Morgunblaðið - 10.05.1980, Blaðsíða 36
36
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 10. MAÍ 1980
Jón Óskar:
Gegn svívirdingum
Mikið er það orðinn voðalegur
hlutur að skrifa nafn sitt á
mótmælaskjal hér á þessu frið-
sæia landi, jafnvel þó tekið sé að
vora. Mér varð það á um daginn
að skrifa nafn mitt undir eitt
slíkt plagg, og gerði það af
sannfæringu, án þess þó að geta
dregið upp úr pússi mínu sann-
anir sem allir tækju gildar, enda
mundu menn sjaldan skrifa und-
ir mótmæli gegn ranglætinu ef
þeir gerðu það þá aðeins þegar
þeir stæðu með sannanirnar í
höndunum. Ég minnist þess, að í
gamla daga, þegar ég var ungur
höfundur (ungur kommúnisti,
mundu sumir segja), var tæpast,
úthlutað svo listamannalaunum
að ekki kæmu fram svæsnar
ákærur í einu stjórnmálablaði á
hendur nefndinni eða meirihluta
hennar um hróplegt ranglæti,
þar sem úthlutað væri eftir
pólitískum skoðunum manna og
það kæmi niður á róttækum
höfundum. Stjórnmálablað þetta
var Þjóðviljinn, blað Sósíalista-
flokksins á Islandi og nú Alþýðu-
bandalagsins. Bæði stjórnmála-
menn og rithöfundar birtu þá
greinar um pólitíska úthlutun
nefndarinnar í því blaði. En
aldrei man ég eftir því að þeir,
sem að þessum mótmælum
stóðu, væru sakaðir um það, að
þeir væru að heimta það sem
þeir voru að gagnrýna, hvað þá
að þeir væru sakaðir um að vera
fasistar eða standa fyrir ofsókn-
um gegn starfsbræðrum sínum.
Hinsvegar svaraði úthlutunar-
nefndin eða formaður hennar
ætíð því sama, að allt þetta tal
um pólitíska úthlutun væri
haugalygi, þar væri ekki farið
eftir neinu öðru en mati nefnd-
armanna á verðleikum íslenskra
höfunda. Sósíalistarnir, sem
gerst höfðu svo djarfir að gagn-
rýna úthlutunina, reyndu ef til
vill að færa rök fyrir máli sínu,
til dæmis benda á það, að bestu
og efnislegustu rithöfundar
þjóðarinnar gætu varla verið
eingöngu hægrimenn og væru
það raunar ekki, að þeirra áliti,
en þau rök voru gersamlega
haldlaus (að áliti hinna), enda
voru þau ekki reist á öðru en
fullyrðingum, og óvinsælt að
benda á nöfn málinu til stuðn-
ings, þótt stundum væri gert,
hinsvegar auðvelt að koma með
fullyrðingar gegn fullyrðingum.
En óhróður og svívirðingar um
andmælendurna í líkingu við það
sem nú hefur gerst vegna
óánægju stórhóps rithöfunda (‘4
úr Rithöfundasambandinu) með
úthlutun núverandi nefndar
launasjóðs, minnist ég ekki að
hafa orðið vitni að.
Meðal þess sem birst hefur í
blöðunum hef ég orðið hvað mest
hissa á ummælum formanns
rithöfundasambandsins. Hann
segir eftirfarandi í blaðaviðtali:
„I 3. grein laga Rithöfundasam-
bands íslands er tekið fram að
það taki ekki þátt í baráttu
stjórnmálaflokka né hlutist til
um listastefnur, stjórnmála-
skoðanir eða trúarbrögð. Ég verð
þess vegna að líta svo á að þessi
undirskriftalisti feli í sér per-
sónulegar ofsóknir á hendur
þeim rithöfundum, sem nú hafa
fengið starfslaun í 2 efstu flokk-
unum.“
Það munar um minna. Það eru
stór orð frá þeim manni sem á að
heita formaður samtaka rithöf-
unda og vitanlega um leið sá
maður sem á að gæta hagsmuna
allra félagsmanna rithöfunda-
sambandsins eða „lima“ þess,
eins og einum höfundi þótti
betur hæfa að kalla okkur sem
höfðum skrifað nöfn okkar undir
mótmæli. Og hvernig þykir fólki
röksemdafærslan? Sökum þess
að Rithöfundasamband Islands
tekur ekki þátt í stjórnmálabar-
áttu o.s.frv. mega rithöfundar
ekki heimta það, að pólitískar
skoðanir komi ekki til greina við
úthlutan opinberrar nefndar á fé
til rithöfunda, þá á það að fela í
sér persónulegar ofsóknir á
hendur öðrum rithöfundum.
