Morgunblaðið - 16.03.1982, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 16.03.1982, Blaðsíða 28
36 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 16. MARZ 1982 Skipulagsleysi í orkumálum Forsætisráðherra og iðnaðaráðherra á öndverðum meiði Hér fer á eftir fyrsti hluti ræðu þeirrar, sem Þorvaldur Garðar Kristjánsson, alþm. flutti við 1. umræðu um þingsályktunartillögu um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu. Orkulindir landsins eru ein þeirra gæða, sem okkur eru verð- mætust. Aðeins lítill hluti þessara auðlinda, sem þjóðin á í vatnsföll- um og jarðvarma hefur verið virkjaður. En í orkulindum lands- ins er að finna grundvöil að nýrri sókn til bættra lífskjara, líkt og sjávarútvegurinn var í upphafi þessarar aldar. Bætt lífskjör og atvinnuöryggi landsmanna eru höfuðmarkmið þeirrar atvinnu- stefnu, sem fylgja þarf. Það er því megin verkefnið nú að hagnýta hin gífurlegu verðmæti, sem fólg- in eru í orkulindum landsins. Um- ræðan um orkumálin í dag byggist á þessum sjónarmiðum. Þess vegna eru orkumálin í dag mál málanna. Hér er um slíkt stórátak að ræða, að einbeita þarf vilja og atorku þjóðarinnar til að fást við það. Það þarf að sameina þjóðina til átaka í málum, sem svo mjög varða gengi hennar og framtíð. Ríkisstjórn, hver svo sem hún er á hverjum tíma, verður að hafa forustu um slík stórmál. En því miður er þeirri forustu ekki fyrir að fara í dag. Þess vegna er veg- ferð þjóðarinnar í þessum efnum reikul og ráðlaus, svo að ekki sé meira sagt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í stjórnarandstöðu mótað stefnu og lagt fram tillögur til að mæta þeim þörfum, sem hin viðamiklu viðfangsefni krefjast. Ríkisstjórn- in hefur ekki viljað brjóta odd af ofiæti sínu og ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn um þessi mál. Ríkisstjórnin hefur beitt meirihluta valdi sínu á Alþingi til þess að svæfa þessi mál eða koma í veg fyrir, að þau hlytu þinglega meðferð. Samt sem áður hefur málatilbúnaður Sjálfstæðisflokks- ins haft sín áhrif í þessum efnum. Ríkisstjórnin hefur ekki séð sér annað fært en að taka nokkurt mið af hugmyndum og tillögum flokksins í eigin tillögugerð. En seinlæti og tregða hefur einkennt allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Veldur þar mestu tvískinnungsháttur eða bein and- staða í stóriðjumálunum. Frumvarp um ný orkuver Á síðasta þingi fluttum við sjálfstæðismenn frumvarp um ný orkuver. Frumvarpið kvað á um framkvæmdir í virkjunarmálum. Gert var ráð fyrir heildaráætlun um tilskilin verkefni, sem að væri stefnt að lokið yrði á þeim áratug, sem var að hefjast. Hér var um að ræða stærsta átakið, sem enn hefur verið gert til þess að nýta orkulindir lands- ins til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Þannig átti að vera tryggt að fullnægt væri þörfum hins almenna notanda. Með þess- ari aukningu vatnsvirkjana átti að leysa af hólmi innflutta olíu, bæði til húshitunar og raforkufram- leiðslu. Bent var á, að slíkar orkuframkvæmdir gætu skapað möguleika á nýtingu raforku til að framleiða nýja orkugjafa í stað þeirra, sem við nú flytjum inn, svo sem til rekstrar skipa og bifreiða. Þá var haft í huga, að möguleikar gætu skapast til að nota rafmagn beint til að knýja samgöngutæki. En umfram þetta allt áttu orku- framkvæmdir þær, sem hér var um að ræða, að geta lagt grundvöll að stóraukinni iðnvæðingu, stór- iðju og gjaldeyrisöflun í formi út- fluttrar iðnaðarvöru. Það voru slíkar framkvæmdir, sem