Morgunblaðið - 14.05.1996, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 14.05.1996, Blaðsíða 28
28 ÞRIÐJUDAGUR 14. MAÍ1996 MORGUNBLAÐIÐ MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. MAÍ1996 29 STOFNAÐ 1913 ÚTGEFANDI: Árvakur hf., Reykjavík. FRAMKVÆMDASTJÓRI: Hallgrímur B. Geirsson. RITSTJÓRAR: Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. AHÆTTUSAMAR HVALVEIÐAR FJÖLDI þingmanna hvatti í utandagskrárumræðum á Alþingi í síðustu viku til að hvalveiðar yrðu hafnar að nýju. Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir í umræðunum að ekki væri spurning um hvort heldur hvenær íslendingar hæfu hvalveiðar. Ljóst væri að það myndi kosta talsverð átök við aðrar þjóðir að hefja hval- veiðar að nýju og taldi ráðherrann óráð að fjölga átaka- sviðum að svo stöddu. Sjávarútvegsráðherra vék einnig að öðru stóru vanda- máli varðandi hvalveiðar þegar hann sagði í Morgunblað- inu í síðustu viku: „Það er aftur á móti ljóst, eins og sak- ir standa, að við getum hvergi selt hvalaafurðir. Veiðarn- ar yrðu að takmarkast við heimamarkað því engin þjóð myndi kaupa af okkur hvalaafurðir, eins og staðan er í dag. Við þurfum m.a. að knýja fram breytingar á þessu á alþjóðavettvangi.“ Talsmenn hvalveiða hafa með því að framreikna tekjur Islendinga af hvalveiðum á árum áður komist að þeirri niðurstöðu að hægt væri að hafa tveggja milljarða tekjur af þeim árlega. Eins og mál standa má hins vegar telja ólíklegt að sú verði raunin. Útflutningur á hvalaafurðum stendur hreinlega ekki til boða og hafa til að mynda hrefnuveiðar Norðmanna ein- skorðast við heimamarkað. Á meðan engir markaðir eru til staðar er óvarlegt að hefja hvalveiðar að nýju. í ljósi þeirrar andstöðu við hvalveiðar, sem er að finna á helstu útflutningsmörkuðum íslendinga í Evrópu og Bandaríkjun- um, er tæpast hyggilegt að stofna þeim hagsmunum, sem við eigum þar að gæta, í hættu fyrir óvissan ávinning. Þá veikir það jafnframt málstað okkar að við höfum ekki tekið þátt í störfum Alþjóðahvalveiðiráðsins, en þau samtök eru, þrátt fyrir alla sína galla, eini viðurkenndi vettvangurinn á alþjóðavettvangi fyrir ákvarðanir um hvalveiðar. íslendingar væru með hvalveiðum að bjóða umheiminum birginn. Það hefur áður sýnt sig að kaupendur sjávaraf- urða í helstu markaðslöndum okkar eru viðkvæmir fyrir hvalveiðum. Því er ekki einungis hægt að kenna um óbil- gjörnum áróðri öfgasamtaka. Hins vegar greinir menn á um hversu hörð og almenn sú andstaða er nú. Það gæti verið dýrkeypt að láta á það reyna. í þessu vandasama máli verða menn að vega og meta heildarhagsmuni okkar og láta þá ráða. STRÚTAR OG AÐRIR FOGLAR * URSLIT sveitarstjórnarkosninganna í hinu nýja sveitar- félagi á norðanverðum Vestfjörðum hljóta að vera verulegt umhugsunarefni fyrir stjórnmálaflokkana. E-list- inn, „Funklisti“ framhaldsskólanemenda á ísafirði, fékk 18,2% gildra atkvæða í kosningunum, meira fylgi en bæði Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur og helminginn af fylgi Sjálfstæðisflokksins. Funklistinn fékk tvo korn- unga fulltrúa kjörna í bæjarstjórn. Að sögn forsvarsmanna Funklistans var stefnuskrá hans að hálfu grín og að hálfu alvara. Hún bar hins veg- ar keim ádeilu á gömlu flokkana, enda er ástæða þessa óvenjulega kosningasigurs líkast til óánægja kjósenda með flokkana, sem átt hafa fulltrúa í sveitarstjórnum á svæðinu. Einnig má telja líklegt að áhyggjur ungra kjós- enda af framtíð Framhaldsskólans hafi haft sitt að segja um kosningaúrslitin. Svo mikið er víst að forsvarsmenn flokkanna verða að taka sér tak og ekki sízt að endurskoða samband sitt við yngri kjósendur. Hafi flokkarnir ekki meiri tiltrú meðal ungra kjósenda í landinu en svo, að stór hluti þeirra kjósi lista, sem virðist boðinn fram í hálfkæringi, eru þeir í nokkrum