Morgunblaðið - 18.11.1983, Blaðsíða 28
28
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 18. NÓVEMBER 1983
Minning:
Jóhann S. Hannes-
son skólameistari
menningaráhuga. Hann taldi aldr-
ei eftir sér að leggja fram vinnu í
þágu félagsins, t.d. sjá um kaffi-
sölu á sýningum sem félagið hefur
gengist fyrir í Sívertsen-húsi, (en
Byggðarvernd má þakka að það
hús hefur endrum og eins verið
opið almenningi síðustu árin).
Jóhann S. Hannesson var maður
fjölhæfur, sem kom víða við og
setti svip á umhverfi sitt. Aðrir
verða til að minnast hins raun-
verulega ævistarfs hans á sviði
mennta- og menningarmála. Við
viljum aðeins þakka fyrir framlag
hans á þessum litla afmarkaða
vettvangi, verndun byggðar og
umhverfis í Hafnarfirði. Við vott-
um Winston og börnunum, Sigurði
og Wincie, okkar dýpstu og ein-
lægustu samúð.
Stjórn Byggöarverndar.
Á sjöunda áratugnum urðu
miklar breytingar á skólastarfi
um allan heim. Sums staðar kost-
uðu þessar breytingar mikil átök,
jafnvel stúdentaóeirðir. Annars
staðar, þar á meðal hér á landi,
höfðu víðsýnir menn það mikil
áhrif, að meiri virkni nemenda í
námi og aukin áhrif þeirra á
skólastarfið þróuðust smám sam-
an í þann farveg sem nú þykir
sjálfsagður. Jóhann S. Hannesson
var einn af þessum víðsýnu skóla-
mönnum.
Þegar Jóhann varð skólameist-
ari við Menntaskólann að Laug-
arvatni við upphaf sjöunda ára-
tugarins var þar fyrir harðsnúið
kennaralið af gamla skólanum,
þeirra á meðal undirritaður. Und-
ir forystu Jóhanns var fljótlega
farið að reyna ýmsar nýjungar,
einkum er lutu að innra skipulagi
námsins. Annakerfið var tekið
upp og námsskráin tekin til ræki-
legrar endurskoðunar. Leiddi það
m.a. til breytingar á hinni hefð-
bundnu skiptingu í mála- og
stærðfræðideild og aukins sveigj-
anleika í námi og vali námsþátta.
Var einkar ánægjulegt að vinna
með Jóhanni að þessu umbóta-
starfi, enda var eldmóður hans og
skilningur á menntun í víðustu
merkingu óvenju mikill.
Aukinn þroski nemenda var
hans leiðarljós. Færi eitthvað úr-
skeiðis, eins og óhjákvæmilegt er
á stóru skólaheimili, reyndi Jó-
hann ætíð að höfða til ábyrgðar-
tilfinninga fremur en að beita
refsingum. Sýndi hann stundum
ótrúlega þolinmæði og dugnað í
þeim efnum og lagði oft nótt við
dag til að bragurinn á heimavist-
inni mætti verða sem bestur.
Winston, eiginkona Jóhanns,
tók virkan þátt í skólastarfinu og
á heimili þeirra voru allir, nem-
endur jafnt sem kennarar, aufúsu-
gestir. Kæra Winston og börn. Við
fráfall Jóhanns sendum við Ing-
unn innilegar samúðarkveðjur.
Minningin um mikilhæfan mann
mun ætíð lifa í hugum okkar.
Þórir Olafsson
Jóhann Hannesson, fyrrum
skólameistari á Laugarvatni, var
fæddur á Siglufirði 10. apríl 1919,
sonur hjónanna Hannesar Jónas-
sonar, bóksala, og Kristínar Þor-
steinsdóttur. Hann tók stúd-
entspróf frá MA 1939 og próf í
ensku og málvísindum frá Berk-
eley-háskóla í Kaliforníu 1945. Að
undanteknum árunum 1947—1950,
en þá var hann kennari við Gagn-
fræðaskóla Vesturbæjar í Reykja-
vík og síðan lektor í ensku við Há-
skóla íslands, var hann í Ameríku
við nám og störf til ársins 1959.
