í Rithöf- undaráði. Utan ráðsins er mér ekki lengur kunnugt um neinn málsvara þeirra. Svo er þeim sjálfum fyrir að þakka. Þeim væri því nær að biðja fólk heldur að taka mark á þessu ráði. Þar sitja kannski enn 7 málsvarar þeirra. Nema þetta sé einmitt lymsku- fullt bragð þremenninganna til þess ætlað að tekið verði nú mark á seinustu málsvörum þeirra. Guð láti gott á vita. Rvík, 7/5,1980 Þorgeir Þorgeirsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.