Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1940, Qupperneq 63
55
gilda. En það er hans verk, að reyna að finna sannleikann í þessu
máli. Sýsluhégómagirnd og sveitarmetnaður á þar engan rétt á sér.
Ég er ekki hæfur til að dæma um gildi rita minna um íslenzkar
fornsögur, það er annara að gera. Ég hef gert nokkrar, sjálfsagt mjög
ófullkomnar, tilraunir til að tengja nokkur fornrit við menningarlíf
þess héraðs, þar sem ég hef hugsað mér þær til orðnar. Það er óþarfi
að fara að telja það upp. En athugun þeirra, kannske ekki sízt ritsins
Um Njálu, ásamt með ritgerðinni Njála og Skógverjar, og bæklings-
ins Sagnaritun Oddaverja, ætti að sýna, að fyrir mér vakti annað en
fánýtur sveitametnaður. Þetta er að vísu ekkert að stæra sig af, þetta
er sjálfsögð skylda, sem flestir sagnakönnuðir síðari tíma hafa rækt.
En þegar á að leggja vísindin undir hreppapólitískt ok, má ekki minna
vera en á það sé bent og það nefnt sínu rétta nafni.
SkoSanir mínar. A. J. J. segir í upphafi greinar sinnar, að það
sé annað höfuðmarkmið bókar minnar um Njálu, „virðist mjer“, „að
reyna að slá því föstu, að höfundur hennar hafi verið Skaftfellingur, en
ekki Rangæingur eða úr öðrum hjeruðum“, og líkt segir hann á öðrum
stað. Um þetta væri nú væntanlega ekkert að segja, ef rétt væri. En A.
J. J. lætur þar ekki staðar numið. Sýknt og heilagt hamrar hann (og
Sk. G. með) á því, að ég halli á Rangæinga í rannsókn minni, en finni
málsbætur á þverbrestum staðháttalýsinga í Skaftafellsþingi. Einna
lengst gengur A. J. J., þar sem hann segir (bls. 16) : „Það eru aðrir,
sem hafa hugsað sjer þau (o: Fiskivötn) á „röngum“ stað, af ýmsum
ástæðum, m. a. þeirri, að því er virðist, að það sjáist „greinilega", að
höf. Njálu sjái Fiskivötn úr Skaftafellssýslu! (Sbr. „U. N., bls. 367)“.
Eg þekki ekki hr. A. J. Johnson, en ég held mér skeiki ekki, að ýmsir
mundu hugsa sig um tvisvar, áður en þeir kæmu fram með slíka hluti
í umræðum, sem eiga þó að vera vísindalegar. Um andsvör af minni
hálfu við öðru eins og þessu er vitanlega ekki að ræða.
Ég þykist ekki hafa verið myrkur í máli í bók minni „U. Nj“, en úr
því að hvorki A. J. J. né Sk. G. hafa meira en svo glöggvað sig á niður-
stöðum mínum, skal ég taka þær upp. Bls. 342 ræði ég um verkefnið:
hvar er sagan skrifuð ? og svara þeirri spurningu þegar í stað: það er
um það bil óhugsandi, að hægt sé að öðlast vissu um það. En hitt sé
að líkindum gerlegt, að komast að raun um, hvar höfundur sé kunn-
ugastur, og þegar síðar í bókinni sé talað um, að höf. sé Breiðfirðing-
ur, Rangæingur eða Skaftfellingur, þá sé átt við, að hann sé þar kunn-
ugur og hafi dvalið þar langdvölum. Niðurstaða mín á athugun stað-
háttalýsinga í Rangárþingi er nákvæmast til tekin á bls. 358: „að ekki
geti komið til mála, að hann (o: höf.) hafi alizt upp eða dvalizt lang-