Þarna er raunverulega verið að
gefa í skyn, að höfundar eigi að
þegja, þegar þeim blöskrar það
sem þeir telja misrétti. Og ég vil
biðja fólk að staldra við þetta
orð formannsins: ofsóknir. Það
sem af er ævinni hef ég frekar
reynt að koma öðrum höfundum
til hjálpar, eftir því sem ég hef
getað, einnig þótt það hefði í för
með sér nokkra tvísýnu fyrir
sjálfan mig. Ég get því ekki stillt
mig, ef á að fara að telja mig
með ofsóknarmönnum íslenskra
rithöfunda, að lýsa fyrirlitningu
minni á slíku orðbragði forustu-
manns samtaka okkar. Ég verð
að segja: Nú þykir mér nóg
komið.
Athyglisverðar eru þær hug-
myndir, að gagnrýni á störf
nefndarinnar hljóti að merkja
það, að höfundarnir í efstu
flokkunum séu taldir óverðugir
launa sinna. Ætli kröfur verka-
lýðsins um meiri launajöfnuð í
þjóðfélaginu merki það, að hann
telji alla þá sem hærri laun hafa
óverðuga launa sinna? Það vant-
aði raunar ekki fyrr á árum, að
alþýðunni væri borið það á brýn,
að allar kröfur hennar um jöfn-
uð stafaði af öfundsýki gagnvart
Jón óskar
þeim sem lifðu í allsnægtum.
Slíkar skoðanir heyrast ekki
lengur á vettvangi stjórnmál-
anna, og er nýlunda að slík „rök“
skuli nú höfð á lofti í deilum
rithöfunda. Þó fer manni fyrst
að renna kalt vatn milli skinns
og hörunds, þegar maður les
yfirlýsingu frá nýkjörnu rithöf-
undaráði, yfirlýsingu sem bein-
ist gegn félögum þeirra sem í
ráðinu sitja. Þar segir svo meðal
annars:
„Rithöfundaráð átelur þær
árásir á skoðanafrelsi rithöf-
unda er felast í mótmælaskjali
46-menninganna og telur þær til
þess eins fallnar að vinna gegn
hagsmunum rithöfunda."
Það er rétt svo að maður trúi
því að slík svo heimskuleg ásök-
un á hendur stórum hópi rithöf-
unda skuli koma frá rithöfunda-
ráði sem þannig misbeitir valdi
sínu, og er vonandi að slíkt dragi
ekki langan dilk á eftir sér.
Þegar ég skrifaði nafn mitt á
fyrrnefndan lista hjá Baldri
Oskarssyni, skildist mér að hann
yrði lagður fram á aðalfundi
sambandsins sem þá var fram-
undan. Ég var ekki á þeim fundi,
en leitaði frétta af honum eftir
að hann var haldinn, og var þá
sagt að andmæli þessi hefðu
komið fram á fundinum, án þess
þó að listinn hefði verið lesinn
upp, hefðu orðið nokkrar um-
ræður, og þó æsingalausar, síðan
kosin nefnd til að endurskoða
reglugerðina um launasjóðinn.
Þá hélt ég að fyrrnefndur listi
væri úr sögunni. Ég varð því
hissa, þegar ég sá um hann getið
í fjölmiðlum. En það er komið
sem komið er, og hefði formaður
átt að lempa málið, en ekki taka
fyrirfram afstöðu með nefnd-
inni, það var ekki hans hlutverk,
því síður að beita undirskrifend-
ur óhróðri. Engar svívirðingar
um þá geta haggað því hve mikil
óánægjan er með nefndina og
skiptingu fjárins, ekki síst í hópi
ungra rithöfunda, og þetta verð-
ur að leiðrétta. Er vonandi að
höfundar hætti að sverta hverjir
aðra í fjölmiðlum og hafa uppi
getsakir, af því er nóg komið.
Ollum skaðræðisorðum, hvort
sem það er Ingimar, Þorgeir,
rithöfundaráð eða aðrir sem
bera þau fram fyrir alþjóð,
verður að vísa út í hafsauga.
Ég tel ekki þörf á að fjölyrða
meira um þetta mál, síst meðan
æsingur er í mönnum, en vil ekki
láta hjá líða að vekja athygli á
því, að birst hafa í blöðum
nokkrar stillilegar greinar í
anda heilbrigðrar skynsemi eftir
höfunda sem skrifað höfðu undir
mótmælaplaggið margumtalaða,
og nú verður að biðja þess
lengstra orða að nefnd sú sem
kosin var til að endurskoða
reglugerð sjóðsins geti unnið
verk sitt í þeim anda, ef sú nefnd
sem mér skilst að eigi að af-
henda tillögur sínar eftir ár, er
það eina sem rithöfundar eiga að
vænta í málinu um sinn.