gátu verið bezta tryggingin fyrr bætt- um lífskjörum og atvinnuöryggi landsmanna. Framkvæmdir þær, sem frum- varp þetta fól í sér, voru raforku- ver allt að 330 MW í Jökulsá í Fljótsdal, raforkuver allt að 180 MW í Blöndu, raforkuver allt að 130 MW við Sultartanga og stækk- un Hrauneyjafossvirkjunar um allt að 70 MW. Þessar fram- kvæmdir námu samtals 710 MW og var það rúmlega 100% aukning frá uppsettu afli í núverandi vatnsaflsvirkjunum, sem nema samtals 680 MW. Þegar frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi hafði ríkisstjórnin ekkert haft fram að færa á Alþingi í þessu efni. I umræðum um frumvarpið gat iðnaðarráðherra ekki fett fingur út í þessar framkvæmdir. Enda ýtti frumvarpið svo undir hæstvirtan ráðherra, að hann var kominn sjálfur með frumvarp tveim mánuðum síðar, sem fól í sér sömu virkjanaframkvæmdir. Röð virkjanaframkvæmda Það eina, sem hæstvirtur iðnað- arráðherra í raun og veru þóttist geta hengt hatt sinn á, var það, að frumvarp okkar sjálfstæðismanna kvað ekki á um röð virkjanafram- kvæmda. Gert hafði verið ráð fyrir heildaráætlun um þessi verk- efni, sem að yrði stefnt að lokið yrði á einum áratug og fram- kvæmdaröð réðist af hagkvæmn- issjónarmiðum eftir því sem nauð- syn krefði til þess að ná þessu marki. Þessi áætlun, sem fól í sér tvöföldun á uppsettu afli í vatns- virkjunum landsmanna, hafði ver- ið byggð á þeirri forsendu, að komið yrði á fót stóriðju til þess að hagnýta orkuna frá þessum virkjunum. Röð virkjanafram- kvæmda hlaut því að vera ákveðin með hliðsjón af framvindu stór- iðjumála. Ríkisstjórnin varð ber að lodd- araleik í tali sínu um röðun virkj- anaframkvæmda á síðasta þingi. Þetta kom berlega í ljós, þegar ríkisstjórnin lagði fram í maímán- uði síðastliðnum, frumvarp sitt að lögum um raforkuver. Þar var ekki heldur að finna ákvæði um röð virkjanaframkvæmda, enda lá þá ekkert fyrir um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í stóriðjumál- um. Hér var um að ræða sömu virkjanir og í frumvarpi okkar sjálfstæðismanna og skyldi málið koma aftur til kasta Alþingis til þess að ákveða framkvæmda- röðina. Það er það, sem skeð hefur með tillögu þeirri til þingsálykt- unar, sem við nú ræðum. Mun ég koma að því síðar. Stefnumótun í stóriójumálum Á síðasta þingi fluttum við sjálfstæðismenn þingsályktunar- tillögu um stefnumótun í stóriðju- málum. Tillagan hlaut ekki af- greiðslu frekar en önnur stórmál okkar. Á þessu þingi höfum við sjálfstæðismenn borið fram svip- aða þingsályktunartillögu um hagnýtingu orkulinda landsins til stóriðju. Þessi tillaga gerir ráð fyrir að komið verði á fót a.m.k. þremur til fjórum nýjum stóriðju- verum á næstu 15 árum á þeim stöðum á landinu, þar sem þess er þörf og staðhættir og aðrar að- stæður henta, enda sé hægt að flytja þangað nægilega orku á hagkvæman og öruggan hátt. Þá er gert ráð fyrir, að stefnt verði að því, að þau stóriðjuver, sem fyrir eru í landinu, verið stækkuð sem fyrst. Tillagan mælir svo fyrir, að forgöngu um hagnýtinu orkulinda landsins til stóriðju skuli hafa sér- stök nefnd, stóriðjunefnd, sem Al- þingi kjósi. Efni þessarar tillögu verður ekki rakið sérstaklega hér; hæstvirtur fyrsti þingmaður Reykvíkinga gerði þessari tillögu rækileg skil þegar hann mælti fyrir henni í fyrradag. Eftir að sjálfstæðismenn á tveim þingum í röð hafa borið fram tillögur til þingsályktunr um stóriðjumálin, rumskar ríkis- stjórnin loks og Iætur til sín heyra í þessum efnum, sem eru svo veigamikil og