Morgunblaðið - 08.02.1984, Blaðsíða 43
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 8. FEBRÚAR 1984
43
Egill Egilsson
Króki - Minning
Fæddur 14. júlí 1898
Dáinn 9. janúar 1984
Egill á Króki var fæddur að
Þverá á Síðu í Vestur-Skafta-
fellssýslu. Þar á Síðunni bjuggu
foreldrar hans ásamt foreldrum
sínum og bræðrum. Þar sem fjöl-
skyldan var stór en landþrengsli
mikil og erfitt að afla heyja, var
leitað til Sigurðar ólafssonar
sýslumanns frá Hjálmholti, en
hann hafði verið sýslumaður
Skaftfellinga og kynnst fólkinu í
Hörgslandskoti og á Þverá, sem
meðal annars varð til þess, að Jó-
hanna föðursystir Egils, fór í vist
til Sigurðar sýslumanns í Kaldað-
arnesi. En Jóhanna varð síðan
landskunn af framgangi í sínum
verkamálum. Sigurður í Kaldað-
arnesi leitaði til séra Magnúsar
Helgasonar á Torfastöðum um
jarðnæði í Biskupstungum fyrir
fólkið í Hörgslandskoti og á Þverá.
Vorið 1899 losnuðu úr ábúð jarð-
irnar Fell og Galtalækur, kusu
þeir feðgar að taka jörðina Galta-
læk í Bræðratunguhverfi, en henni
fylgdu afbragðs slægjulönd í Poll-
engi. 26. júní 1899 lagði síðan fjöl-
skyldan af stað austan af Síðu,
bræður þrír, Egill, Guðmundur og
Dagbjartur, allir nýlega kvæntir,
ásamt eiginkonum, öldruðum for-
eldrum og fjórum börnum þeirra
bræðra, 3 börnum Guðmundar og
Agli eins árs gömlum, fyrsta barni
Egils Egilssonar og Steinunnar
Guðlaugsdóttur. Reiddi móðir
hans hann fyrir framan sig. Tók
þessi ferð 11 sólarhringa, þar af
voru þau fjóra sólarhringa í tjaldi
við Kúðafljót á meðan sjatnaði í
ánni eftir rigningar. Það má því
segja að snemma fengi Egill að
takast á við fljótin.
Á Galtalæk byrjaði svo þessi
samhenta fjölskylda nýtt líf með
bjartar vonir og þar fæddust for-
eldrum Egils 7 börn í viðbót. Þeir
Guðmundur og Dagbjartur, föð-
urbræður Egils, fengu sér sfðan
aðrar jarðir. Fór Guðmundur að
Borgarholti en Dagbjartur að
Auðsholti. Þó þröngt væri í búi á
Galtalæk fyrstu árin rættist
ótrúlega fljótt úr með efnahaginn
og um það bil sem Egill flutti úr
foreldrahúsum og hóf sjálfstæðan
búskap var heimilið á Galtalæk
talið með efnuðustu heimilum hér
í sveit.
Egill hóf búskap á Króki 1923 og
árið 1925 kvænist hann Þórdisi
ívarsdóttur frá Norðurkoti í
Grímsnesi. Jörðin er næsta jörð til
norðurs frá Galtalæk. Lengst af í
búskap Egils voru þær með óskipt
beitiland en jörðum Bræðratungu-
hverfis var skipt 1958.
Bændur í Tunguhverfi höfðu
mikil og náin samskipti lengst af í
búskap Egils þar sem búfénaður
þeirra gekk saman. Annað kom
líka til, jarðirnar voru ekki í neinu
vegasambandi og þó Tungufljót
væri brúað 1929 var enginn vegur
fram í Tunguhverfi fyrr en upp úr
1950. Allir aðdrættir, stórir og
smáir, þurftu að fara yfir Tungu-
fljót á ferjunni hjá Króki en þar
var lengst af lögferja og þar er
mér fyrst Egill minnisstæður er
ég ungur drengur fór um með
mjólkurbíl á leiðinni í barnaskól-
ann. Egill var jafnan, ef eitthvað
erfitt var, sjálfur við ferjuna.
Agndofa horfði ég á er hann ber-
höfðaður i éljaútsynningi hratt
bátnum út í kófið og lagðist á
árar, báturinn drekkhlaðinn af
mjólkurbrúsum og öllu öðru sem
búin þurftu við. Ferjumanninum
fötuðust ekki handtökin, hvorki í
það sinn er ég fyrst horfði á hann
á fljótinu, né seinna, þó oft kæm-
ist hann í hann krappan og stund-
um, farið yfir meira af kappi en
forsjá.