8. maí 1980.
Að vera eða ekki vera
— það er spurningin
Launatogstreita rithöfunda er
farin að verða dálítið hvimleið. Af
hverju geta þessir óánægðu höf-
undar ekki hreint og beint skrifað
eftir forskrift, forskrift sem hlyti
náð fyrir augum vitringanna 3ja
frá Austurlöndum?
Hvað próf. Sveini Skorra viðvík-
ur, þá er maðurinn algerlega
sjálfum sér samkvæmur; hann
hefur sem sé haldið því fram á
prenti „að það væru skáldin, sem
ættu að sveigja og móta smekk
lesenda, jafnvel þótt sú barátta
yrði að kosta þau, að þakka guði
fyrir hvern lesanda, sem þau
misstu“.
Það er því augljóst mál að þessa
vitneskju ættu óánægðir rithöf-
undar að færa sér í nyt, enda
hefur forskriftaraðferðin reynst
vel — meira að segja höfundum
sem teljast fremur á hægri
vængnum. Hvaða bull er svo þetta
um pólitíska úthlutun, þó megnið
af þeim höfundum sem hlutu
umbun sé annað hvort á eða í
Alþýðubandalaginu? Mennirnir
(hér á ég auðvitað við samheiti
karla og kvenna) hafa hreinlega
skrifað eftir forskrift!
Nú, ef Launasjóð rithöfunda á
að miða við söluskatt af bókum
finnst mér ekki nema sanngjarnt
að sá höfundur sem mir.nst er
keyptur og lesinn hreiðri um sig á
toppnum, því hann fylgir forskrift
Sveins Skorra út í ystu æsar —
geri aðrir betur! Já, það er alveg
sjálfsagt að slíkur maður fái
tækifæri til að sinna ritstörfum
einvörðungu, þar til honum tekst
að móta og sveigja smekk lesenda
í rétta átt.
Á umsóknareyðublöðum Launa-
sjóðs er víst einhver kvöð um að
umsókninni eigi helst að fylgja
afrit af skattskýrslu viðkomanda,
en með þessu móti hefur í upphafi
sennilega átt að útiloka hátekju-
hópa. Auðvitað finnst manni óvið-
eigandi að beita slíkum kvöðum
við fyrrverandi alþingismann, þó
svo hann hafi nýlokið við að taka á
móti biðlaunum og sé því aðeins
launalaus húsmóðir; auk þess eig-
um við fyrrnefndum alþingis-
manni að þakka stofnun Launa-
sjóðsins með aðstoð Gunnars
Thoroddsens, þó nafni hans sé
yfirleitt ekki flíkað.
Auðvitað ber mér sem konu að
gleðjast yfir að jafnréttis kynj-
anna í þessari úthlutun hefur
verið gætt, þar sem á toppnum
sátu sömu „pungrotturnar" ár
eftir ár. Sömuleiðis er ég harð-
ánægð með að valkyrjan Vilborg
Dagbjartsdóttir skyldi hljóta náð
fyrir augum nefndarinnar vegna
endurútgáfu skáldverksins „Alli
Nalli og tunglið" (ásamt kross-
gátu), enda var sú bók jólalestur
háttvirts alþingismanns Svövu
Jakobsdóttur, skv. svari við spurn-
ingu blaðamanns hérna um árið
(spurningin var: Hvað lásu alþing-
ismenn um jólin?)
En nú vík ég að hitamáli
dagsins, þ.e. andófslistanum
fræga. Ég, fyrir mitt leyti, þakka
guði fyrir að enn skuli vera
málfrelsi í landinu, hvort sem það
er fyrir tilstilli Málfrelsissjóðsins,
en hann átti einn forsetafram-
bjóðandinn þátt í að stofna, eða
inngróinni frjálshyggju þjóðar-
innar; því ég get ekki ímyndað
mér þá ósvinnu, að Málfrelsissjóð-
urinn hafi eingöngu verið stofn-
aður Alþýðubandalagsmönnum til
halds og trausts!