Lengst af þeim tíma eða 1952—
1959 var hann bókavörður við The
Fiske Icelandic Collection við
Cornell-háskóla í Ithaca. Síðan
kom hann heim og var skólameist-
ari við Menntaskólann á Laugar-
vatni 1960—1970. Þar næst starfs-
maður Fræðsluskrifstofunnar í
Reykjavík 1970—1972, en síðan
kennari við Menntaskólann við
Hamrahlíð. Síðustu árin hafði
hann leyfi frá kennslu en vann að
undirbúningi nýrrar ensk-ís-
lenskrar orðabókar.
Jóhann andaðist 9. nóvember sl.,
sextíu og fjögurra ára að aldri.
Á háskólaárum sínum í Kali-
forníu kvæntist Jóhann Winston
Hill og eiga þau tvö uppkomin
börn, Winston og Sigurð. Winston
er ein af þeim ágætustu konum,
sem flutt hafa hingað til lands
með eiginmönnum sínum, mönn-
um, sem hafa farið utan til að
„mannast á heimsins hátt“. í dag
skal henni flutt samúð vegna frá-
falls Jóhanns og mikil þökk fyrir
hlut hennar í lífi hans í full fjöru-
tíu ár.
Jóhann eyddi mestum hluta
starfsævi sinnar við bækur og fólk
og hafði mikið dálæti á hvoru-
tveggja. Árin við Fiske-safnið
voru mjög helguð bókum, fræði-
störfum og útgáfu. Á síðustu árum
komu út tvö lítil kvæðasöfn frá
hans hendi. Auk þess smákver
með limrum þegar hann var sex-
tugur, en limran var eftirlætis-
form hans hin síðari ár. Hann
sagði að knappt og rígbundið form
hennar kæmi í veg fyrir að hann
semdi innantómar langlokur.
Aðaleinkenni kveðskapar Jóhanns
er frumleiki og fágun. Síðustu
misseri voru bækur enn aðalvið-
fangsefni hans, að þessu sinni
ensk-íslenzk orðabók, sem mun
verða frábrugðin eldri orðabókum
og algert tímamótaverk hér á
landi.
Fólk, ungt fólk, nemendur, var
aðalumhverfi Jóhanns í tuttugu
ár, á Laugarvatni og í Mennta-
skólanum við Hamrahlíð. Af um-
ræðum Jóhanns um störf hans
þessi ár og ummælum fjölmargra
nemenda hans veit ég að verk sín
þar vann hann af árangursríkri
alúð. Hann fylgdist með ferli
ótrúlega margra nemenda sinna,
einkum Laugvetninganna, eftir að
þeir fóru úr skóla. Gladdist yfir
velgengni þeirra eða harmaði
hlutskipti þeirra eftir því hvernig
lífið og þeir áttu leik saman.
Að nánustu fjölskyldu Jóhanns
undanskilinni munu fáir hafa
staðið honum nær en bekkjar-
systkin hans til stúdentsprófs,
„þessi blessaður hópur“ eins og
hann nefndi okkur í ræðu á okkar
vegum fyrir fjórum árum. Við vor-
um sérkennilegur hópur, fámenn-
asti stúdentahópur úr MA til
margra ára. Kreppu-unglingar,
komin víðsvegar af landinu úr
sveitum og sjávarþorpum. Ekkert
okkar gat í raun og veru talizt frá
Akureyri, hvað þá frá stærri stöð-
um. Jóhann hafði strax í byrjun
sérstöðu innan þessa hóps. Hann
var mjög bráðþroska á allan hátt,
flugnæmur og jafnvígur á allar
námsgreinar. Hann var dúx
bekkjarins og hélt þvi sæti alla tíð
án þess að ofreyna sig á lestri
námsbóka. Á hinn bóginn var
hann óvenju lesinn í alls konar
bókmenntum, átti nokkuð af bók-
um og safnaði þeim. Auk þess
fróðleiks, sem honum hafði þannig
áskotnazt, gerði frjótt ímyndunar-
afl, frumleiki í hugsun og orðavali
samvistir við hann eftirsóknar-
verðar og eftirminnilegar. Hann
var fljúgandi hagmæltur og
stundum brá þá þegar fyrir því
skáldi, sem hann varð. En honum
var fleira til lista lagt. Hann var
söngmaður góður, frambærilegur
leikari og vel búinn ýmsum íþrótt-
um á okkar mælikvarða. Hann
hafði bæði í orðum og gerðum á
sér heimsmannssnið, sem okkur
hinum var framandi, enda kominn
frá síldarbænum Siglufirði og
hafði kynnzt þar lífsviðhorfum,
sem ekki þekktust á heimaslóðum
flestra okkar.