vanda staddir. Framhaldsskólanemar á ísafirði kunna að hafa verið að fara annað með nafngiftinni á framboðslista sínum, en sé upprunaleg merking orðsins „funk“ í ensku höfð í huga, þ.e. hræðsla eða skelfing, má kannski segja að E-listamenn hafi hleypt nokkurri hræðslu í flokkakerfið á Vestfjörðum - og kannski víðar. Sumir sveitarstjórnar- menn brugðust rétt við þessari „ögrun“, aðrir fóru í hlut- verk strútsins rétt eins og fyrri daginn! i JÚPÍTER ÞH að draga nótina í Síldarsmugunni sl. laugardag. Morgunblaðið/Kristján Nóg af síldinni en hún liggnr djúpt Veiðar úr norsk íslenska síldarstofninum hóf- ust 10. maí og voru þá um 40 íslensk nóta- veiðiskip komin í sfldarsmuguna rétt utan við landhelgismörkin austur af landinu. Kristján Kristjánsson var um borð í einu þeirra og fylgdist með veiðinni. SILDIN getur verið brellin og það fengu sumir skipstjórnarmenn að reyna á miðunum í Síldarsmugunni. GÍFURLEGT magn er af síld á mjög stóru svæði í síldar- smugunni, en hún reyndist mörgum skipstjórnar- mönnum erfið viðureignar fyrstu dagana. Síldin liggur mjög djúpt, á allt að 170 föðmum, og kemur ekki upp á veiðanlegt dýpi fyrr en tekur að skyggja. Þó fékk einstaka skip ágætis afla yfir hábjartan daginn. Hæglætis veður var á miðunum en þó mikil þoka fyrstu dagana og skyggni lítið sem ekkert. Síldin er þokkalega stór en mögur og fituinni- hald lítið eða í kringum 10%. Bjarni Bjarnason, skipstjóri á Súl- unni EA 300 frá Akureyri, hélt á miðin um kl. 22 sl. þriðjudagskvöld og skipið landaði fullfermi, um 750 tonnum, á Neskaupstað upp úr kl. 8 í gærmorgun. Súlan kastaði alls sex sinnum í túrnum og fékk tvö „búmm“, þ.e. kastaði án árangurs. Síldin náði þá að stinga sér niður úr nótinni áður en tókst að snurpa. Síðustu kílóin fékk Súlan úr nót Þórð- ar Jónassonar EA 350 frá Akureyri sem skömmu áður hafði fyllt sig með sæmilega stóru kasti. Þá voru skipin um 290 sjómílur austur af Norðfjarð- arhorni. Síldin á fullri ferð norðaustur „Það er afar ánægjulegt að sjá alla þessa síld á svæðinu. Hún var þó aðeins að stríða okkur til að byrja með. Það er ekki á vísan að róa með síldina en við komum til með að veiða hana einhvern tímann. Þó virðist eins og síldin sé á fullri ferð í norðaustur og við erum nú ekki alveg sáttir við það ferðlag á henni. Hún er í ætis- leit og þegar hún finnur hún ein- hvern samastað stoppar hún og verð- ur um leið mun veiðanlegri," segir Bjarni. Hann sagði að óvenju mikið basl hafi verið í upphafi vertíðarinnar og margir lent í því að rífa nótina. Nokkrir skipstjórar kvörtuðu mikið í talstöðinni og höfðu allt á hornum sér. Bjarni sagði að alltaf væri nokk- uð um grátur hjá einstaka skipstjór- um en það væru yfirleitt þeir sem þó veiddu mest. Eftir að samið var við Norðmenn, Færeyinga og Rússa um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum var hlutur íslensku skipanna 190 þúsund tonn. Þar af var 182 þúsund tonnum skipt á 59 nótaveiðiskip en 8.000 tonn voru tekin frá fyrir þá togara sem áhuga hafa á að reyna fyrir sér á miðunum austur af landinu. Súlan EA fékk úthlutað 3.000 tonnum og er Bjarni skipstjóri mjög óhress með hvernig staðið var að skiptingu kvót- ans og finnst hún ósanngjöm. Merkileg formúla við skiptingu kvótans „Hún er nokkuð merkileg formúl- an sem ráðuneytið fann upp að þessu sinni við skiptingu síldarkvótans. Nú er kvótanum skipt á skip samkvæmt heildarrúmmáli þeirra en við skipt- ingu loðnukvótans er stuðst við burð- argetu skipanna. Sú skipting er mun réttlátari að mínu mati og það ríkir jafnframt mun meiri sátt um hana. Ég hélt að það væri komin hefð fyr- ir þeirri skiptingu og skil ekki af hverju þurfti að breyta því fyrir- komulagi. Með því að skipta kvótan- um á skip eftir heildarrúmmáli eru skipin að fá kvóta út á stór og fín híbýli og jafnvel fleiri og stærri sal- erni um borð. Það má líkja þessu við vörubíla af sömu stærð en annar fær meira magn af því að hann er með koju.