Þau Egill og Þórdís eignuðust 5
börn: Þuríði, gift í Kópavogi;
Steinunni, er lést 19 ára, Egil,
giftur á Selfossi, Ivar Grétar, gift-
ur í Kópavogi, Jónu Kristínu, gift
og býr á Ósabakka á Skeiðum. Hjá
þeim hjónum ólst upp að mestu
dóttursonur þeirra, Unnsteinn Eg-
ill, sem nú er giftur í Garði, og
Magnús Heimir, frændi Egils, er
kom að Króki tveggja ára, og nú er
giftur Margréti Baldursdóttur frá
Kirkjuferju i Ölfusi og hafa þau
búið á Króki frá 1977. Einnig hafa
tvær dætur Jónu alist þar upp að
miklu leyti og ásamt dætrum
Heimis og Margrétar verið auga-
steinar afa síns í ellinni, en Egill
var mikill barnavinur. Þó jörðin
Krókur sé ekki stór er hún gras-
gefin og engjalönd voru góð á
bökkum Tungufljóts. Á Króki
búnaðist þeim hjónum vel, byggt
var stórt og myndarlegt íbúðarhús
1962 og kom sér þá að fjölskyldan
var samhent og þó börnin væru
farin að heiman komu þau er
hjálpar þurfti við, eins voru útihús
byggð og ræktað mest allt það
land sem hægt var að rækta. Egill
var góður bóndi, meðal gripa
sinna naut hann sín best. Hann
fóðraði allar skepnur af kostgæfni
og var einna fyrstur manna hér í
sveit til að fóðra ær sínar til há-
marksafurða.
Þeim fækkar nú óðum bændum
hér, sem fæddir voru á öldinni
sem leið. Þeir söfnuðu kannski
ekki fé í erlenda banka en þeir
settu gull sitt i uppbyggingu jarð-
anna og sveitanna. Þeir máttu
muna tímana tvenna, frá þvi að
standa illa búnir við slátt úti á
blautum mýrum til þess að aka
velbúnum dráttarvélum eftir upp-
þurrkuðum, ræktuðum löndum.
Egill var einn þessara bænda sem
sá jörðina, sem hann tók við, lítið
kotbýli, breytast í góðbýli í sam-
býli við frænda sinn og uppeldis-
son, þar átti hann gott ævikvöld.
Tómas Guðmundsson segir svo i
Fljótinu helga, á einum stað:
Og ég er einn, og elfarniðinn ber
að eyrum mér jafn rótt með fyrsta sinni.
Með skynjun tveggja heima í hjarta mér
ég hverf á brott úr rökkurveröld minni.
Og seinna þegar mildur morgunn skín
á mannheim, þar sem sálir stríð sitt heyja,
mig skelfa engin sköp, sem bíða mín:
Þá skil ég líka að það er gott að deyja.
Egill var lagður til hvílu í
Bræðratungukirkjugarði 14. janú-
ar síðastliðinn og þó veður væri
nokkuð svalt fylgdu honum síð-
asta spölinn stór hópur vina og
vandamanna. Ég bið ástvinum
hans öllum blessunar.
Björn Sigurðsson
Þegar ég var að alast upp í
Tunguhverfinu, þótti töluverð
upphefð að því að fá að fara út að
Króki, þá var Krókur einskonar
tengiliður Hverfisins við umheim-
inn. Lagður hafði verið vegur ofan
af Fellskotsholti niður á Ferju, en
á Króki var um langt árabil lög-
ferja, sem ábúandi varð að sinna,
þó að ekki væri það beint ábata-
samt, enda miklu sjaldnar tekinn
ferjutollur heldur en hitt. Þangað
var búið að leggja síma og var öll-
um tekið þar af mikilli alúð, hvort
sem maður átti erindi yfir fljótið
ellegar í símann. Ekki spillti held-
ur að húsbóndinn var alltaf glaður
og reifur, tungutakið sérstætt, en
þó ekki tilgerðarlegt, enda átti
hann til þeirra að telja, sem gátu
talað máli sínu svo skildist, eins
og t.d. Jóhanna föðursystir hans
gerði áratugum saman meðan hún
var í forustusveit verkalýðsins, en
hana dáði Egill mjög þó að skoð-
anir þeirra í stjórnmálum færu
ekki saman.