Jóhann var inspector scholae,
skólaumsjónarmaður úr okkar
árgangi, og þegar einhver hefur
þurft að koma fram fyrir okkar
hönd út á við hefur hann verið
sjálfkjörinn til þess. Við vissum
frá gömlum tíma að hann var
hugkvæmur og orðsnjall. Við höf-
um vitað að hann yrði sér og
okkur til sóma og það hefur aldrei
brugðizt. Við stóðum vel saman út
á við og gerum það enn í dag, en
innan bekkjar erum við gagnrýn-
in, óvægin og deilugjörn. Það fékk
Jóhann að reyna ekki síður en við
hin. En ekki sízt þegar hann kom
fram sem fulltrúi okkar, sem and-
lit bekkjarins út á við, þá var hann
gleði okkar og stolt.
Við Jóhann hófum báðir nám í
2. bekk MA haustið 1934. Tilviljun
réð því að við settumst þar hlið við
hlið, og það var a.m.k. mér heldur
á móti skapi. Við höfðum tekið
utanskólapróf upp úr 1. bekk vorið
1934 ásamt mörgum öðrum og þá
kynnzt nokkuð. Og mér, ófermdum
dreng úr afskekktri sveit, sem var
að stíga sín fyrstu spor utan fæð-
ingarsveitar, leizt illa á þennan
orðhvata, langa strák frá Siglu-
firði. Þessi afstaða mín breyttist á
ótrúlega skömmum tíma í gagn-
kvæma vináttu, sem ekki hefur
bliknað síðan í full fjörutíu og níu
ár. Við áttum meiri og minni sam-
skipti dag hvern í skóla, skrifuð-
umst á á sumrin, bjuggum saman
þrjá vetur í heimavist á háalofti
MA ásamt Gesti Jónssyni, dygg-
um vini okkar. Síðan skildu leiðir
en mismunandi nám og störf, ólík
búseta hér innanlands, jafnvel
Atlantshaf okkar á milli í nær tvo
áratugi skipti engu máli og breytti
engu. Þó vorum við ólíkir, ósam-
mála um margt og létum það
óspart í ljós. Ánnað hefðum við
talið vítaverða óhreinskilni.
Slík vinátta, einlæg, óeigin-
gjörn, hreinskilin og hafin yfir
stað og stund, er einhver dýrmæt-
ust gjöf, sem fengin verður. Á vin-
áttu okkar Jóhanns bar aldrei
skugga frá því að við kynntumst á
æskuárunum, þegar öll sönn vin-
átta grundvallast.
Þóroddur Jónasson
Jóhann S. Hannesson lést að
heimili sínu 9. þ.m., 64 ára. Ég veit
að aðrir eru mér hæfari til að
rekja æviferil hans, m.a. drjúgan
og gifturíkan þátt hans í að móta
skipun íslenskra framhaldsskóla,
en mig langar að setja á blað
nokkur orð frá Menntaskólanum
við Hamrahlíð.
Jóhann réðst stundakennari að
skólanum 1971 og var fastráðinn
kennari í ensku og bókmenntum
síðan haustið 1972. Þá var verið að
taka upp nýtt skipulag, áfanga-
kerfi, og skólanum var mikill
fengur að reynslu og þekkingu Jó-
hanns við mótun þessa kerfis, og
raunar við allt starf í skólanum.
Jóhann var ágætur kennari, en
samstarfsmenn hans í Mennta-
skólanum við Hamrahlíð, nemend-
ur jafnt sem kennarar, minnast
hans ekki síður sem góðs félaga
sem leysti úr margri þraut og vildi
hvers manns vanda leysa. Jóhann
dvaldist lengi erlendis við nám og
störf og talaði jafnan ensku á
heimili sínu, en tök hans á ís-
lensku voru ekki síðri.