Sjálfkjörin einræðisstjórn Rit-
höfundasambands íslands er um
þessar mundir að etja nýkjörnu
Rithöfundaráði út í foræðið með
því að birta tilkynningar í fjöl-
miðlum þess efnis að andófslistinn
sé: „Árásir á skoðanafrelsi rithöf-
unda“. Þar sem láðst hefur að
nafngreina meðlimi Ráðsins opin-
berlega ætla ég að bæta hér um:
Olga Guðrún Árnadóttir (kunn
f. kynfræðslu unglinga í Sunnu-
dbl. Þjóðv.) Oddur Björnsson
leikhússtjóri (á eða í Alþýðu-
bandalaginu) Líney Jóhannesdótt-
ir (ditto), Þorgeir Þorgeirsson
(óþarft að kynna).
Um leið vil ég láta þess getið að
framboðslisti frjálsra rithöfunda
á síðasta aðalfundi Sambandsins
var, sem endranær, felldur. Maður
getur því með góðri samvisku
vísað klögumálum óánægðra rit-
höfunda til Rithöfundaráðs eða
stjórnar Sambandsins; þar munu
þeir áreiðanlega hljóta verðuga
úrlausn.
Ég átti tal við kennara um
misklíð rithöfunda fyrir stuttu, og
honum fórust orð eitthvað á þessa
leið:
„I augum rithöfunda er þetta
ekki peningamál. í þeirra augum
er þetta spurning um lýðræði.
Allir hljóta að sjá og skilja að
hægt er með fjárveitingum að
koma upp einlitum hóp atvinnu-
rithöfunda. Það er gert með því að
veita sömu mönnum ár eftir ár
hæstu starfslaun, sem beinlínis
skylda þá til að vinna ekki önnur
störf en ritstörf. Síðan, þegar búið
er á þennan hátt að láta marxíska
rithöfunda fá forréttindi fram yfir
aðra höfunda til að koma skoðun-
um sínum á framfæri, er öðrum
vísað frá með þeim rökum Árna
Bergmanns í Þjóðviljanum, að féð
komi að bestum notum með því að
veita það þeim mönnum, sem ekki
fást við önnur störf en ritstörf.
Þannig er svikamyllan komin í
fullan gang. Hliðstæð yfirtaka fer
nú fram með innrætingu í Há-
skóla íslands og framhaldsskólum
landsins, þar sem helstu fræði-
bækur í sálarfræði og félagsfræði
eru skrifaðar af marxistum og
lesnar með þýskum gleraugum."
Svo mörg voru þau orð. Að öðru
leyti er ég sammála Jóni skáldi úr
Vör (sjá Mbl. 30/4). Þegar rithöf-
undum er gert að greiða kr. 30.000
í árgjald til Rithöfunda-
sambandsins er ekki við öðru að
búast en krafist sé meiri sanngirni
í úthlutunum. Sumir telja sig hafa
séð veilur í rökstuðningi hinna 46
rithöfunda, þ.e. andófsmanna. Við
þessari ályktun er ekkert að segja
annað en benda á ýmislegt sem
viðgengst í þjóðfélaginu, og er þar
af mörgu að taka. Vil ég í því
sambandi minna á grein Jónasar
Guðmundssonar í Tímanum eftir
síðustu úthlutun úr Rithöfunda-
sjóði Ríkisútvarpsins, þar sem
hann telur að úthlutunin sé orðin
verðlaunaveiting Alþýðubanda-
lagsins. Sjálf var ég einn hinna
síðustu frjálsra rithöfunda sem
fékk úr þessum sjóð, og var ólíkt
minna haft við okkur en t.d. Ásu
Sólveigu við síðustu úthlutun.
Líkti dr. Jónas Kristjánsson okkur
við lággróður, sem væri nauðsyn-
legur til að stóru trén mættu vel
þrífast, og er það víst í fyrsta og
síðasta skipti sem slík umsögn
hefur verið höfð um hönd. Aftur á
móti líkti hann hinni umdeildu
skáldsögu Ásu Sólveigar „Treg í
taumi" við verk hinna grísku
meistara. Gömlu mennirnir hefðu
jú kunnað að klæmast!
Einnig vil ég geta Svarthöfða-
greinar í Vísi (29/4), þar sem segir
að á 30 ára afmæli Þjóðleikhúss-
ins hafi verið tekin upp rússnesk
söguskoðun og hvergi minnst á
fyrsta leikhússtjórann, Guðlaug
Rósinkranz. Svo er það kennslu-
bókin „Straumar og stefnur í ísl.
bókmenntum" eftir Heimi Páls-
son, en þar er t.d. Gunnars
Gunnarssonar ekki getið. Já, það
er af mörgu að taka og fleira sem
þyrfti að athuga, þó ekki sé það í
mínum verkahring, og læt ég hér
staðar numið.
Skrifað 6 maí.
Gréta Sigfúsdóttir.