Skírnir - 01.01.1913, Blaðsíða 41
Lyf og lækningar.
41
Sullaveikin hefir legið hér í landi öldum Baman og
drepið fjölda manna. Langur tími er liðinn síðan vér
fengum ítarlega þekkingu á eðli og uppruna veikinnar.
Ekkert væri auðveldara en útrýma henni algjörlega úr
landinu, því það eitt nægir að hundar nái aldrei í sulli
þegar kindum er slátrað. Þetta hefir verið ótal sinnum
brýnt fyrir mönnum, en mannrænu og hirðusemi hefir
skortað. Ef vér tækjum oss fram í þessu, hlyti veikin að
hverfa. Þó þetta iiggi næst, gæti komið til tals að út-
rýma hjá oss fleiri sóttum, t. d. taugaveiki og barnaveiki,.
en meiri erfiðleikum er það bundið.
Breyttir Heilbrigði manna er mjög undir lifnaðarháttum
lifnaðar- þeirra komin. Það skiftir ekki litlu máli livort
liættir. yiðurværi er gott, húsakynni góð, og hvort
menn að ýmsu öðru leyti lifa skynsamlega eða ekki. Að
mannsæfin hefir lengst stórum hér á landi, er mikið að
þakka betra viðurværi ungbarna og betri meðferð á þeim,
þó mjög só enn ábótavant með hvorttveggja víða hvar.
Með vaxandi menningu og aukinni þekkingu er vonandi
að flest breytist stórum til bóta í þessum efnum. Víðast
eru húsakynni vor léleg, fötin ekki svo hentug sem skyldi,
fæðið hvergi nærri svo gott sem vera mætti. Ofan á
þetta bætist, að hreinlæti er viðast mjög ábótavant. Alt
þetta þarf að breytast til batnaðar og gjörir það eflaust.
Og það er lítill vafi á því, að heilbrigði manna batnar
þá jafnframt að sama skapi.
Þó það sé dýrmætt að geta fengið sem flesta sjúk-
dóma læknaða og fundið lyf við þeim, þá er þó enn betra
að geta afstýrt þeim með öllu. Af þessu hefir árangur-
inn orðið mestur og þetta verður aðaltakmark læknis-
fræðinnar á komandi öldum.