Síðan haustið 1980 var Jóhann
Hannesson í orlofi frá kennslu og
vann að gerð ensk-íslenskrar orða-
bókar hjá bókaforlaginu Erni og
Örlygi. Eg efa ekki að mikill feng-
ur verður að orðabókinni fyrir
skóla og almenning, enda veitti
menntamálaráðuneytið Jóhanni
full starfslaun vegna þessa verks,
sem ég hygg að hann hafi nær lok-
ið og hann hugðist taka aftur við
kennarastarfi við Menntaskólann
við Hamrahlíð á hausti komanda.
Jóhann S. Hannesson var
kvæntur bandarískri konu, Lucy
Winston, og þau hjón eiga tvö
börn uppkomin, Lucy Winston
(Wincie) og Sigurð. Winston
Hannesson réðst að Menntaskól-
anum við Hamrahlíð sem ensku-
kennari með Jóhanni, og skömmu
síðar bættist Wincie dóttir þeirra
í hópinn. Fjölskyldan var mjög
samrýnd og samhent og átti mik-
inn þátt í að móta og skipuleggja
enskukennslu hér við skólann.
Ég veit að ég mæli fyrir hönd
nemenda, kennara og annars
starfsliðs Menntaskólans við
Hamrahlíð þegar ég þakka Jó-
hanni S. Hannessyni að leiðarlok-
um gott starf og ánægjuleg kynni
og votta samúð konu hans, börn-
um og öðrum ástvinum.
Örnólfur Thorlacius
Kveðja frá samstarfs-
mönnum í Bókaútgáfu Arnar
og Örlygs hf.
Skyndilegt fráfall Jóhanns S.
Hannessonar vekur sára eftirsjá.
Við, sem höfum unnið með Jó-
hanni að því að búa til prentunar
ensk-íslenska orðabók á vegum
Arnar & Örlygs hf., höfum misst
læriföður okkar. Mann sem átti
mikið að gefa og við hefðum viljað
njóta svo miklu lengur.
Þegar sú vinna hófst, sem nú er
komin vel á veg, varð Jóhann
stjórnandi. í því starfi fengu þeir
eiginleikar notið sín, sem gerðu
Jóhann að því sem við viljum kalla
kennara af guðs náð. Aldrei slak-
aði hann á kröfu sinni um ýtrustu
nákvæmni, skýrleika og smekk-
vísi. Og hin geysivíðfeðma þekking
Jóhanns gerði honum kleift að
fást við ólíkustu svið og jafnframt
að miðla öðrum og leiðbeina í
orðaglimunni.
Tök Jóhanns á íslenskri og enski
tungu voru einstæð. Sama hvar
borið var niður. Alls kyns skáld-
skapur lék honum á tungu, enda
óspart vitnað í öndvegisbók-
menntir, ef eitthvað bar á góma,
sem styðja þurfti gildum rökum.
Marga stund gladdi hann okkur
með sannri fyndni, góðum söng og
snjöllum kveðskap. í limrusmíð
var Jóhann rammgöldróttur.
Jóhann var víðsýnn og frjáls-
huga i viðhorfum sínum til manna
og málefna, umburðarlyndur og
mat hvern mann að verðleikum.
Hann var bjartsýnn, trúði á lífið
og framtíðina, og ekki síst unga
fólkið. Hann naut þess að starfa
með ungu fólki, þar átti hann
heima. Við sjáum á bak frískasta
og frumlegasta unglingnum í
hópnum, og þeim skarpasta og
skilningsbesta, þótt vissulega væri
farið að gæta þreytumerkja.
Að leiðarlokum er okkur læri-
sveinum þessa góða manns efst í
huga þakklæti og virðing. Virðing
fyrir lítillæti hans og ljúf-
mennsku; þakklæti fyrir vísdóm
han^ og þekkingu, sem hóf hann
svo hátt, en skipaði honum aldrei í
dómarasæti.
Minning Jóhanns S. Hannesson-
ar lifir og mun áfram hvetja til
dáða.
Guðhjörg Þorhjarnar-
dóttir — Minning
Fædd 6. október 1907.
Dáin 9. nóvember 1983.
í dag, 18.nóvember, kl. 15, verð-
ur útför Guðbjargar Þorbjarnar-
dóttur í Fríkirkjunni í Reykjavík.