Egill fæddist 14. júlí 1898 að
Þverá á Síðu. Var hann frumburð-
ur hjónanna Guðlaugar Steinunn-
ar Guðlaugsdóttur og Egils Eg-
ilssonar frá Hörgslandskoti á
Síðu. Á Þverá, en þaðan var Stein-
unn, höfðu þau fengið ófullnægj-
andi jarðnæði og tóku sig því upp
þaðan, þegar Egill var á öðru ár-
inu og héldu ríðandi vestur í Ár-
nessýslu ásamt fleira skylduliði og
léttu ekki fyrr en komið var að
Galtalæk, þar sem Egill hafði
fundið sér meira olnbogarými og
jörð sem hentaði tápmiklum
bónda, þótt í ýmsum greinum erf-
ið væri. Ferðasaga þessa fólks yfir
vegleysur og mestu vatnsföll á Is-
landi er skráð i ritinu Inn til fjalla
1. bindi. Er ekki annað hægt en að
dást að því áræði, þreki og þraut-
seigju, sem þar er lýst og væri það
holl lesning fyrir þá sem yngri
eru. Egill á Galtalæk hafði þar
forystuna og fórst það svo snilld-
arlega að allt gekk slysalaust. Á
Galtalæk ólst Egill yngri síðan'
upp ásamt systkinum sínum, en
þeir bræður voru 4 og systurnar
sömuleiðis fjórar og fellur Egill
fyrstur frá af þeim.
Egill fluttist síðar að Króki árið
1922 og dvaldist þar síðan til ævi-
loka. Þann 26. sept. 1925 kvæntist
hann Þórdísi Ivarsdóttur Geirs-
sonar ættaðri úr Grímsnesi, mik-
illi dugnaðar- og myndarkonu.
Þau eignuðust fimm börn, Þuríði,
Steinunni, Egil, Ivar Grétar og
Jónu Kristínu. Steinunni, mikla
efnisstúlku, misstu þau sviplega i
blóma lífsins aðeins 19 ára gamla.
Tók Egill það nærri sér, en hann
leitaði trausts og halds í trúnni og
tíminn og lífið sem áfram heldur^
græddi undirnar þótt djúpar
væru. Öll hafa hin börnin stofnað
sín heimili og eru hið mesta dugn-
aðar- og mannkostafólk.
Auk þess ólust upp á Króki að
mestu leyti tveir drengir, Unn-
steinn Egill Kristinsson sonur
Þuríðar og Magnús Heimir Jó-
hannesson frændi Egils, sem árið
1977 tók við búi á Króki ásamt
konu sinni, Margréti Baldursdótt-
ur. I skjóli þeirra dvöldu þau hjón
síðan við ágætt atlæti og undu hag
sínum hið besta. ótaldir eru þeir
bæði skyldir og vandalausir, sem
um lengri eða skemmri tíma áttu
athvarf á Króki.
Egill stundaði búskap sinn af
árvekni og fyrirhyggju. Hann var
fjármaður ágætur og hafði gaman
af góðum hestum og sinnti félags-
málum hestamanna á tímabili.
Einnig hafði hann gott gagn af
kúabúi sínu og átti orðið ágætan
stofn þegar hann seldi búið í hend-
ur fóstursyni sínum, Magnúsi
Heimi. Ábýlisjörð sína bætti hann
eftir því sem tækniþróuninni
fleygði fram. Egill unni fjölskyldu
sinni og heimili framar öðru. Þó
varð hann eins og margur að fara
í vinnu af bæ til að afla tekna og
kannski ekki síður af greiðasemi
enda eftirsóttur hvar sem var.
Sagði mér góður kunningi hans,
sem þekkti Egil frá unga aldri, að
hann hafi verið einhver sá harð-
duglegasti maður, sem hann hefði
kynnst um dagana. Alltaf var það
upplífgandi að hitta Egil, gerði
það einkum orðfærið, sem var
tæpitungulaust en aldrei meinlegt
og var unun með honum að vera á
góðri stund.
Aldraður bóndi, sem lokið hefur
miklu dagsverki á langri ævi, hef-
ur kvatt. Hans verður ævinlega
minnst sem heilsteypts dreng-
skaparmanns.