“ Bjarni er hins vegar nokkuð ánægður með að gerður hafi verið samningur um veiðar úr íslensk- norska síldarstofninum, eins og hann kýs að kalla stofninn. „Samningurinn hefði mátt vera fyrr á ferðinni enda voru skipin flest komin á miðin er þau fengu að vita hversu mikinn kvóta þeim var úthlutað. Það er hins vegar nauðsynlegt að ná samningum um veiðarnar en svo má auðvitað alltaf deila um hvort heildarkvóti okkar er nægilega mikill." Síld á gríðarlega stóru svæði Bjarni segir að síld hafi fundist á gríðarlegu stóru svæði, allt að 100 mílna svæði bæði norður suður og austur vestur og eitthvað hefur orðið vart við hana í íslenskri lögsögu. Hún er hins vegar á töluverðri ferð í ætis- leit eða á allt tveggja mílna hraða á klukkustund. Sem fyrr segir er síldin frekar fituinnihaldslítil en Bjarni seg- ir ástæðu þess að skipin hófu veiðar strax og leyfi fékkst til þess, helgist af þeirri óvissu sem ríkir um ferðalag síldarinnar frekar en að um óþolin- mæði skipstjórnarmanna sé að ræða.“ Að mati Bjarna væri mjög æski- legt að einhver veiðiskip tækju að sér að fylgjast með síldinni þarna norðurfrá seint í júní og þau skip sem það gerðu fengju þá einhvern viðbót- arkvóta á móti. „Það er komin hefð fyrir því að hefja loðnuveiðar 1. júlí og það væri mun hentugra ef hægt væri að hefja síldveiðar t.d. eftir sjó- mannadag og fram í júlíbyijun og fara svo á loðnuveiðar í beinu fram- haldi. Um leið fengjum við mun betra hráefni á síldveiðunum. En menn þora ekki að bíða, enda er ómögulegt að átta sig á ferðalagi síldarinnar." Tæp 7.000 tonn á vertíðinni í fyrra Á síldarvertíðinni í fyrra landaði Súlan síðasta túr fyrir verkfall 25. maí og þá var fituinnhald síldarinnar 11%. Eftir verkfall landaði skipið aftur 19. júní og þá var fituinnihald- ið orðið 21% eða 10% meira á þrem- ur vikum. Bjarni segir að þessi 10% fituaukning ætti að gefa um 3.000 kr. meira á hvert tonn í útflutnings- verðmæti. Síldarvertíðin í fyrra gekk mjög vel hjá Súlunni en þá landaði skipið tæplega 7.000 tonnum en heildaraflinn á vertíðinni var þá um 176 þúsund tonn. Kvóti Súlunnar í ár er því rúmlega helmingi minni en skipið veiddi á síðustu vertíð. „Síldveiðar eru skemmtilegasti veiðiskapur sem menn fara á að öllu jöfnu. Ég fór fyrst að veiða síld árið SÚLAN EA fékk síðustu kílóin úr nótinni hjá Þórði Jónassyni EA sem hafði fyllt sig skömmu áður. Á myndinni er verið að dæla síldinni í lestar Súlunnar. Skipin héldu svo fullhlaðin til hafnar. MESTA erfiðsvinna hásetanna er við að leggja BJÖRGVIN Baldursson er bæði snjall harmoníku- nótina í nótakassann um leið og hún er dregin og gítarleikari og auk þess hagyrðingur góður. um borð. Ármann Jónsson sá þó ástæðu til að Ef marka má svipinn á honum gæti vísa verið að brosa yfir öllu saman. fæðast úti á dekki. KRISTINN matsveinn kann sitt fag og kunnu skipverjarnir vel að meta matinn sem hann bauð. Hér taka duglega til matar síns, f.v. Bjarni skipstjóri, Jóhann Gylfason, 2. stýrimaður, og hásetarn- ir Björgvin Baldursson, Gunnar Jónsson, Kristján Pétursson og Guðmundur Júlíusson. ÁGÚST Einarsson, 1. vélstjóri, er aldursforsetinn um borð í Súlunni. Hann lét sig samt ekki muna um að klifra upp um allt skip með smursprautuna. SÚLAN EA siglir að bryggju í Neskaupstað, þar sem skipið landaði fullfermi af síld hjá Síldar- vinnslunni í gærmorgun. Frammi í stafni er Gunnar Jónsson háseti að gera klárt. SANNKÖLLUÐ hátíðarstemmning ríkti um borð í Súlunni á leið til lands og þeir félagar Björg- vin Baldursson háseti og Kristinn Hauksson matsveinn tóku hljóðfæri sín fram og spiluðu m.a. Síldarvalsinn af miklum myndarskap. 