Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Síða 16
14
lendan mann, svohljóðandi: „Einkum virðist það, hversu minnst er
á Fiskivötn, benda á mann úr Vestur-Skaftafellssýslu (sem höf.
Njálu). Varla mundi öðrum hafa dottið í hug að nefna þessi vötn,
sem eru nærri óþekkt í öðrum landshlutum; en úr Skaftártungu og
sveitunum þar umhverfis má ætla, að menn hafi, þegar á þeim tíma,
farið þangað á hverju ári, og var þá farið úr byggð hina sömu leið
og þegar farinn var Mælifellssandur". (U. N. 366. Letr.br. hjer). —
Þessar hugsmíðar, að viðbættum öðrum álíka um fjölda og lögun
Fiskivatna, sem síðar verður drepið á, finnast dr. E. Ó. Sv. „miklu
sennilegri" en röksemdir Sigurðar Vigfússonar fyrir því, að vötnin
hafi verið hjá Bláfjalli. Við hinar tilvitnuðu setningar er það fyrst
að athuga, að ef svo hefði verið, að Skaftfellingar hefðu „þegar á
þeim tíma“, er höf. var uppi, þ. e. seint á 13. öld, að áliti dr E. Ó Sv.r
farið árlega til Fiskivatna, hefði skaftfellskur höf. Njálu ekki þurft
að hugsa sjer vötnin á röngum stað. Hann hefði vitanlega getað fengið
ábyggilegar upplýsingar um, hvar vötnin voru, hjá samtíðarmönnum
sínum, og af þeim sjeð, hvort nokkur líkindi voru til þess, að Flosi
hefði farið nærri þeim, er hann fór Mælifellssand vestur í Rangár-
þing.
Næst er að athuga, hvort líklegt sje, að Fiskivötn norðan Tungna-
ár hafi verið fundin eða þekkt á 13. öld. Dómurinn, sem dæmdur
var í Skarði á Landi 1476 — nál. 2 öldum síðar en talið er að Njála.
hafi orðið til í núverandi mynd —, er líklega elzta plagg, sem til er
viðvíkjandi landssvæði því, er Fiskivötn eru í. Hann hljóðar um tak-
mörk og eignar- og afnotarjett á afrjett Holta- og Landmanna. t
dómnum eru og talin upp hlunnindi í afrjettinni, en þau eru: fugla-
veiði, grasatekja og rótagröftur. Dómurinn er sjálfur glataður (þ. e.
frumritið), en til eru af honum tvær afskriftir, og er önnur talin
vera góð, — en hin fölsuð í mikilvægum atriðum (sbr. Isl. Forn-
bréfasafn VI., 81.—82). 1 ófölsuðu afskriftinni eru Fiskivötn hvergi
nefnd, og þá vitanlega heldur ekki veiði í þeim. Þetta bendir alveg
eindregið til þess, að veiðin í vötnunum — og jafnvel vötnin sjálf —
hafi ekki verið þekkt eða fundin á ofanverðri 15. öld. Annars hefðí
hennar verið getið með hlunnindum. Hin hlunnindin hafa verið lítils
virði móts við veiðina, eftir að hún þekktist. Það þarf enga undrun
að vekja, þó Fiskivötn sjeu ekki fundin á þessum tíma. Vötnin eru á
mjög afskekktum stað, og miklar auðnir í kringum þau. Þó Holta- og
Landmenn notuðu afrjettinamilli Köldukvíslar ogÞjórsár, þ.e. „Þjórs-
ártungur milli Tungnaár og Sprengisands" eins og í dómnum stend-
ur, eru líkindi til, að þeir hafi ekki farið mikið austur fyrir Köldu-
kvísl, vegna hinna ferlegu auðna austan hennar, og svo er ekki ó-