Guðbjörg var fædd og uppalin í
Vesturbænum, dóttir hjónanna
Þorbjörns Guðmundssonar og
Guðríðar Guðrúnar Jónsdóttur,
sem bæði voru ættuð frá Mýrum í
Borgarfirði.
Guðbjörg eða Bubba, eins og
hún var oftast kölluð, var Vestur-
bæingur í húð og hár, og þar vildi
hún helst búa.
Þorbjörn, faðir Guðbjargar, var
atorkumaður til sjós og lands og
rak lengi netaverkstæði við Vest-
urgötuna þar sem Reykvíkingar
lyfta nú glasi á góðri stundu, í
Naustinu.
Barnahópurinn var stór, 3 synir
og 5 dætur, sem þótti ekki mikið í
þá daga, og allir fóru út að vinna
um leið og hægt var að valda dags-
verki. Konur í almúgastétt á Is-
landi hafa alla tíð gengið til verka
með karlmönnum, ef einhver
skyldi halda að það sé nýtt uppá-
tæki.
Ég hafði það á tilfinningunni,
þegar ég kynntist Guðbjörgu bet-
ur, að hún nyti sín best við verk
sem þurfti að ganga að með at-
orku. Ég man vel eftir sveiflunni
og hraðanum hjá henni þegar hún
greip í að hnýta net fyrir Guð-
mund bróður sinn, þegar honum lá
á. Eins man ég kraftinn í henni
þegar verið var að gera hreint og í
það gengu fleiri með henni.
Árið 1931 giftist Guðbjörg eftir-
lifandi manni sínum, Ásmundi
Vilhjálmssyni, múrarameistara,
og hófu þau búskap að Seljavegi 5.
Reyndar bjuggu þau lengst fram-
an af ævinni í Vesturbænum, þar
sem Guðbjörg kunni best við sig,
meðal annars lengi á Holtsgötu 21,
þar sem undirritaður kynntist
fjölskyldunni.
Guðbjörg og Ásmundur eignuð-
ust 7 börn, 3 syni og 4 dætur, sem
öll eru á lífi og fylgja móður sinni
til grafar í dag.
Þó öldin sé önnur í dag, hvað
barneignir snertir, eiga þau í dag
19 barnabörn og 11 barnabarna-
börn, og á þar drýgstan þátt elsta
dóttirin, Hólmfríður, sem áttaði
sig ekki á tískunni fyrr en hún var
búin að eiga 8 börn.
Undirritaður var svo lánsamur
að ná í eina af dætrum þeirra
hjóna, og þar með hlutdeild í þess-
ari indælu fjölskyldu.
Ég kynntist því sjálfur, og hef
það frá fólki sem þekkti Guð-
björgu betur en ég, að oft rétti hún
hjálparhönd þegar á þurfti að
halda, og naut þar stuðnings
eiginmanns síns.
Þegar börnin voru öll farin að
heiman og hægðist um í kringum
Guðbjörgu, var eins og drægi af
henni, og ekkert gæti komið í stað-
inn fyrir það amstur.
Síðustu vikurnar sem hún lifði
var þó sem hún lifnaði öll við og
hresstist, og þakka ég það þeirri
þátttöku sem hún öðlaðist í lífinu
umhverfis sig á ný. Yngsti sonur
hennar, Þorbjörn, sem lengst bjó
heima og enn er ógiftur, flutti
heim til gömlu hjónanna á ný eftir
að hafa selt íbúð sína. Með aðstoð
Ásmundar föður síns fór hann að
byggja hús sem hann nýlega fékk
úthlutað lóð undir. Nú var eitt-
hvað að gerast í kringum gömlu
konuna sem hún kannaðist við og
var þátttakandi í, allt til þess að
hún hneig niður við húsdyrnar
heima hjá slr, þegar hún var að
koma utan úr búð.
Ég kveð Guðbjörgu með virð-
ingu og votta Ásmundi og börnum
þeirra samúð mína.
Þorvaldur Ingibergsson
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minn-
ingargreinar verða að berast blaðinu með góðum
fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í mið-
vikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á
mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. í minn-
ingargreinum skal hinn látni ekki ávarpaður. Þess
skal einnig getið, af marggefnu tilefni, að frumort
ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasíð-
um Morgunblaðsins. Handrit þurfa að vera vélrituð
og með góðu línubili.