Gunnlaugur Skúlason
Laugardaginn 14. janúar var til
moldar borinn í Bræðratungu-
kirkjugarði elskulegur faðir minn
Egill Egilsson fyrrum bóndi á
Króki, en þar hafði hann lifað og
starfað öll sín manndómsár, eða
frá 1923 er hann gerðist þar
bústjóri eða ráðsmaður fyrir föður
sinn Égil bónda á Galtalæk er
hafði fengið Krókinn til ábúðar
auk sinnar eigin jarðar. Þar munu
þrjú elstu börn afa míns á Galta-
læk hafa stundað fjárgæslu og
búskap til 1925 að faðir minn fest-
ir ráð sitt og gengur að eiga eftir-
lifandi konu sína Þórdísi Ivars-
dóttur sem hafði alist upp í Norð-
urkoti í Grímsnesi. Þá fær hann
Krókinn í ábúð og þar búa foreldr-
ar mínir í rúm fimmtíu ár eða til
ársins 1977 að fóstursonur þeirra
Magnús Heimir Jóhannesson tek-
ur við búskapnum. Enn áfram eru
gömlu hjónin sjálfra sín á neðri
hæð íbúðarhússins á Króki, og
njóta þess í ellinni að sjá nýja
kynslóð vaxa úr grasi.
Pabbi minn var með fádæmum
barngóður maður, og það er ýkju-
laust þó ég segi að öll lítil börn
bæði vandalaus og skyld hafi
hænst að honum. Það var sár
söknuður barnabarnanna hans
sem sáu á bak elskulegum afa, og
mín börn, sem öll eru uppkomin
vilja þakka honum afa fyrir allt
sem hann var þeim og gerði fyrir
þau.
Þegar ég lít yfir farinn veg, er
margs að minnast, ég man föður
minn sem ferjumanninn er alltaf
var til reiðu með litla bátinn sinn
þegar einhver þurfti að komast yf-
ir Tungufljót, en á króki var lög-
ferja um áraraðir, mér er ekki
kunnugt um hvenær það hófst en
það var mestan búskap föður mins
og löngu áður. Þetta hefur nú ver-
ið nokkur kvöð á þeim bónda er á
Króki bjó, það var sama hvernig á
stóð, þessu kalli varð að sinna
sumar og vetur. Já, vetur, mér er
hann minnisstæður í frosti og
jakaskriði dragandi bátinn fullan
af mjólkurbrúsum og öðrum flutn-
ingi, þvi oft voru sandeyrar á
þeirri leið sem fara þurfti yfir, þá
óð hann oft í mitti. Maður getur
hugsað sér þann skelfilega kulda
og þá miklu þrekraun sem þetta
hefur verið. Sem barn og ungling-
ur horfði ég á þetta með skelfingu.
Nú þekkist þetta ekki lengur við
Tungufljótið mitt fagra, sem liður
oft í lygnum straumi milli grænna
bakka sem eru svo gjöfulir á gott
kindafóður með valllendi og smá-
víði. Þetta kunni faðir minn að
meta, því sauðfé var hans yndi, og
því var gaman að gefa ilmandi
bakkahey. Þar man ég pabba minn
síðast við slátt með orf og ljá, það
heyvinnutæki er nú eitt af því sem
heyrir fortíðinni til, nú er ekkert
slegið nema með vélum.
Við fjárskiptin sem urðu, þegar
öllu fé var slátrað, vegna mæði-
veiki, var hann svo lánsamur að fá
lömb úr Bárðardal, frá Sigurð-
arstöðum mestmegnis. Þetta voru
mannelskar og gullfallegar gimbr-
ar, sem urðu i miklu afhaldi hjá
bóndanum Agli. Bárðdælingarnir
sem hann kallaði svo, reyndust af-
urðasælar í hans meðferð, voru
nær alltaf með tvö lömb, enda
sagði hann oft eitt lamb aðeins
borga kostnað við ána, tvö gefa
nokkurn arð. Pabbi minn var fjár-
glöggur og lagði mikið uppúr að
forðast skyldleikaræktun, sagði
galla í ætt gjarnasta og valdi líf-
lömb af kostgæfni. Enda held ég,
að hann hafi fengið alla sína alúð
og natni við ærnar margborgaðar.
Fjallferðir á afrétt vor og haust,
var það sem árvíst var í lífi ein-
yrkjabóndans, þeirra naut faðir
minn i ríkum mæli. Þessum þó oft
svaðilförum, í glímu við óbrúaðar
stórár og oft illviðri á reginfjöll-
um. Til þessara ferða hlakkaði
hann takmarkalaust í hópi góðra
vina og nágranna. Þeir voru fjár-
margir sumir bændur í Tungu-
hverfi og það var fallegur hópur
sem fór til fjalls og kom aftur að
hausti. Yndi bóndans í blíðu og
stríðu.