1966 og þá sem háseti en það var einmitt síðasta stóra síldarárið. Vert- íðin árið eftir var léleg en þá vorum við að elta síldina lengst norður fyrir Bjarnarey. Vertíðin 1968 var einnig léleg en það var síðasta árið sem við veiddum úr þessum stofni en þá vor- um við lengst norður i hafi og söltuð- um aflann um borð. Næstu ár þar á . eftir fórum við til veiða í Norðursjón- um en þar er allt annar síldarstofn. Árið 1977 hófust svo veiðar á sumar- loðnu og upp frá því höfum við verið að veiða loðnu stóran hluta ársins.“ Flest nótaskipin stunda síld-, loðnu- og rækjuveiðar en töluvert er um uppihald hjá þeim á hveiju ári. Bjarni segir nauðsynlegt að leita leiða til þess að hægt sé að halda skipun- um að veiðum yfír lengri tíma. í því sambandi nefnir hann möguleika á að veiða kolmuna í flottroll. Alltaf í sömu peysunni Það hefur oft verið sagt um sjó- menn að þeir séu hjátrúafullir og vissulega er hjátrú um borð í Súl- unni. Þar hefst t.d. aldrei vertíð á mánudögum eða miðvikudögum. Þá er Bjarni með forláta peysu um borð, sem hann klæðir sig alltaf í áður en kastað er á síld eða loðnu. Peysan, sem er 12 ára gömul, er orðin ansi slitin, hún er hnésíð og ermarnar teygðar langt fram fyrir fingur. Kona Bjarna pijónaði peysuna á sínum tíma en hún hefur nú gefið honum ströng fyrirmæli um að henda peys- unni en það segir Bjarni að komi ekki til greina. „Þeir sjá það vakt- mennirnir að það er eitthvað að ger- ast þegar ég stekk í peysuna." Bjarni fór fyrst um borð í Súluna í mars 1968 en þá var skipið aðeins þriggja mánaða gamalt. Hann tók alfarið við skipstjórn árið 1978 en hann er auk þess annar eigenda skipsins í dag á móti Sverri Leós- syni. í haust verður farið í umfangs- miklar breytingar og endurbætur á Súlunni og er heildarkostnaðurinn við verkið um 110-120 milljónir króna. Bjami sagði að það hafi vissu- lega verið skoðað að kaupa nýtt skip en útgerðin hafi einfaldlega ekki haft bolmagn til þess, m.a. út af röngum reglugerðum, eins og Bjami orðaði það. Verkið verður unnið í Póllandi og verður hafíst handa í byijun ágúst nk. Skipið verður m.a. lengt um 6 metra og byggð verður ný brú og hæð undir hana. Við breyt- ingarnar eykst burðargeta Súlunnar um 200 tonn. Sloppið við slys og áföll „Þetta er að verða eina skipið af þessum gömlu sem ekkert hefur ver- ið breytt og það er því kominn tími á það. Ég mun hins vegar halda gráa litnum áfram og peysan góða mun fylgja mér yfir í nýju brúna. Annars hefur skipið farið vel með mig í gegn- um tíðina. Ég hef hins vegar sagt að mín mesta gæfa sem skipstjórnar- manns er að hafa sloppið nánast al- veg við slys og áföll. Ég hef líka verið lánsamur með mannskap um borð og hér hefur t.d. einn skipveiji verið með mér í 21 ár,“ sagði Bjarni. Mórallinn í þessu litla samfélagi um borð í Súlunni er mjög góður enda hópurinn vel samstilltur. Skip- , veijarnir hæla Bjarna skipstjóra og * segja hann þægilegan í viðmóti og ‘ fiskinn. Dauði tíminn um borð, sem oft getur verið langur, er notaður til • að grípa í spil, tefla, horfa á mynd- [ bandsspólur eða lesa blöð og bækur.«t Þá grípa menn í hljóðfæri stöku sinn- J um. Já, lífið um borð gengur sinn vanagang. Saman leggjast allir á eitt að vinna hratt og vel þegar það á við. Og það hefur í gegnum tíðina svo sannarlega skilað árangri um borð í Súlunni. Eins og áður kom fram fékk Súlan j síðustu kílóin í þessum fyrsta túr úr nótinni hjá Þórði Jónassyni EA en Bjami segir að mikil og góð sam- vinna hafí verið milli sín og öðlings- J ins Harðar Björnssonar, skipstjóra á | Þórði Jónassyni, í gegnum tíðina. | Af þessu tilefni varð til eftirfarandi 4 vísa hjá Björvini Baldurssyni, hásetaf á Súlunni: f Erfitt reyndist upp að ná afla af síldarkyni þáðum rest með þökkum frá Þórði Jónassyni. f
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.