raunar forsenda fyrir öllu því, sem verið er að tala um varðandi hagnýtingu orku- linda landsins. Þetta gerist með tillögu þeirri, sem nú er hér á dagskrá. Og kem ég síðar að því. Skipulag orkumála Á síðasta þingi bárum við sjálfstæðismenn fram frumvarp til orkulaga. Frumvarp þetta fól í sér tillögur um heildarskipulag og yfirstjórn orkumála. Það var að stofni til það sama, sem sérstök nefnd, skipuð af þáverandi iðnað- arráðherra, Gunnari Thoroddsen, árið 1977, gerði tillögu um. Frum- varp þetta fól í sér margs konar nýmæli um hin veigamestu atriði. Það gerði t.d. ráð fyrir langtíma- áætlun um orkubúskap þjóðarinn- ar, sem gerð yrði til 10 ára og skyldi árlega leggja fyrir Alþingi skyrslu um framvindu áætlunar- innar. Frumvarpið fól í sér breyt- ingar á skipulagi Orkustofnunar, sem miðuðu í meginatriðum að því að styrkja stjórnun stofnunarinn- ar, hnitmiða verksvið hennar við rannsóknir á orkulindum lands- ins, áætlanagerð um orkubúskap- inn og aðstoð og ráðgjöf við stefnumótun í orkumálum og að efla áhrifavald stofnunarinnar og þátt hennar í heildarstjórn orkumálanna. Þá var gert ráð fyrir að staða Landsvirkjunar yrði styrkt þannig, að fyrirtækið hefði á hendi orkuvinnslu hvar sem væri á landinu, þar sem lands- hlutafyrirtæki kæmu ekki til greina, en að landshlutafyrirtæki gætu hvert á sínu veitusvæði reist og rekið orkuver. Hér verða ekki talin öll þau veigamiklu nýmæli eða rakið sérstaklega það efni, sem frumvarp þetta hefur að geyma. En frumvarpið náði ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Þó að ekkert gerist í skipulagi orkumálanna, virðast allir vera sammála um að eitthvað þurfi að gera. Meira að segja segir svo í stjórnarsáttmála núverandi ríkis- stjórnar, að setja skuli lög um skipulag orkumála, um megin raf- orkuvinnslu og raforkuflutning, þar sem m.a. verði ákveðin sam- ræmd heildarstjórn þessara mála. En hvers vegna skeður ekkert í skipulagsmálunum? Til þess að svara þessu verður að hafa í huga þann ágreining, sem hefur verið um skipulag raforkuvinnslunnar. Annars vegar er það sjónarmið, að megin orkuframleiðslan eigi að vera á einni hendi. Hins vegar er það sjónarmið, að þótt eitt aðal- orkufyrirtæki verði í landinu, skuli öðrum heimilt að setja á stofn og reka raforkuver, ef vilji og geta eru fyrir hendi. Hæstvirt- ur forsætisráðherra hefur verið sporgöngumaður þessarar stefnu á undanförnum árum. Þess er skemmst að minnast, að þegar hann var iðnaðarráðherra setti hann á stofn orkunefndir fyrir hina ýmsu landshluta til þess að vinna að því að koma á fót lands- hlutafyrirtækjum, sem hefðu m.a. með að gera raforkuvinnslu. Þessi stefna komst í framkvæmd á Vestfjörðum með stofnun Orku- bús Vestfjarða svo sem kunnugt er og þróunin í þessa átt á eftir að halda áfram, sbr. þingsályktun- artillögu um Orkubú Suðurnesja, sem nú hefur verið lögð fram á þessu þingi. Hæstvirtur iðnaðar- ráðherra hefur aftur á móti verið sporgöngumaður fyrir þeirri stefnu, að megin raforkuvinnslan skuli öll vera á hendi eins aðila í landinu. Af þessar ástæðu er skipulag raforkumálanna í sjálf- heldu. Hæstvirtur iðnaðarráð- herra kveinkar sér við að fylgja stefnu hæstvirts forsætisráðherra um skipulag orkumálanna og hæstvirtur forsætisráðherra veigrar sér við að framfylgja und- ir sínu forsæti stefnu hæstvirts iðnaðarráðherra. Afleiðingar skipulagsleysisins í orkumálunum eru hörmulegar. Skipulagsleysi hamlar í ýmsum efnum eðlilegum vinnubrögðum í orkumálunum til trafala og stór- skaða