Mér var vel kunnugt um ást
hans á Tungnamannaafrétti, feg-
urð fjalla og hrikaleik, sandauðna
með Geldingahnapp og Holurt,
grasgeira og melöldur. Allt þetta
vakti honum yndi og öðrum frem-
ur var hann kunnugur öllum ör-
nefnum þar innfrá. Hann fór mjög
ungur fyrst til fjalls með sér
miklu eldri mönnum sem gjör-
þekktu alla staðhætti og örnefni.
Pabbi var stálminnugur og eftir-
tektarsamur, og mér er kunnugt
um að fræðimenn um örnefni hafa
haft samband við hann hin síðari
ár. Nokkru áður en hann veiktist,
dreymdi hann draum, þótti honum
sem hann væri á leið til fjalls ríð-
andi hesti, bleikum að lit. Fór sá á
kostum sem vakti furðu föður
míns, því vel þekkti hann hestinn
og vissi hver átti, en að hann væri
gæðingur kom honum mjög á
óvart, allt í einu þykist hann kom-
inn í Fremstaver, er þar allt baðað
í lita- og geisladýrð svo undur fal-
legu að ekki verður lýst með orð-
um, enga sá hann sól, aðeins þessa
dásamlegu fegurð.
Æðrulaus vissi hann að hverju
dró, og til hinstu stundar hélt
hann sinni sálarró, tók á móti öll-
um sem komu til hans í sjúkra-
húsið með glaðværð og spaugsyrð-
um. Fæsta gat órað fyrir að hann
væri svo sjúkur sem raun bar
vitni.
Þeim fer ört fækkandi gömlu
bændunum í Biskupstungum, þrír
eru farnir nú með skömmu milli-
bili, allir nágrannar og ferðafélag-
ar í gegnum áratugi. Nú síðast
besti vinur og nágranni föður
mins, Jóhannes Jónsson í Ásakoti.
Það munu vera 17 dagar milli
dauða þeirra. Svona er lífsins
gangur, tveir aldurhnignir menn
sem lifað hafa mestu breytinga-
tíma í sögu íslensku þjóðarinnar.
Barist við fátækt og allsleysi
kreppuáranna i byrjun síns bú-
skapar, til velmegunar og alls-
nægta hins nægjusama manns,
sem metur gróður jarðar mest af
öllu.
Aldrei mun ég gleyma fögrum
sumardegi í sveitinni minni kæru
fyrir nokkrum árum, þegar ég var
í heimsókn hjá foreldrum mínum
og pabbi sagðist ætla að sýna mér
sína PARADÍS. Við gengum yfir
margar nýræktir að stóru órækt-
uðu stykki milli skurða. Við rædd-
um margt saman eins og ævinlega,
um trúmál í þetta sinn og andleg
efni sem við gerðum oft, sagðist
hann verða alsæll ef hann fyndi
svo yndislegan blett í eilífðinni.
Ég beið í ofvæni að sjá þetta, og
þvílík undur. Blágresi, mjaðurt,
fjalladalafífill og þúsundir alls-
konar blóma og grasa, ilmandi
reyrgras og hvönn, allt í fegurð og
þroska, eins og það getur aðeins
verið, þar sem engin húsdýr ná til
að granda því. Þvílík PARADÍS.
Svona er tilfinning bóndans til
jarðarinnar sem hann yrkir og
ann. Nú er þessi blómareitur orð-
inn að ræktuðu túni, allt er rækt-
að til nytja sem hægt er, á því
byggist líf hins íslenska bónda.
Ósk mín er sú að frændi minn og
uppeldisbróðir, sem tekið hefur
við búi föður míns og annast af
miklum dugnaði, fái notið þess
sem best og lengst. Ég veit að for-
eldrum mínum var mikil gleði að
sjá það dafna og blómgast í ung-
um höndum.
Mér er efst í huga á þessari
stundu, þakklæti til skapara míns
fyrir þá gæfu, að hafa svo lengi
notið samvista við minn elskulega
föður. Nú er hann aftur kominn
heim í sveitina sína, sem hann
unni svo mjög, og til hinstu hvíld-
ar við hlið dóttur sinnar sem burt
var kölluð í blóma lífsins. Ég trúi
því að hún hafi tekið á móti hon-
um á ódáinslandi, það veit ég að
hann vonaði svo einlæglega, og
trúin megnar allt.
Megi alfaðir vernda og blessa
elsku pabba minn og leiða hann
um eilífðar lönd. Hafi hann hjart-
ans þökk fyrir allt.
Þuríður Egilsdóttir