fyrir framvindu þessara mála og þjóðarbúið í heild. Ríkis- stjórnin virðist stefnulaus og ráð- iaus í þessum málum. í bili virðist ríkisstjórnin hafa gefist upp við að koma á lögbundnu skipulagi í þessum efnum. Klórað er í bakk- ann í lögum um raforkuver frá síðasta þingi, þar sem kveðið er á um það, að ríkisstjórninni sé heimilt að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Unz þeir samningar hafi tekizt skuli Raf- magnsveitur ríkisins hafa með höndum rannsóknir, hönnun og undirbúningsframkvæmdir í nánu samráði við Landsvirkjun. Allt ber þetta vott um ráðleysi og fálm í svo þýðingarmiklum málum, sem hér er um að ræða. Þetta er ástand, sem ekki er viðunandi. Það dugar ekki, að skipulagið sé inn- byggt í iðnaðarráðherra. Það er a.m.k. ekki varanleg skipan, því ráðherrar koma og fara. Skipu- lagsmálunum verður að koma í höfn. Þess vegna hafa sjálfstæð- ismenn flutt á ný á þessu þingi frumvarp til orkulaga til að freista þess að ráða hér bót á. Hins vegar er ekkert að finna um skipulagsmálin í þeirri þings- áiyktunartillögu, sem hér er á dagskrá. Bendir það til þess, að ágreiningur hæstvirts forsætis- ráðherra og hæstvirts iðnaðarráð- herra um skipulagsmálin sé enn óleystur. Húshitunarmál Jafnframt því sem við sjálfstæð- ismenn höfum gert tillögu í virkj- unarmálunum höfum við ítrekað lagt fram tillögu til þingsályktun- ar um framkvæmdaáætlun í orkumálum vegna húshitunar. Þar var gert ráð fyrir, að ríkisstjórnin fæli Orkustofnun að gera áætlun um framkvæmdir í orkumálum vegna húshitunar. Skyldi áætlun gerð til næstu fjögurra ára og miða að því, að innlendir orku- gjafar komi í stað olíu, ódýrari innfluttir orkugjafar verði nýttir í stað dýrari og orkunýting verði bætt. Áætlun þessari var ætlað að ná til tiltekinna verkefna, svo sem jarðhitaleitar, framkvæmda við hitaveitur, lagningar aðalhá- spennulína rafmagns, styrkingar rafdreifikerfis, lúkningar sveita- rafvæðingar og orkusparandi að- gerða. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta efnislega hér, en nefni það aðeins sem dæmi um verkefni, sem ríkisstjórnin leggur kollhúfur við. Slíkar tillögur okkar sjálf- stæðismanna hafa ekki náð fram að ganga. Frammistaða ríkisstjórnarinn- ar við að létta byrðar þeirra, sem hita hús sín með olíu, er kapítuli út af fyrir sig. Á næstsíðasta þingi höfðum við sjálfstæðismenn for- ustu um flutning frumvarps til laga um niðurgreiðslu olíu til upp- hitunar húsa. Meðflutningsmenn voru úr öllum flokkum. Hefði því mátt ætla, að málið næði fram að ganga. Frumvarp þetta var ný- flutt, þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Einn flutnings- manna frumvarpsins varð þá við- skiptaráðherra. Þar með átti mál- inu að vera tryggður framgangur, þar sem það heyrði undir þennan ráðherra. Því var nú ekki að heilsa, því að þó menn séu viðmæl- andi í orkumálunum áður en þeir fara í hæstvirta núverandi ríkis- stjórn, þá umhverfast þeir, þegar þangað er komið. Það er ekki nóg að þeir hlaupist frá góðum málum, heldur gerast þeir dragbítar í þeim sömu efnum, eins og glöggt hefur mátt marka af framferði hæstvirts viðskiparáðherra varð- andi niðurgeiðslu olíu til upphit- unar húsa, svo sem einkar glöggt kom í ljós hér á Alþingi við af- greiðslu fjárlaga fyrir árið 1982. Þess skal þó getið, sem til bóta er. Ráðherra hefir nú loks látið til- leiðast að hækka olíustyrkinn. Fyrsti hluti rædu Þorvaldar Garðars Kristjánssonar um orkumál

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.